12. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Frá Félagi meltingarlækna. Meltingarlækningar í hálfa öld


Félag sérfræðinga í meltingarsjúkdómum (FSM) er 50 ára í ár en þann 28. apríl 1970 var Félag meltingarfræða formlega stofnað í fundarsal Landakotsspítala.

Tilgangurinn með stofnun félagsins var að gera breytingu þannig að aðrir læknar en meltingarlæknar gætu gerst félagsmenn en áður höfðu meltingarlæknar fundað óformlega í heimahúsi. Fyrstu stjórn skipuðu meltingarlæknarnir Ólafur Gunnlaugsson (formaður) og Ólafur Jónsson (ritari) ásamt skurðlækninum Þórarni Guðnasyni (gjaldkeri). Í varastjórn voru Haukur Jónasson og Bjarki Magnússon. Fundað var tvisvar í mánuði á röntgendeild Borgarspítalans að frumkvæði Ásmundar Brekkan. Árið 1997 var félagið aftur gert að félagi meltingarsérfræðinga eingöngu.

Á þeirri hálfu öld sem líður frá því er FSM var stofnað er óhætt að segja að reglulega hafi átt sér stað byltingar í sérgreininni. Tæki til magaljósmyndunar ollu straumhvörfum í greiningu meltingarsjúkdóma en fyrsta tækið, svokallað „gastrocamera“ var tekið í notkun á Íslandi árið 1966. Ári síðar kom trefjaglersáhald til magaspeglunar1 og enn síðar tæki þar sem myndflutningur byggist á sjónvarps-tækni. Brautryðjendur á sviði maga- og ristilspeglana voru meðal annars Tómas Árni Jónasson og Ólafur Gunnlaugsson á Landakoti og Sigurður Björnsson og Birgir Guðjónsson á Borgarspítala. Fyrstu gallvegaspeglunina framkvæmdi Einar Oddsson árið 1978. Árið 2000 eignaðist Landspítali fyrsta ómspeglunartækið eftir söfnun að frumkvæði Árna Ragnars Árnasonar alþingismanns.

Magakrabbamein var mikið vandamál í upphafstíð FSM og áberandi algengara hér en annars staðar á Vesturlöndum. Athygli félagsmanna beindist meðal annars að lífsstíl Íslendinga sem þótti nærtæk skýring1 og síðar magasári.2 Árið 1982 uppgötvuðu svo Nóbelsverðlaunahafarnir Warren og Marshall magabakteríuna Helicobacter pylori og tengsl hennar við þessa sjúkdóma en á sama tíma komu á markað sífellt betri sýrubælandi lyf, H-2 blokkarar árið 1976 og prótónpumpuhemlar árið 1988. Í dag sést magakrabbamein mun sjaldnar á Íslandi.

Bakflæðisjúkdómur og tengsl við vaxandi tíðni vélindakrabbameins3 voru viðfangsefni FSM í kringum síðustu aldamót en vitundarvakningu FSM um bakflæðisjúkdóminn árið 2001 leiddi meðal annars til hnitmiðaðri notkunar prótónpumpuhemla.

Bylting varð í meðferð bólgusjúkdóma í görn árið 1998 þegar fyrsta líftæknilyfið fékk markaðsleyfi við Crohns-sjúkdómi. Í dag eru nokkrar gerðir slíkra lyfja valkostur við bólgusjúkdómum í görn auk líftæknihliðstæðna.

Nýgengi skorpulifrar hefur aukist á Íslandi undanfarna áratugi, meðal annars vegna aukinnar áfengisneyslu.4 Lifrarígræðslur sem meðferð við lokastigs lifrarbilun hófust á 9. áratugnum og 1984 fékk fyrsti íslenski sjúklingurinn ígrædda lifur. Nú hafa yfir 70 einstaklingar gengist undir lifrarígræðslu með góðum árangri.

Gríðarlegum framförum er varða meðhöndlun lifrarbólgu C hafa nýlega verið gerð góð skil í Læknablaðinu5 í tilefni af Nóbelsverðlaununum í læknisfræði sem í ár féllu í skaut Penrose, Genzel og Ghez fyrir uppgötvun veirunnar.

Krabbamein í endaþarmi og ristli (KRE) er annað algengasta dánarmein Íslendinga af völdum krabbameina. Um árabil hefur það verið kappsmál FSM að koma á fót skipulegri hópleit hérlendis svo draga megi úr ótímabærum dauða, þó að innbyrðis hafi verið skipst á skoðunum um aðferð.6-8 Fyrstu sannanir þess að hópleit með leit að blóði í hægðum dragi úr dánartíðni og nýgengi KRE komu fram á árunum 1992-1996.9-11 Niðurstöður bandarískrar rannsóknar gaf svo vísbendingu um verulega lækkun á nýgengi KRE ef kirtilæxli voru fjarlægð í ristilspeglun.12,13 Fræðsluátak á vegum FSM, Embættis landlæknis og Krabbameinsfélagsins hafa vafalítið stuðlað að því hversu vel upplýstur almenningur á Íslandi er um mikilvægi skimunar til að fyrirbyggja KRE.

Briskrabbamein er sjúkdómur sem FSM hefur nýverið beint spjótum að. Hópleit fyrir alla er ekki talin kostnaðarábatasöm en reglubundið eftirlit kæmi til greina hjá völdum einstaklingum í áhættuhóp.

Loks ber að geta þess að frá upphafi hefur FSM verið með eindæmum virkt og hafa félagsmenn hist að minnsta kosti einu sinni í mánuði, allt þar til COVID setti hömlur á samkomur. Nú er von til þess að hægt verði að hittast á ný því ævinlega bíða mikilvæg málefni umfjöllunar. Til hamingju með hálfrar aldar afmælið FSM!

Heimildir


1. Jónasson TÁ. Um speglun á vélinda, maga og skeifugörn. Læknaneminn 1985; 38: 39-44.

2. Björnsson S. Magasár Lyflækningadeild Borgarspítalans 1956-1975. Læknablaðið 1978; 4: 189-95.

3. Blot WJ, Devesa SS, Kneller RW. Rising Incidence of Adenocarcinoma of the Esophagus and Gastric Cardia. JAMA 1991; 265: 1287-89.
https://doi.org/10.1001/jama.265.10.1287
https://doi.org/10.1001/jama.1991.03460100089030
PMid:1995976

4. Ólafsson S, Bergmann Ó, Jónasson JG, et al. Major increase in the incidence of cirrhosis in Iceland - results of a nationwide populationbased study. Hepatology 2011; 54: Suppl 4: A460.

5. Ólafsson S. Nóbelsverðlaun í læknisfræði fyrir uppgötvun lifrarbólguveiru C. Læknablaðið 2020; 106: 503.
https://doi.org/10.17992/lbl.2020.11.604

6. Einarsson S, Ormarsdóttir S, Haraldsson S. Eru ristilspeglanir til skimunar oflækningar? Læknablaðið 2018; 104: 316.

7. Theodórs Á, Stefánsson TB. Leit að blóði í hægðum eða ristilspeglun - Svar við svari Landlæknis. Læknablaðið 2017; 103: 156.
https://doi.org/10.17992/lbl.2017.06.139
PMid:28665286

8. Guðlaugsdóttir S. Leit að blóði í hægðum eða ristilspeglun - Innlegg í umræðu. Læknablaðið 2017; 103: 157.

9. Mandel JS, Bond JH, Church TR, et al. Reducing Mortality from Colorectal Canvcer by Screening for Fecal Occult Blood. N Engl J Med 1993; 328: 1365-71.
https://doi.org/10.1056/NEJM199305133281901
PMid:8474513

10. Kronberg O, Fenger C, Olsen J, et al. Randomised study of screening for colorectal cancer with faecal occult blood test. Lancet 1996; 348: 1467-71.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(96)03430-7

11. Hardcastle JD, Chamberlain JO, Robinson MH, et al. Randomised controlled trial of faecal occult blood screening for colorectal cancer. Lancet 1996; 348: 1472-7.
https://doi.org/10.1016/S0140-6736(96)03386-7

12. Winawer SJ, Zauber AG, Ho MN, et al. Prevention of Colorectal Cancer by Colonoscopic Polypectomy. The National Polyp Study Workgroup. N Engl J Med 1993; 329: 1977-81.
https://doi.org/10.1056/NEJM199312303292701
PMid:8247072

13. Zauber AG, Winawer SJ, O'Brien MJ, et al. Colonoscopic Polypectomy and Long Term Prevention of Colorectal Cancer Deaths. N Engl J Med 2012; 366: 687-96.
https://doi.org/10.1056/NEJMoa1100370
PMid:22356322 PMCid:PMC3322371



Þetta vefsvæði byggir á Eplica