10. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands. Ólöf Jóna Elíasdóttir

Ólöf Jóna Elíasdóttir varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 5. júní síðastliðinn. Ritgerðin heitir Faraldsfræði heila- og mænusiggs á Íslandi 2002-2007.

Andmælendur voru Elisabeth Gulowsen Celius prófessor við Háskólann í Ósló og Ólafur Árni Sveinsson sérfræðingur í taugalækningum við Landspítala. Aðalleiðbeinandi var Elías Ólafsson prófessor við læknadeild, en auk hans sátu í doktorsnefnd Haukur Hjaltason prófessor við læknadeild, Sigurjón Stefánsson sérfræðilæknir við Landspítala og Jan Lycke próf-essor við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð.

 

Ólöf Jóna var ekki beinlínis á staðnum við doktorsvörnina heldur varði sig og svaraði spurningum í gegnum streymi á netinu. Engilbert Sigurðsson stýrði athöfninni, en Haukur Hjaltason, Elías Ólafsson og Ólafur Árni Sveinsson leiddu vinnu doktorsefnisins og vörnina til lykta. Myndir/Gunnar Sverrisson


Ágrip af rannsókn

Heila- og mænusigg (multiple sclerosis, MS) er sjálfsofnæmissjúkdómur sem veldur bólgu í miðtaugakerfinu sem getur leitt til umtalsverðrar fötlunar. Nýlega hafa komið fram lyf sem virðast hægja á gangi sjúkdómsins en orsök hans er óþekkt. Í doktorsritgerðinni er leitast við að varpa ljósi á hversu algengur MS-sjúkdómurinn er á Íslandi, dánartíðni MS-sjúklinga og hugsanlegar orsakir sjúkdómsins. Kannað var hvort þeir sem eru fæddir að vori til séu í aukinni áhættu á því að fá MS síðar á lífsleiðinni en fyrri rannsóknir hafa bent til þess. Talið er hugsanlegt að skortur á D-vítamíni hjá mæðrum sem ganga með börn sín yfir vetrarmánuðina geti valdið aukinni hættu á MS hjá barninu síðar á lífsleiðinni. Flestar fyrri rannsóknir hafa hins vegar ekki tekið tillit til þess að fæðingar eru allajafna fleiri á vorin en á öðrum árstímum og fjöldi fæðinga er breytilegur á milli staða og ára. Eftir að hafa leiðrétt fyrir þessum þáttum hafði árstími fæðingar engin áhrif á áhættuna að fá MS síðar á lífsleiðinni.

Það er gagnlegt að hafa upplýsingar um tíðni MS-sjúkdómsins, meðal annars svo hægt sé að skipuleggja meðferð. Tíðni MS sjúkdómsins er há á Íslandi (nýgengi og algengi), líkt og á hinum Norðurlöndunum og sjúkdómurinn algengari hjá konum en körlum og meðalaldur við greiningu 36 ár. Dánartíðni MS-sjúklinga á Íslandi var tvöfalt hærri en hjá íslensku meðalþýði þegar leiðrétt var fyrir kyni og aldri.


Doktorsefnið

Ólöf Jóna Elíasdóttir lauk læknisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2008 og sérfræðiprófi í taugalækningum í Svíþjóð árið 2016. Ólöf hefur samhliða doktorsnámi sinnt sérnámi í taugalækningum og klínískri vinnu við taugalækningadeild Sahlgrenska-sjúkrahúsins í Gautaborg ásamt kennslu við Háskólann í Gautaborg.


Hvað segir doktorsefnið?

Hvað ertu að lesa og eða horfa á?

Næsta bók sem mig langar að lesa er eftir sænskan höfund sem heitir Karin Smirnoff en síðasta bók sem ég las var reyndar Bóbó bangsi fer í leikskólann. Er að reyna kenna yngsta syni mínum íslensku.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Fyrri helmingurinn var ca. 5 en seinni hlutinn, þegar nær dró vörninni fór nú alveg upp í 8. En ég var með mjög góða leiðbeinendur sem veittu góðan stuðning.

Hvað er framundan í námi og starfi?

Ég starfa sem taugalæknir á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg, þar sem ég sé aðallega um sjúklinga með ættlæga tauga- og vöðvasjúkdóma.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem forstjóri Landspítala?

Ja, fyrir fyrsta kaffibollann gerist ekki neitt skynsamlegt, þannig að kaffi yrði nú mitt allra fyrsta verk.

Hvenær fórstu síðast til læknis?

Ég man bara ekki hvenær það var síðast. Kringum 2008 líklegast.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica