06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Öldungadeildin: Læknir í 50 ár. Katrín Fjeldsted

Það er mér ógleymanlegt er ég stóð á tröppum Háskóla Íslands vorið 1973, 26 ára gömul og nýútskrifaður læknir. Við mér blasti að lífið væri framundan og möguleikarnir óendanlegir en þó óræðir. Síðan eru liðin 50 ár, eins og örskot.

Haustið 1973 vann ég í nokkra mánuði á svæfingadeild Borgarspítalans en flutti svo um jólin með börnin tvö til Bretlands. Þangað var eiginmaður minn fluttur á undan okkur. Lífið fannst mér sem bjartsýnni ungri konu alls ekki flókið. Koma þurfti sér fyrir í nýju landi, sinna manni og börnum, fá heimilishjálp, komast á kandídatsár. Til þess að það síðastnefnda tækist þurfti að meta læknisfræðilega þekkingu mína, þar sem enginn samningur var þá milli Íslands og Bretlands um háskólamenntun, og var ég því undir vinsamlegu eftirliti í nokkrar vikur á West Middlesex Hospital. Það gekk vel en ég minnist þess að hafa þar skoðað sjúkling af gula kynstofninum og áttað mig ekki strax á því að hann væri gulur, það er með gular sclerae. Ógleymanlegt.

Með John Salinsky í tilefni af heiðursnafnbótinni FRCGPs 19. nóvember 2021.

Á kandídatsárinu var ég á Edgware General Hospital í norðurhluta London og í 6 mánuði af 12 var vinnuvikan 120 tímar (í vikunni eru 168 tímar). Yfirvinna var ekki greidd enda töldu eldri læknar vinnuna létt verk og löðurmannlegt, þeirra eigin vinnuskylda hafði á sínum tíma náð 168 tímum. Ég tel víst að ég hafi stytt lífslíkur mínar um ein 5 ár á þessum 6 mánuðum enda svefninn ekki vís. Ekki að furða að ég hafi síðar á ævinni í erlendu samstarfi tekið þátt í stefnumótun um öryggi sjúklinga og velferð lækna.

Ég vann á Northwick Park Hospital á bráðamóttöku vel á annað ár. Vaktir voru tvískiptar í fyrstu en svo fóru unglæknar í Bretlandi í verkfall og kröfðust þess að vaktir yrðu þrískiptar, það er að segja virkir dagar og aðeins þriðja hver nótt. Það gekk eftir og það merkilega er að þeir fóru ekki aftur í verkfall fyrr en áratugum síðar þegar Jeremy Hunt var heilbrigðisráðherra og allt fór úr böndunum. Leiðarljós ungra lækna var í báðum þessum verkföllum hið sama: áhyggjur af öryggi sjúklinga í höndum örþreyttra lækna, ónóg mönnun og mikið vaktaálag. Kunnugleg lýsing ekki satt? Fróðlegt er að lesa umfjöllun um verkfallið 2016 í bók eftir Rachel Clarke Your Life in my Hands (2017). Mæli með henni. Og enn á ný blása breskir unglæknar til verkfalla.

Kandídatsár og eftir það vinna á ýmsum spítaladeildum höfðu orðið til þess að ég áttaði mig á að það væri mun áhugaverðara að eiga samskipti við vakandi fólk en sofandi og deila með því sorgum og gleði. Hugmyndir mínar um að leggja fyrir mig svæfingar hurfu fyrir áhuga á heimilislækningum. Ég var svo heppin að komast að því að Gerald Michael heimilislæknir væri með Balint-fundi með læknum í sérnámi í heimilislækningum og leitaði til hans um hvort ég mætti vera með. Hann tók því afar vel og þar komst ég í kynni við Balint á ný en Jakob Jónasson geðlæknir hafði sagt okkur frá bók Michaels Balint, The Doctor, his Patient and the Illness meðan ég var enn í háskóla. Ég fékk einnig að taka þátt í Balint-hópi undir stjórn Olivers Samuel sem var kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum á Northwick Park.

Sérnámi mínu lauk með námsdvöl á Chalkhill Health Centre í Wembley þar sem John Salinsky var mentorinn minn og ævilangur vinur síðan. Tala enn við hann vikulega á Zoom.

Eftir heimkomuna fór ég að vinna um haustið sem aðstoðarborgarlæknir í afleysingum fyrir Heimi Bjarnason. Skúli Johnsen var borgarlæknir og heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa að mestu á forræði sveitarfélaga. Það var fróðlegt að kynnast starfsemi heilbrigðisráðs og heilbrigðisnefndar borgarinnar. Haustið 1980 sótti ég um og fékk stöðu á Heilsugæslustöðinni í Fossvogi. Svavar Gestsson var þá heilbrigðisráðherra.

Svo fór að ég endaði í baráttusæti á lista Sjálfstæðisflokks í framboði til borgarstjórnar og var borgarfulltrúi í þrjú kjörtímabil frá 1982 til 1994. Uppbygging heilsugæslunnar í borginni varð mér baráttumál sem formanni heilbrigðisráðs. Margir töldu að heilsugæslustöðvar ættu fyrst og fremst heima í dreifbýli og lengi eimdi eftir af því. Heimilislækningar sátu á hakanum, einkum hér í Reykjavík, en nauðsynlegt var að grunnur yrði lagður að nútímaheilbrigðisþjónustu.

Það var fremur erfitt hætta störfum sem heimilislæknir en kollegarnir sögðu að annaðhvort yrði maður að segja upp eða fengi uppsagnarbréf sjötugur. Mér var reyndar alveg ljóst hvenær sá afmælisdagur rynni upp! Sjúklingarnir mínir fengu kveðjubréf með þakklæti fyrir samstarfið og þá varð ekki aftur snúið.


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica