09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Lífsstíllinn dregur lækna í heimilislækningar segir Elínborg Bárðardóttir

65 læknar stunda sérnám í heimilislækningum nú í vetur og fjölgar því um 16% milli ára. Þeim hefur fjölgað um rúm 70% á þremur árum. Elínborg Bárðardóttir, kennslustjóri, segir námið sterkt, sterkara en í mörgum nágrannalöndum

„Það er nú það. Við vitum ekki nákvæmlega hvað skýrir ásóknina í námið,“ segir Elínborg Bárðardóttir, kennslustjóri í sérnámi í heimilislækningum. Læknum í náminu hefur fjölgað um 71% á fjórum árum, en haustið 2017 stunduðu 38 námið.

„Ég tel að margir þættir spili saman. Heilsugæslan er sýnilegri, meira talað um hana og á jákvæðari nótum,“ segir Elínborg. Umhverfi hennar hafi eflst og vísar hún til Þróunarmiðstöðvarinnar, geðheilsuteymanna, sálfræðiþjónustunnar, heimahjúkrunar og endurhæfingar. Heilsugæslunni sé ætlað ríkara hlutverk í framtíðinni.

Elínborg nefnir einnig að umgjörð námsins hafi vaxið með árunum. Sérnámið sé það elsta hér á landi, yfir 20 ára gamalt. Hún segir líka að ungt fólk kjósi meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs en áður. „Margir tala um að það sé fjölskylduvænna að vera heimilislæknir en sinna annarri sérgrein,“ segir hún en leggur þó áherslu á að sveigjanleiki og góður vinnutími komi ekki í veg fyrir að starfið sé krefjandi.

 

Áslaug Baldvinsdóttir læknir á Heilsugæslunni í Grafarvogi, Elínborg Bárðardóttir kennslustjóri og Steinþór Runólfsson læknir á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, ræða framtíð og áskoranir í sérnámi í heimilislækningum. Mynd/gag


Margþætt starf

„Það reynir á marga þætti þekkingar og færni og viðhorfa í viðtali heimilislækna og námið getur verið strembið en um leið mjög fjölbreytt og gefandi,“ segir Elínborg.

Læknablaðið kom til hennar á starfsstöðina í Mjódd þar sem hún vinnur á Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar. Þar eru fyrir á fleti þau Áslaug Baldvinsdóttir, læknir á Heilsugæslunni í Grafarvogi, og Steinþór Runólfsson, læknir á heilsugæslunni á Selfossi. Áslaug lauk læknanámi 2016 eftir BS-gráðu í lífefnafræði, og lýkur sérnáminu um áramótin 2022. Steinþór lauk grunnnámi 2013 og sérnáminu einnig 2022.

Steinþór segir að öll vilji þau góða þjálfun svo þau verði gott fagfólk. „Hópurinn okkar upplifir og heyrir vel talað um prógrammið frá þeim nýútskrifuðu og þeim sem hafa verið í sambærilegum prógrömmum.“ Gæði námsins séu mikil.

„Ég geri ráð fyrir að þetta sé oftast sterkasti þátturinn í valinu,“ segir hann. „En svo spila aðrir þættir inn í. Til dæmis maki sem hefur ekki tök á að flytja til útlanda eða stórar fjölskyldur sem fólk sér sér hugsanlega ekki fært að rífa upp með rótum og fara með út í nám.“

 

Heilsugæslan heillaði

En hvað heillaði þau Áslaugu og Steinþór við starfsvalið. „Þessi tími á heilsugæslunni stóð upp úr eftir kandídatsárið,“ segir Áslaug. „Þá fórum við fjóra mánuði á heilsugæslu og ég fann mig þar í fjölbreyttu og skemmtilegu starfi. Það vakti áhuga minn á heimilislækningum og í framhaldinu fór ég beint í sérnámið,“ segir Áslaug. „Þetta er það sem ég vil.“ En íhugaði hún að fara út til náms?

„Já, ég gerði það en valdi þessa sérgrein af áhuga en einnig vegna fjölskylduaðstæðna. Maðurinn minn er í fastri vinnu hér. Þá hafði ég ekki heyrt neitt nema gott af sérnáminu. Fólk hefur verið ánægt með það.“

Steinþór segir lífsstílinn hafa spilað lykilhlutverk við valið. Þótt hann hafi alist upp á höfuðborgarsvæðinu hafi hann langað að búa úti á landi. „Síðan fann ég vinnu sem hentaði,“ segir hann.

„Ég byrjaði að leysa af, fékk vinnu úti á landi sem læknanemi og fann mig þar. Mér fannst þó vanta reynslu af bráðalækningum og hef því lokið ígildi þriggja ára náms þótt ég vissi að ég ætlaði ekki að vinna á bráðamóttöku. Þegar ég svo flutti út á land fannst mér nauðsynlegt að bæta heimilislækningunum við. Námið gefur svo víðtæka þekkingu og því fannst mér liggja í augum uppi að ég yrði betri með því.“

 

Námið henti samfélaginu

En finna þau gagnrýni á að sérnámið fari að fullu fram hér heima? Þau neita því en segjast þó heyra raddir eldri lækna sem spyrji hvort þau langi ekki að læra úti. Steinþór segir að ef eldri heimilislæknir viðraði þessa skoðun myndi hann hlusta. Áslaug tekur undir það.

„En ég hef ekki hitt einn einasta heimilislækni sem er á þeirri skoðun,“ segir hann. „Nei, ekki einn einasta,“ tekur Áslaug undir. Hann segir að hann hafi metið það svo eftir að hafa starfað ár í útlöndum að sérnámið hér heima hentaði honum betur.

„Ég tel að ég fái betri menntun í prógramminu eins og það er uppsett og með vinnu á starfsstöðinni minni. Ég sá ekki að ég gæti komist í sambærilegar aðstæður annars staðar.“ Þá gefi námið honum tækifæri út fyrir landssteinana. „Það er eftirspurn eftir heimilislæknum víða.“

Elínborg segir sérnámið til heimilislæknis betra hér en víða á Norðurlöndum. „Það eru fín prógrömm í Danmörku og á mörgum stöðum í Svíþjóð en við erum betur skipulögð en margir aðrir,“ segir hún. „Áratugareynsla hefur myndast af þessu prógrammi. Umgjörðin er mjög fín.“

Hún leggur þó áherslu á að alltaf sé gott að hleypa heimdraganum og prófa að fara inn í erfiðar aðstæður og áskoranir á stórum sjúkrahúsum erlendis. „En það eru meira persónulegar áskoranir. Ég held að faglega skipti það ekki öllu máli, enda eru heimilislækningar fag þar sem læknar vinna með hið almenna þýði. Það á ekki við í öllum sérgreinum.“ Hún gantast þó með að í ljósi þess að allir læri hlutina eins í faginu þá skorti kannski faglegan ágreining, rifrildi og rökræður, um hvernig eigi að gera þá.

 

Atvinnuöryggi en þó ekki

Steinþór bendir á að þótt atvinnuöryggi lækna sé mikið sé ekki tryggt að hann fái ráðningu sem sérnámslæknir á Selfossi þegar náminu ljúki. „Námið er engin trygging fyrir starfi. Ég er fluttur í Rangárþing. Það getur enginn lofað því að ég fái vinnu í héraðinu eftir námið. Ef það verður ekki þarf ég að keyra hingað til Reykjavíkur og sækja vinnu.“ Elínborg lítur á hann. „Ég held þú fáir vinnu.“ Þau hlæja. „En það er rétt. Þú ert að taka áhættu.“

Elínborg segir að þegar hún hafi komið úr námi árið 1997 hafi ekki verið lausar stöður heimilislækna í Reykjavík. „Einu sinni vantaði heimilislækna en samt fengu þeir ekki vinnu. Við verðum að treysta því að sú staða komi ekki upp aftur að heilsugæslan verði svelt. Ég neita að trúa því.“

Hún bendir á að stór hópur lækna sem hafi útskrifast í kringum 1990 nálgist eftirlaun. „Á næstu 10 árum eru næstum 100 heimilislæknar að verða 67 ára og eldri, þar á meðal ég. En sem betur fer hefur prógrammið stækkað það mikið að við sjáum fram á að útskrifa 12-14 heimilislækna á ári eftir einhver ár. Núna undanfarið hafa þeir verið 8-9 á ári.“ Ásóknin sé það mikil í námið. „Ég hef því mun minni áhyggjur af þessu en ég hafði fyrir tveimur til þremur árum.“

 

Eftirspurn reynir á kerfið

Elínborg segir fjöldann sem læri heimilislækningar sérstaklega góðar fréttir fyrir landsbyggðina. „Við erum með 25 sérnámslækna úti á landi núna. Þeir voru 23 í fyrra.“ Hún segir þó enn vanta heimilislækna úti á landi. Landsbyggðin þurfi um 100 lækna en hafi um 60 menntaða heimilislækna.

„Það er skortur úti á landi en mér finnst jákvætt að fleiri og fleiri hafa verið tilbúnir að starfa á landsbyggðinni. Þar er heilmikið vinnuálag, en á móti kemur líka að þar er vinnan fjölbreytt og lærdómskúrfan brött,“ segir hún.

Elínborg vill þó gjarnan koma á tengslum við Svíþjóð til að anna aukinni eftirspurn í námið. „Um áramót verða nærri 70 í sérnáminu og ég veit ekki hvort við getum tekið fleiri,“ segir hún. Bæði skorti húsnæði og handleiðara, fjölgi nemendum. Þá lýsir hún áhyggjum sínum yfir að eftir nokkur ár geti að óbreyttu myndast skortur á stöðugildum fyrir heimilislækna.

„Hvað gerist eftir þrjú til fjögur ár þegar 17-18 manns koma út úr prógramminu og ætla að fá vinnu?“ Námsstöðurnar séu kostaðar af sjúkrastofnununum sem hafi vart efni á að ráða fólk og fjölga sérnámslæknum. Huga þurfi að þessu.

 

Læknar til framtíðar

En hvar sjá þau Áslaug og Steinþór sig eftir 20 ár. „Bara í sveitinni,“ segir Steinþór ákveðinn. Hann sé með „blandaðan dýragarð“ við heimili sitt. Hesta, kindur, ketti, hunda og hænur. Áslaug hugsar sig um.

„Já, kannski í Grafarvoginum. Ég sé í það minnsta fyrir mér að ég verði hér á heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Kannski heima á Akureyri. Það er möguleiki að fara aftur heim. Það kemur til greina,“ segir hún og brosir.

„Já, ég spyr fólk alltaf þegar það skráir sig í námið hvaðan það sé,“ segir Vestmannaeyingurinn Elínborg. Það sé kostur að vera utan af landi.“ Áslaug grípur boltann. „Auðvitað blundar alltaf í manni að fara aftur heim.“

Elínborg er stolt af náminu og vexti þess en saknar þess að starfa ekki meira með sjúklingum. „Nú er ég einn dag í viku á stofu og ég sakna fólksins. Það er svo gaman að vera í viðtölum. Þetta starf er einstakt.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica