01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Spítalastelpan - Hversdagshetjan Vinsý - ritdómur

Smá formáli: Pabbi minn heitinn var fæddur árið 1924. Pabbi mundi vel tímana áður en penisilínið kom til sögunnar og síðan hingað til Íslands. Hann mundi eftir þeim tímum þegar ungir og hraustir bændur í hans sveit fengu fyrst kvef, síðan hósta og áður en hendi var veifað voru sumir komnir með lungnabólgu. Svo dóu þeir bara úr lungnabólgunni enda engin áhrifarík meðferð til við alvarlegum sýkingum á þeim tíma.

Vinsý, söguhetja Spítalastelpunnar, fæðist árið 1937 á Ströndum vestra. Kornabarn að aldri fær hún berkla í hrygg, að líkindum blóðborna frá móður sinni, og er flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði um eins árs aldurinn og dvelur þar í umsjá vandalausra, sjúkrahússtarfsfólksins, til 9 ára aldurs. Meðferðin við berklunum er þeirra tíma meðferð, rúmlega í gipsmótum sem reglulega þarf að skipta um með tilheyrandi sársauka og sáramyndun í húð. Í raun og veru er Vinsý þannig reyrð niður á ókunnum stað þessi mótandi ár barnæskunnar, án þess að geta nokkurn tímann um frjálst höfuð strokið og án þess að sjá foreldra sína allan þennan tíma. Bjargvættir hennar verða starfsfólk sjúkrahússins, heilbrigðisstarfsfólk en einnig og ekki síður annað starfsfólk sjúkrahússins sem í raun gengur miklu lengra í sinni hjálpsemi en skyldan býður þeim að gera.

Höfundurinn: Sigmundur Ernir Rúnarsson

Þessi bók er fyrst og fremst uppvaxtarsaga Vinsýar, þó dálítið sé einnig fjallað um ævi hennar eftir að hún kemst á fullorðinsár. Það er hins vegar saga barnsins Vinsýar sem er merkasta saga þessarar bókar. Lýsingar á læknismeðferð þeirra tíma, samhjálp íbúa í afskekktu byggðarlagi og gæsku ókunnugs fólks eru margar magnaðar í frásögn Vinsýar. Það er ekki einfalt verk utanaðkomandi rithöfundi að láta ævisögupersónu segja sína sögu í fyrstu persónu, en Sigmundi Erni Rúnarssyni tekst afar vel að láta frásagnar-máta og tungutak Vinsýar halda sér trúverðugu og sannfærandi gegnum allt verkið. Gott dæmi um þetta úr bókinni er eftirfarandi frásögn af afa Vinsýar, Jóni á Seljanesi:

„Á fimmtánda ári hafi hann byrjað róðrana á áttæringi þeirra Finnbogastaðabræðra - og ætli það hafi ekki verið á fyrstu vertíðinni sem þeir vinirnir lentu í þeim kaldsamasta róðri sem sögur fara af. Náðu þeir þá ekki landi og urðu að leggjast við stjóra undan Felli í útnyrðings hörku roki og grimmdar frosti. Lágu þeir þar á annað dægur undir stöðugri ágjöf sem fraus svo öll og sýlaði skipið, en fátt var til hlífðar mannskapnum á opnum báti. Stóðu þeir sem dugmestir voru við að berja klakann á bátnum til að létta hann, án sýnilegs árangurs, því ávallt digraðist frerinn.“ (s. 149).

Minnisstæðust er frásögn Vinsýar af foreldrunum sem hún kynntist í raun aldrei, föðurnum sem er látinn þegar hún snýr loks aftur í sveitina sína og móðurinni sem hún nær aldrei djúpum tengslum við og móðirin ekki við hana eftir fjarveruna löngu. Við lesturinn varð mér ítrekað hugsað til þeirrar góðu bókar Sæunnar Kjartansdóttur sálgreinis, Árin sem enginn man, um mikilvægi tengslamyndunar ungbarna við foreldra og áhrif þeirra tengsla á almennan velfarnað síðar á ævinni.

Þessi saga er líka um æðruleysi fólksins sem lifði þessa tíma. Dauðinn var alls staðar nálægur og lítið við honum að gera. Í dag er staðan önnur, enda hafa læknisfræðin og almennar framfarir bylt heimsmyndinni. Nú þykir sjálfsagt að skjólstæðingar (enginn er sjúklingur lengur, heldur allt skjólstæðingar) geri iðulega kröfu um lækningu eða fullkomna úrlausn, ósjaldan á flóknum og langvarandi vandamálum, ekki seinna en samdægurs. Ef læknirinn skyldi svo slysast til að hafa rangt fyrir sér í fyrstu tilraun má alltaf kæra til Embættis landlæknis sem tekur sér alvald í málinu og það er svo á ábyrgð læknisins að sanna sakleysi sitt.

Spítalastelpan er hluti þeirrar Íslandssögu sem núverandi kynslóðir hafa kosið að gleyma, sagan af því að við erum ekki nema innan við 100 ár frá því Íslandi sem var. Þannig er Spítalastelpan ekki bara þörf heldur nauðsynleg áminning til okkar, feiknavel sögð og skilur mikið eftir að lestri loknum.

Frágangur bókarinnar er svo til algerrar fyrirmyndar að mínum dómi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica