11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Raddir lækna erlendis - COVID-19. Helgi Jóhannsson svæfingalæknir í London

Helgi segir að það sé athyglisvert að reyna að lýsa því hvernig honum hefur liðið á tímum COVID, því honum hafi liðið ágætlega, þótt hann hafi fengið COVID-sýkinguna í mars. „Einkennin voru höfuðverkur, harðsperrur (ég hélt ég hefði tekið aðeins of hart á því í jógatímanum skömmu áður) og smávegis hósta.“ Það var ekki fyrr en á þriðja degi sem ég tók eftir að lyktarskynið var alveg farið. Í mars var það ekki komið í sjúkdómseinkennin, en ég hafði tekið eftir tísti frá ENT UK um að það væri algengt, þannig að ég og maðurinn minn fórum í sóttkví.“

Hann segir þá báða hafa verið þreyttari en venjulega og að hann sjálfur hafi ekki getað hlaupið sína venjulegu 10 kílómetra, heldur bara komist í 5. „Síðan batnaði þetta allt á næstu tveimur vikum, nema lyktarskynið. Sex mánuðum seinna er það að komast hægt og sígandi aftur í lag, en ég fann enga lykt eða bragð samtals í 6 vikur.“

Ekki hræddur við að ferðast

Annars segir Helgi að undanfarið hálft ári hafi verið nokkuð þægilegt. „Það var ekki mikið um utanlandsferðir, en við komumst heim til Íslands í 10 daga í sumar áður en hertar aðgerðir tóku aftur gildi við landamærin þar. Ég hef ekki verið hræddur við að ferðast um, er með mótefni gegn veirunni og þrátt fyrir einstaka endursýkingu í veröldinni tel ég það ólíklegt.“

Grétu yfir andláti þeirra sem dóu einir

Varðandi starfið og álag í heimsfaraldrinum segir Helgi að mars og apríl hafi verið býsna erfiðir. „Við breyttum vaktafyrirkomulaginu okkar, fórum á fastar vaktir og opnuðum 17 rúma gjörgæslu á PACU-deildinni okkar á St Mary´s sjúkrahúsinu í Paddington. Í febrúar vorum við með allt að 16 rúm fyrir sjúklinga í öndunarvél, en í apríl voru þar 60 rúm! Við notuðum svæfingarvélar okkar og alla svæfingalækna í gjörgæslunni, nema þrjár skurðstofur fyrir neyðarskurð. Við sáum um starfsfólk okkar, einn hjúkrunarfræðing og eina konu sem var ræstitæknir sem við þekktum. Ég mun aldrei gleyma samtalinu við skyldfólk hennar þegar hún var nær dauða en lífi. Það var erfiðast held ég, að enginn gat heimsótt og við vorum fjölskylda þeirra á þeirra síðustu stundum. Við strukum þeim um hárið og grétum yfir andláti þeirra.“

Hjarðónæmi talsvert í London

Bylgja smita náði síðan lágmörkum aftur í London í maí og Helgi segir sumarið hafa verið nokkuð auðvelt. „Við byrjuðum hægt og rólega á venjulegri skurðþjónustu og erum nú að reyna að halda henni áfram, þrátt fyrir byrjun bylgjunnar sem nú er. Það hafa ekki margir sjúklingar verið lagðir inn hér í London ennþá, til dæmis er bara einn í öndunarvél hjá okkur, en fleiri eru í Norður-Englandi. Ég er að vona að London sé komin með talsvert hjarð-ónæmi eftir bylgjuna í febrúar og mars, en við erum viðbúin að gera þetta allt aftur.“

Spurður um hvaða hug hann beri til þess tíma sem liðinn er af árinu 2020 og hvaða væntingar hann hafi til ársins 2021, segir Helgi að margt hafi gjörbreyst - og í raun margt til hins betra. „Fundahöld eru öll á stofunni minni. Það er auðvelt fyrir sjúklingana okkar að nálgast okkur og margar stofur eru núna „virtual“. Margar breytingar sem við bjuggumst við að myndu taka mörg ár voru samþykktar og gerðar virkar á nokkrum vikum.“ Hann segist sannarlega sakna þess að ferðast og ákvað að bóka viku í Suður-Afríku í febrúar 2021. „Hver veit hvort það gangi? Annars hef ég miklar áhyggjur af efnahaginum í þjóðfélaginu og sérstaklega unga fólkinu og sjúklingunum okkar sem hafa seinkað sjúkdómsgreiningu af ótta við COVID og munu koma með ólæknandi krabbamein frekar en að komast í aðgerð fyrr.“

Mesta afrekið að venjast nýjum aðstæðum

Ef London og Ísland eru borin saman varðandi aðgerðir í heimsfaraldrinum segir Helgi líklega of snemmt að dæma, en hann telji Ísland hafa verið til fyrirmyndar í veröldinni með ráðstafanir gegn COVID; ekki bara með skimun, heldur líka skynsamlegum, rökréttum tilmælum sem almenningur getur skilið. Helgi segir að Bretar hefðu pottþétt getað staðið betur að málum. „Í mars var næstum ómögulegt að komast í sýnatöku fyrir COVID og við vorum mjög sein með allar reglubreytingar. Nýtt útivistarbann myndi skaða okkur of mikið, bæði efnahagslega og geðheilsu þjóðarinnar. Ég veit ekki hver besta lausnin er, en við getum ekki hætt allri starfsemi aftur, annars völdum við varanlegum skaða, sérstaklega fyrir unga fólkið okkar.“ Að þessu sögðu vill Helgi að lokum segja þetta um mesta lærdóminn af því að takast á við heimsfaraldurinn: „Ég held að mestu afrekin muni snúast um hvernig fólk getur aðlagast algjörlega nýjum kringumstæðum, með samvinnu og sameiginlegri ástríðu til að gera það besta fyrir sjúklinga okkar og hvert annað.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica