09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Dagur í lífi lungnalæknis. Gunnar Guðmundsson

06:00 Vekjaraklukkan hringir og fljótlega er fyrsti kaffibolli dagsins drukkinn. Svo er farið í líkamsþjálfun sem getur farið fram heima, á líkamsræktarstöð eða útivið. Í þetta sinn er þjálfunin heima.

07:40 Eftir morgunverð er ekið til vinnu á Landspítala Fossvogi. Það er gott að þurfa ekki að vera í mikilli umferð.

07:55 Innstimplun og tölvan á skrifstofunni opnuð. Fer á kaffistofu gjörgæsludeildar og fæ mér kaffi. Er með samþykki deildarstjórans fyrir ótakmörkuðum kaffibollum þar.

08:05 Morgunfundur lyflækna í Blásölum er eins og stundum áður stjórnlaus og ómarkviss.

08:30 Röntgenfundur lungnalækna hefst. Sem betur fer hafa þeir ekki verið lagðir af. Þetta er ein mikilvægasta stund dagsins. Einn af mörgum frábærum röntgenlæknum sýnir lungnalæknum, sérnámslæknum og læknanemum myndir sem teknar hafa verið síðasta sólarhring bæði af inniliggjandi og þeim sem hafa verið á göngudeild. Að auki eru þarna sýndar myndir af sjúklingum sem heimilislæknar hafa beðið um að séu skoðaðar sérstaklega af lungnalæknum með frekari rannsóknir í huga. Oftast er um að ræða hnúta í lungum. Mikilvægt að að velja úr þá sem þurfa frekara eftirlit sbr. leiðbeiningar í Læknablaðinu sem birtust fyrr á árinu.

09:00 Göngudeild hefst. Í dag eru aðallega að koma sjúklingar með millivefslungnasjúkdóma. Miklar framfarir hafa orðið í greiningu og meðferð þessara sjúkdóma á síðastliðnum 5-10 árum. Þannig hefur nú verið lýst ákveðnum mynstrum á tölvusneiðmyndum sem samrýmast ákveðnum sjúkdómum og þess vegna er orðið mun minna en áður um að þörf sé á sýnatöku. Þá hafa komið lyf sem gefin eru um munn og vinna gegn bandvefsmyndun og draga þannig úr framþróun þessara sjúkdóma. Margir þessara sjúklinga eru líka með gigtsjúkdóma og í þeim tilvikum er notuð líftæknimeðferð og náin samvinna er við gigtlækna.

12:05 Hádegismatur í matsalnum. Læknaborðið var aflagt á árinu sem er mjög miður því þar hitti maður kollega úr ólíkum sérgreinum og oft var gefin stutt og óformleg ráðgjöf og maður fékk -nýj-ustu fréttir af fjallaferðum kolleganna.

12:30 Símatími: hringi í sjúklinga með niðurstöður rannsókna og sjúklingar með aukin einkenni hringja inn. Hægt að komast hjá bráðamóttökukomum og innlögnum með því að grípa fljótt inní.

13:00 Hitti sérnámslækni á skrifstofunni til að fara yfir gang í sérnámi og kanna hvort sérnámsmappan innihaldi öll gögn sem þarf. Þetta er eitt það skemmtilegasta í starfinu. Búið er að gera mikið átak í að skipuleggja framhaldsnám lækna á Landspítala.

14:00 Fyrirlestraskrá fyrir kennslu í lyfjafræði við Háskóla Íslands undirbúin. Starf mitt sem prófessors við Háskóla Íslands er auk vísindarannsókna að sinna kennslu í lyfjafræði, einkum í læknadeild en einnig fyrir fleiri deildir Háskólans. Það er gaman að hafa störfin fjölbreytt þó oft geti verið snúið að finna tíma fyrir allt það sem þarf að gera yfir daginn.

14:30 Veiti ráðgjöf um lungnasjúkdóma fyrir deildir í Fossvogi og fyrir heimilislækna. Að tala beint við kollega og skoða myndir og ræða um sjúklinga er enn í dag mikilvægt og oft á tíðum besta ráðgjafaformið, en tímafrekt.

15:45 Símtal til Bretlands við meðskipuleggjanda á ráðstefnu. Hafði ætlað að halda rúmlega 300 manna ráðstefnu í Hörpu í október 2020 um það nýjasta í millivefslungnasjúkdómum en er búinn að fresta henni um ár.

16:00 Símafundur með samstarfsaðilum í vísindarannsóknum á millivefslungnabreytingum: Þeir eru í Boston og farið yfir áætlanir um framhaldið.

16:15 Útstimplun og lítil umferð í vesturátt. Kem við hjá barnabörnum í Vesturbæ Reykjavíkur og leik við þá nokkra stund. Forréttindi að hafa barnabörnin svo nálægt sér.

18:30 Matarundirbúningur með fjölskyldunni og kvöldmatur.

20:30 Sundlaug Seltjarnarness. Eftir strangan dag er ljúft að fara í heitan pott og eimbað.

21:15 Gönguleiðum flett upp í bókum og leitað á vefsíðum og spjallað við væntanlega ferðafélaga um göngur sem standa til á næstu vikum.

23:00 Svifið í draumalandið.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica