11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu – vinnubrögð og vankantar. Alma Gunnarsdóttir

 

Á síðastliðnu ári gerðist það að aðilar sem semja við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um þjónustu tóku sig saman og óskuðu eftir úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG á starfsumhverfi veitenda í heilbrigðisþjónustu sem gera samninga við SÍ.

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Þeir aðilar sem stóðu að þessu voru Læknafélag Reykjavíkur (LR), Félag sjúkraþjálfara, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Tannlæknafélag Íslands og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ástæðan fyrir þessari sameiginlegu ákvörðun var sú að allir voru sammála um að núverandi kerfi í kringum kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu væri gallað og að þörf væri á endurbótum.

Alma Gunnarsdóttir, sérfræðingur í háls- nef- og eyrnalækningum, varaformaður LR.

 

Í nóvember var haldið fjölmennt málþing um annmarka á kaupum ríkisins á heilbrigðisþjónustu þar sem skýrsla KPMG var kynnt. Við vinnslu skýrslunnar var safnað upplýsingum frá ofantöldum aðilum en þar að auki frá hjúkrunarheimilum og SÍ. Í skýrslunni kemur ýmislegt fram. Það sem meðal annars er gagnrýnt eru óskýr vinnubrögð og fyrirkomulag í tengslum við innkaup þar sem fram kemur vantraust á milli samningsaðila. Ótryggt starfsumhverfi rekstraraðila sem semja við SÍ einkennist af of stuttum gildistíma samninga sem leiðir af sér ófullnægjandi framþróun, fjárfestingu og uppbyggingu í þjónustunni. Nýliðun skortir og óvissa ríkir í starfsumhverfi. Hlutverk og ábyrgð aðila í stjórnkerfinu eru óskýr þar sem samspil heilbrigðisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Embættis landlæknis og SÍ virðist óljóst og illa skilgreint. Jafnframt kemur fram að fagþekking af hálfu SÍ virðist ófullnægjandi, sem hefur í för með sér víðtæk áhrif á gerð, greiningu og eftirlit samninga og skortur er þar að auki á mannafla innan SÍ. Einnig kemur fram í skýrslunni að mikill aðstöðumunur sé á milli samningsaðila þannig að það hallar á þjónustuveitendur. Miklar og skyndilegar breytingar sem orðið geta á þjónustunni geta haft víðtæk áhrif og bitna að endingu á þjónustuþegum sem geta þurft að taka á sig kostnaðarhækkanir sem ekki hefur tekist að semja um. Þar að auki fyrirfinnst ekki ferli fyrir úrlausn ágreiningsmála.

Fleiri frummælendur gagnrýndu á málþinginu vinnubrögð SÍ og staðfestu í raun mörg þeirra atriða og vankanta sem fram komu í skýrslu KMPG. Sú krafa kom upp á fundinum að SÍ tæki upp ný og bætt vinnubrögð. Stjórnvöld voru hvött til að bera sína ábyrgð og taka þátt í vinnu til að lagfæra annmarkana. Traust og virðing voru orð sem höfð voru í hávegum. Markmiðið var augljóst, að skapa markvissara vinnuumhverfi, efla þjónustu og hámarka gæði.

KPMG kastar þó ekki einungis fram annmörkum í skýrslunni heldur var einnig unnið að hugmyndum um það hvernig hægt væri að betrumbæta fyrirkomulag innkaupa SÍ fyrir undirbúning, samninga, eftirfylgni og vinnuumhverfi þessara aðila, þar sem traust og reglulegt samtal vógu þungt. Hugmyndir um það hvernig SÍ gæti staðið betur að undirbúningi koma einnig fram í skýrslunni, sem samræmist þar að auki settum lögum og núverandi heilbrigðisstefnu.

Væntingar hafa skapast um það meðal þjónustuveitenda að vinnubrögð SÍ muni breytast og að hægt verði að snúa ofantöldum annmörkum í rétta átt. Því miður virðist þó staðreyndin önnur. Svo virðist sem stefnan sé í raun óbreytt eða jafnvel að stefni í öfuga átt og mikil ólga og óvissa ríkir á meðal hinna ýmsu þjónustuveitenda og SÍ. Þar með taldir eru sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar sem hafa verið án samnings í bráðum tvö ár.

Í dag semur SÍ um kaup á um það bil 15-20% af allri heilbrigðisþjónustu hér á landi. Markmiðið er að SÍ sjái um öll kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins árið 2030. Það er deginum ljósara að þetta mun aldrei ganga ef ofangreindir annmarkar eru ekki lagfærðir. Ef ekki er gengið heilshugar að samningaborði af hálfu SÍ, í þeim tilgangi að stuðla að faglegu vinnuumhverfi sem einkennist af gæðum og góðri þjónustu, er óljóst hvert stefnir og hvað framtíðin ber í skauti sér.Þetta vefsvæði byggir á Eplica