09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Læknanemum kennt hjá Læknafélaginu

5. árs læknanemar sátu í rúmgóðum sal Læknafélagsins og lærðu erfðalæknisfræði. Þannig var hægt að tryggja tveggja metra regluna og að allir gætu mætt í tímann. Mynd/gag

Nemendur á 5. ári í læknisfræði sóttu áfanga hjá Reyni Arngrímssyni, formanni Læknafélagsins, í erfðalæknisfræði á óhefðbundnum stað nú í ágúst, eða í húsakynnum félagsins.

„Kennslan verður ekki alveg með hefðbundnum hætti,“ segir Engilbert Sigurðsson, forseti læknadeildar.

„Allir eru betur undirbúnir og skilja vel að það þurfi að viðhafa ákveðnar sóttvarnarráðstafanir. Bæði nemendur og kennarar bregðast vel við og munu fylgja þeim viðmiðum sem gilda á hverjum tíma og stað. Við förum ákveðna millileið þar sem innan háskólans er miðað við einn metra í sóttvarnarmörkum en tvo innan Landspítala.“

Grímur og eftir atvikum hanskar eru einnig hluti af sóttvörnunum þar sem ekki er hægt að ná tveggja metra viðmiðinu innan Landspítala og í verklegum æfingum innan læknadeildar.

Ekki er sem stendur alltaf hægt að kenna öllum bekknum í einu. Hluti mætir en aðrir eru í fjarkennslu. „Það er í höndum umsjónarkennara og nemenda að leysa það verkefni og finna bestu leiðina í hverju tilviki.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica