11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Öldungadeild. Málverkin í apóteki Bjarna Pálssonar landlæknis. Halldór Baldursson

Bjarni Pálsson (1719-1779) var skipaður fyrsti landlæknir Íslands árið 1760. Nesstofa við Seltjörn er byggð sem embættisbústaður og vinnustaður landlæknis. Eitt herbergið hýsti apótek landlæknis. Húsið var um það bil fokhelt 1763 og Bjarni flutti þá inn með fjölskyldu sína og bjó þar til dauðadags.1 Landlæknar bjuggu í Nesstofu til 1834 en þá flutti Jón Thorstensen til Reykjavíkur. Húsið komst svo í einkaeign og var búið í húsinu fram undir aldamótin 2000. Ýmisskonar breytingar voru gerðar á húsinu í aldanna rás. Þegar Björn Jónsson lyfsali tók við rekstri apóteksins 1772 var húsinu var skipt milli hans og landlæknis. Síðar var húsinu breytt eftir þörfum seinni íbúa.

Úttektin 1767. Tvö málverk í apótekinu

Mjög nákvæm lokaúttekt á Nesstofu var gerð 1767 og er þar lýst tveimur málverkum í apótekinu. Úttektin er rituð á dönsku. Þar segir um apótekið í lauslegri íslenskri þýðingu:

Yfir báðum dyrunum hefur landlæknir látið gera tvö málverk með táknmyndum, nefnilega:

Yfir glerhurðinni að stúdíu-herberginu eitt (málverk) með flöttum fiski sem merki Íslands, og þrem kórónum yfir honum til allra undirdánugastrar og þakksamlegastrar minningar um árvekni og miskunnsemi vors allranáðugasta konungs til heilla og framfara þegna sinna.

Og yfir dyrunum að útgangi hússins aðra táknmynd, nefnilega:

Pelíkani, tákn miskunnsemi.

Vog, tákn réttlætis.

Krosslögð akkeri, tákn vonar og þolinmæði.

Gnægtahorn, tákn gnægta nauðsynja.

Þessar fjórar eru hver í sínu horni og í miðju eldspúandi fjall, í minningu þess staðar þar sem húsið er byggt.2

Að myndirnar skuli vera upptaldar í úttektinni gæti bent til þess að þær hafi verið veggfastar eða málaðar á veggi. Ef landlæknir hefði látið mála tvær myndir og hengt þær á veggi, var tæpast ástæða til að telja málverkin í úttekt hússins fremur en aðra lausa muni.

Endurgerðar myndir frá 1987

Upphaflegu myndirnar yfir dyragættum í apótekinu eru týndar, enda hafa þessar dyragættir verið hækkaðar og spjöld sem kunna að hafa verið yfir þeim hafa þá verið fjarlægð. Ef myndirnar voru málaðar beint á veggi eru þær horfnar undir síðari málningarlög ef þær hafa ekki verið skafnar eða höggnar burt þegar dyragættir voru hækkaðar.

Mynd 1. Fiskurinn og þakkarorð yfir dyrum.

Núverandi apóteksinnrétting í Nesstofu er tilgátuendurgerð á apóteki Bjarna Pálssonar. Yfir dyrum til tveggja átta úr apótekinu eru myndir sem sömuleiðis eru endurgerðar. Kristján Guðlaugsson málarameistari málaði myndirnar 1987 eftir eigin túlkun á áðurnefndri úttekt frá 1767. Á annarri myndinni sést flattur fiskur og yfir honum þrjár kórónur. Til hliðar er svo eins konar þakkarávarp eða tileinkun til konungs eins og áður hefur verið greint frá (myndir 1, 2).

Mynd 2. Þríkrýndi fiskurinn.

Á hinni myndinni er eldfjall og táknmyndir af pelíkana, vog, akkeri og gnægtahorni (mynd 3).

Mynd 3. Ljósmynd: Halldór Baldursson.

Ein kóróna, þrjár eða fjórar?

Var hann krýndur, þessi klofni eða flatti fiskur sem var málaður í apótekinu – og ef svo var, hafði hann eina eða þrjár kórónur?

Merki Íslands var um aldir flattur fiskur með einni kórónu yfir. Þetta merki var á innsigli landsins frá 1593 (mynd 4)3 og hafði meðal annars verið notað á titilsíðu bóka sem prentaðar voru á Hólum, til dæmis Guðbrandsbiblíu og Grallarann.

Innsigli-slands-1593_NEW

Merkið var alþekkt. Íslandsfiskurinn kom oft fyrir í skjaldarmerkjum og innsiglum Danakonunga (mynd 5).

Í úttektinni 1767 segir ,,med flecket Fisk som Iislands Vaaben, og 3de Croner over samme.” Ég tel að þessi orð beri að skilja svo að merki Íslands sé flattur fiskur með einni kórónu en þar fyrir ofan séu þrjár kórónur til viðbótar.

Danakonungar höfðu um aldir haft þrjár kórónur í skjaldarmerki ríkisins og Margrét Þórhildur Danadrottning hefur reyndar enn þrjár kórónur í skjaldarmerki sínu. Þetta er sagt vera til minningar um Kalmarsambandið, þegar Danmörk, Noregur og Svíþjóð höfðu sama konung.

Mynd-5.-oldungarMynd 5. Skjaldarmerki Kristjáns IV á líkkistu hans í dómkirkjunni, Hróarskeldu. Krýndi Íslandsfiskurinn og kórónurnar þrjár sjást greinilega. Cand. phil. Nils G. Bartholdy, Frederiksberg, útvegaði myndina.

Táknmyndirnar eldfjall, vog, pelikani, gnægtahorn og akkeri hafa verið málaðar á mynd, en ekki málaður texti til útskýringar á þýðingu táknanna. Alls óvíst er að textinn á hinni endurgerðu myndinni, þakkarorð til konungs, hafi verið hluti af myndinni sem lýst er í úttektinni 1767. Þakkarorðin til konungs geta alveg eins hafa komið fram í úttektinni sem útskýring Bjarna á því hvers vegna hann lét mála merki Íslands og kórónurnar þrjár.

Niðurstaða

Bjarni Pálsson lét mála tvær myndir sem voru í apótekinu í Nesstofu. Kórónurnar þrjár yfir flatta fiskinum á endurgerðri mynd eru á misskilningi byggðar. Tilgáta mín er að flatti fiskurinn á myndinni í Nesstofu 1767 hafi verið málaður hvítur eða silfurlitur á rauðum grunni með einni gylltri kórónu yfir og þar fyrir ofan, á bláum grunni, þrjár gylltar kórónur (mynd 6).

Krna1Mynd 6. Teikning: Matthías Á. Jóhannsson.

 

Heimildir

 

1. Pálsson S. Ævisaga Bjarna Pálssonar. Leirárgörðum við Leirá 1800: 56.
 
2. Þjóðskjalasafn, rentukammerskjöl, askja B02/0032. Úttekt 1767: "Over begge Dörrene har LandPhysicus ladet forfærdige 2de Tabeller, med Sindbilleder, Nemlig:
 
Over Glas-dörren til Studier-Cammeret Een med flecket Fisk som Iislands Vaaben, og 3de Croner over samme, til Aller Underdanigste og Tackskyldigste Ihukommelse af Vores Aller Naadigste Kongers Vigilance og Barmhiærtighed, for sine Undersaatters Vel og Fremtarv.
 
Og over Dörren til Udgangen af Huuset, andet af Sindbilleder, Nemlig: Pellecanen, som Barmhiærtiged. Balancen, eller Vægten, som Retfærdighed. Krytsede Ankere, som Haab og Taalmodighed. Cornucopiæ, som nödvendige Sagers Forraad. NB: Disse 4re ere hver i sin Hiörne, og i Mitten: Eet Ildsprudende Biærg; til Ihukommelse af Stædet, hvor Huuset er opfört."
 
3. Thorlacius B. Ágrip af sögu skjaldarmerkis Íslands. Fáni Íslands, skjaldarmerki, þjóðsöngur, heiðursmerki. Saga, gildandi lög og reglur. Leiðbeiningar um notkun fána. Forsætisráðuneytið, Reykjavík 1991: 49-52.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica