11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Raddir lækna erlendis - COVID-19. Guðrún G Björnsdóttir bráðalæknir í Glasgow

Læknablaðið sendi línu til nokkurra íslenskra lækna sem eru við nám og störf
erlendis til að fá fréttir af líðan þeirra, daglega starfi og hvaða breytingar
COVID-19 hefur haft í för með sér

 

Guðrún segir það vera skrýtið að vera núna raunverulega fjarri öllum. „Áður var svo stutt að skreppa til Íslands eða fyrir fjölskyldu og vini að skella sér í heimsókn í beinu flugi til Glasgow. Það er eins og að við fjölskyldan höfum skyndilega flust til útlanda og farið aftur til tíma skipaferða.“

COVID og „novid“

Guðrún vinnur núna á gjörgæslu á öðrum af stóru spítölum borgarinnar Glasgow. Í fyrri bylgjunni í vor þurfti að þrefalda plássið fyrir gjörgæsluna og það var fullnýtt. „Sögurnar af álagi eru ógnvekjandi. Vaktalínur voru margfaldaðar og starfsfólk frá öðrum sviðum var þjálfað upp til vinnu. Á sama tíma voru sumar lyflækningadeildir aðeins hálffullar vegna þess að einangra þurfti sjúklinga og margar skurðdeildir voru teknar undir lyflækningar. Nú er önnur bylgjan að byrja hér, það er búið að skipta gjörgæslunni upp í COVID og „novid“ eins og þau kalla það. Tilfellum fer núna ört fjölgandi hér og við erum líklegast hvergi nærri öðrum toppi. Hér er búist við viðvarandi bylgju allan veturinn. Það er ónotaleg tilhugsun.“

Fyrri hluta ársins starfaði Guðrún á lyflækningasviði á öðrum spítala og segir að þá hafi verið mjög mismunandi eftir stökum deildum hversu vel fólk kunni að búa sig og hvaða verkferlar hafi verið í notkun. „Það var ruglingslegur tími og allt einkenndist af óvissu en fólk var ótrúlega nægjusamt, staðfast og duglegt. Íslendingurinn í mér hneykslaðist á aðbúnaðinum og dugleysi stjórnenda, en fólk hér hélt bara sínu striki.“ Hún bætir við að hún heyri það á gjörgæslulæknunum á sjúkrahúsinu í Glasgow, þótt viss uggur sé í þeim, að þau búi að reynslunni úr fyrri bylgjunni. „Þau vita að þetta hafðist. Svo þekkja þau kvillann aðeins núna og vita betur en áður við hverju er að búast. Ég ætla því að vera vongóð um að þótt mikið verði að gera, þá munum við gera okkar vel.“

Skortur á hlífðarbúnaði olli smitum

Spurð um hverju hún taki helst eftir ólíku með Bretlandi og Íslandi á tímum COVID, segir Guðrún að munurinn sé næstum farsakenndur. „Ekkert traustvekjandi þríeyki er hér heldur sein og ómarkviss viðbrögð ríkisstjórnar með þriggja orða slagorð sem gera mismikið gagn. Þegar skortur var á veiruprófum var ákveðið að prófa fáa. Skortur á hlífðarbúnaði leiddi til þess að gefnar voru út ráðleggingar um að ekki þyrfti nema léttan maska, hanska og ermalausa svuntu við almenna umönnun og mat á hóstandi COVID-sjúklingum. Svo er fullur hlífðarbúnaður ef sjúklingar eru barkaþræddir eða annað loftúðaframleiðandi (aerosol generating) á sér stað. Þetta leiddi af sér að talsvert af starfsfólki á lyflækningadeildum smitaðist af COVID en afar fáir á gjörgæslum.“

Hvað hefði verið hægt að gera betur? „Í Bretlandi var loksins sett á útgöngubann þegar reynt var að stemma stigu við smitum. Við tóku 12 vikur án skóla eða samneytis við aðra, veitingastaðir, leikvellir og almenningsgarðar voru lokaðir og bannað að ferðast nema nokkrar mílur frá heimilinu. Fólk sætti sig við þetta og viðvarandi hömlur allt árið. Á Íslandi virðist mér úr fjarlægð sem fólk sé í meira uppnámi. Nú er þó greinilega komið að mörkum þolgæðis hjá þeim hópum sem verst fara út úr aðgerðum hér úti svo að smitin halda áfram. Í Bretlandi hefði verið hægt að hefja framleiðslu veiruprófa, hlífðarbúnaðar og lyfja á fyrri helmingi ársins, framleiðslugetan er fyrir hendi eins og í Þýskalandi sem fór þá leið. Í báðum bylgjum hefði mátt grípa fyrr inn í með hömlum. Svo er ekki enn komið á viðunandi smitrakningarkerfi hér, svo þar er klárlega hægt að bæta margt. Í rauninni vildi ég óska að Bretar og flestir aðrir hefðu staðið sig jafn vel og Íslendingar. Þótt önnur bylgja komi á Íslandi virðast viðbrögðin markviss, kerfið verður ekki yfirþanið og stjórn náðst á útbreiðslu smita.“ Í Bretlandi hafi viðkvæmir hópar, hvort sem það er fjárhagslega, vegna annarra sjúkdóma eða félagslega, ekki hlotið nægilega vernd, eins og Guðrún bendir á að sjáist á seinkun krabbameinsaðgerða, versnun geðsjúkdóma og aðbúnaði fátækra barna. „Svo að Íslendingurinn í mér vill helst grípa næstu pönnu til að berja á og fá einhverja aðra til að stýra viðbrögðum. En best hefði nú verið ef ríku löndin hefðu sýnt ábyrgð heima fyrir og utanlands, þá væri þetta kannski búin bóla.“

Eigum öll þessa sameiginlegu reynslu

Mesta lærdóminn af heimsfaraldrinum vegna COVID-19 veirunnar segir Guðrún að hún hafi hreinlega fyllst auðmýkt við að sjá hvernig hægt er að vinna saman að markmiðum ef vilji sé fyrir því. „Á spítölum var öllu snúið við, verkferlum breytt, fólk tók að sér ný störf og fólk leysti ágreiningsmál. Stórir spítalar og stórt heilbrigðiskerfi eins og NHS (National Health Service) er æði oft fast í hjólförum. Þetta var jú einu sinni heimsveldi. En eftir þetta eigum við öll þessa sameiginlegu reynslu. Ég vona að við munum líka eftir því hvernig við getum sameiginlega brugðist við og breytt hlutum til að sinna fólkinu okkar betur.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica