01. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna. Læknaskortur á Íslandi – tímabært að þétta raðirnar og stoppa lekann! Theódór Skúli Sigurðsson
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.
Læknafélag Íslands hefur ítrekað varað við viðvarandi læknaskorti á Íslandi en alltof lengi talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda. Almenningur hefur ekki farið varhluta af þessari alvarlegu stöðu, þar sem biðtími eftir greiningu og sérhæfðri meðferð sjúkdóma heldur áfram að lengast. Staða margra sérgreina er mjög viðkvæm og víða erum við háð erlendum afleysingarlæknum til að manna fastar vaktir á heilbrigðisstofnunum. Ástæður þessa læknaskorts eru margþættar, en helst ber að nefna alvarlegt vanmat á læknaþörf á Íslandi, lélegar starfsaðstæður lækna á Íslandi í stöðugu álagsumhverfi og sanngjarna kröfu nýrrar kynslóðar lækna um mannsæmandi kjör og vinnutíma sambærilegan við aðrar heilbrigðisstéttir.
Búa þarf betur að læknum á Íslandi til að fyrirbyggja frekara brotthvarf úr stéttinni og tryggja nauðsynlega endurnýjun. Fleiri hundruð íslenskir læknar hafa lokið námi og starfa erlendis, læknar sem eru í biðstöðu með að flytja heim, meðal annars vegna óhagstæðra kjara og vinnuaðstæðna hér á landi. Stjórnvöld á Íslandi þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að þessir læknar snúi heim á komandi árum.
Nauðsynlegar umbætur á vinnuskipulagi lækna
Að hafa eitthvað um það að segja hvernig læknastarfið er skipulagt er sterkasti þátturinn í að tryggja starfsánægju læknsins, viðhalda tryggð við vinnustaðinn ásamt því að vera fyrirbyggjandi þáttur gegn kulnun í starfi. Samstarf Landspítala við Læknafélag Íslands og Félag sjúkrahúslækna um nýtt vinnuskipulag og starfsáætlanir lækna seinasta ár hefur varpað betra ljósi á þessa þætti og þann læknaskort sem hefur verið til staðar innan Landspítala. Markmið þessa samstarfs er að búa til betri umgjörð um vinnu og starfsskyldur lækna og reyna að skipuleggja starfið þannig að það rúmist innan eðlilegrar vinnuviku án þess að ganga á nauðsynlegan frítíma. Nýverið stóðu svæfinga- og gjörgæslulæknar á Landspítala frammi fyrir erfiðri stöðu eftir mikil kynslóðaskipti með úrelt vinnu- og vaktafyrirkomulag sem ógnaði bæði öryggi sjúklinga og starfsmanna. Mikið álag og látlaus vinna olli því að læknar deildarinnar voru farnir að sýna merki um kulnun, veikjast og jafnvel segja upp störfum. Krafa læknanna um tímabærar breytingar á vinnufyrirkomulagi auk nauðsynlegrar fjölgunar stöðugilda var á endanum samþykkt. Svæfinga- og gjörgæslulæknar spítalans voru hluti af fyrstu læknunum sem tóku þátt í verkefninu um nýjan vinnutíma og starfsáætlanir. Hugmyndafræðin á bak við verkefnið og fyrri umbætur eru farnar að hafa áhrif, með auknu gæða- og rannsóknastarfi, meira svigrúmi til kennslu og endurmenntunar, auk þess sem umsækjendum um auglýstar stöður fer hægt fjölgandi.
Sanngjörn leiðrétting á kjörum lækna er tímabær
Læknum hefur verið gróflega mismunað í seinustu tveimur kjaraviðræðum, en ekki hefur komið til greina að bjóða læknum styttingu vinnuvikunnar í anda annarra kjarasamninga. Afleiðingin er sú að læknar á Íslandi hafa dregist aftur úr almennri launaþróun, vinna lengri vinnuviku og fá lægri álagsgreiðslur á hátíðisdögum en aðrar heilbrigðistéttir. Læknar munu ekki sætta sig lengur við slíka kjaramismunun og að öllu óbreyttu stefnir í læknaverkfall næsta vor, fáist ekki sanngjörn leiðrétting á kjörum og vinnutíma. Stjórnvöld þurfa að stíga ákveðið fram og sjá til þess að læknar á heilbrigðisstofnunum fái hagstæðan kjarasamning, því öðruvísi mun ekki takast að styrkja grunnstoðir íslenska heilbrigðiskerfisins og lagfæra núverandi læknaskort.
Félag sjúkrahúslækna getur haft áhrif og bætt hag sinna félagsmanna
Mikilvægt er að læknar séu virkir þátttakendur í aðildarfélögum Læknafélags Íslands, því það er eina leiðin til að efla samstöðuna og forsenda þess að ásættanlegur kjarasamningur náist. Félag sjúkrahúslækna hefur reynt að færa stéttarfélagsvinnuna nær gólfinu, sennilega nær en marga félagsmenn grunar eða gera sér grein fyrir. Ákveðin vitundarvakning er loksins að verða hjá læknum er varðar samanburð launa með tilliti til grunnlaunaröðunar og viðbótarþátta. Félag sjúkrahúslækna getur veitt mikilvægan stuðning í þeim málum og nokkrir „sigrar“ hafa unnist bak við tjöldin. Félag sjúkrahúslækna mun standa fyrir tveimur málþingum á næstu Læknadögum er varða starfsaðstæður lækna þar sem fjallað verður um hugsanlega sóun í heilbrigðiskerfinu og áform um fjölgun opinna vinnurými á heilbrigðisstofnunum.