09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Fleiri fá hjálp vegna ópíóíðafíknar segir Valgerður Rúnarsdóttir hjá SÁÁ

Valgerður var í fríi þegar blaðið náði tali af henni. Hún segir krefjandi tíma framundan í rekstri SÁÁ. Mynd/Flavio Paltenghi

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, hvetur heilbrigðisstarfsfólk til að vera á varðbergi gagnvart lyfja- og áfengisneyslu skjólstæðinga sinna. Þau sjái fleiri á miðjum aldri í daglegri áfengisneyslu en fyrir COVID-19-faraldurinn og metfjöldi fái nú lyf við ópíóíðafíkn

185 einstaklingar eru í lyfjameðferð við ópíóíðafíkn á göngudeildinni á Vogi. „Þeir hafa aldrei verið fleiri,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ. Hún hvetur heilbrigðisstarfsfólk til að vera á varðbergi gagnvart lyfja- og áfengisneyslu skjólstæðinga sinna nú í kórónuveirufaraldrinum. Samtalið opni á möguleikann til að grípa inn í vandann.

„Síðustu ár hefur ópíóíðaneysla aukist,“ segir hún. „Fleira fólk glímir við vanda vegna sterkra verkjalyfja: contalgíns, oxycontíns, tramadóls og kódeinlyfja. Flestir taka lyfin inn en við sjáum merki þess að fleiri reyki þau en áður.“ Hér á landi noti flestir lyfseðilsskyld lyf, en erlendis skipi heróín-neytendur einnig hópinn.

Hún segir fólkið mjög lasið. „Það kemur tvöfalt oftar í endurmeðferð. Er mjög veikt og við sjáum í vaxandi mæli yngra fólk í hópnum. Fólk á milli tvítugs og þrítugs.“ Fólkið sé í lyfjameðferð við fíkn sinni og nái þannig bata.

Valgerður segir mikilvægt í þessum heimsfaraldri að ríkið standi þétt við bak meðferðarstofnana. Þótt enn hafi ásóknin ekki aukist í þjónustuna sé ljóst að óvissan sem fylgi faraldrinum hafi aukið á vanda margra. Fólk sinni ekki daglegri rútínu, sé mikið heima.

„Við sjáum margt fólk á miðjum aldri núna sem hefur drukkið á hverjum degi í mjög langan tíma,“ segir hún. „Ég hef áhyggjur af framhaldinu. Margir hafa verið í biðstöðu og vandinn versnað.“

Hún tekur þó fram að aðgerðir yfirvalda sem skerða aðgengi að vímugjöfum hafi haft góð áhrif á samfélagið. „Fjöldatakmarkanir og lokanir hafa meðal annars fækkað tækifærum til skemmtana með áfengi.“ Áhugavert væri að sjá rannsóknir á heildaráhrifunum. „Ég tel að þessar aðgerðir séu mjög áhrifamiklar. Þær hafa mikil áhrif á heildina.“

Valgerður er hugsi yfir tvískinnungnum sem henni finnst birtast í heimsbaráttunni gegn COVID-19. „Hin stórkostlegu viðbrögð við faraldrinum kalla á að fólk vakni líka af sinnuleysi gagnvart ýmsum vímugjöfum sem leggja fleiri en faraldurinn ár hvert,“ segir hún.

„Það sem af er ári hafa 800.000 látist úr COVID-19. Heimurinn hefur snúist á hvolf vegna veirunnar. Á ári hverju deyja 8 milljónir af tóbaksreykingum og þrjár milljónir úr ofneyslu áfengis samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. En við erum samdauna því og afar lítil stemmning til að taka á þeim vanda með samtakamætti heimsins.“

Árið hefur verið afar róstusamt á meðferðarstofnuninni. Óvæntar uppsagnir leiddu til þess að hún sagði sjálf upp en dró síðar uppsögn til baka vegna áskorana starfsfólks. Þá urðu, að segja má, kynslóðaskipti þegar Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir og formaður SÁÁ, náði ekki kjöri til formennsku samtakanna heldur Einar Hermannsson, og ný framkvæmdastjórn samtakanna tók við í júlí 2020.

„Langflest erum við í þeim gír að standa saman og sinna okkar verkefni betur og betur,“ segir Valgerður. Tíminn hafi verið lýjandi fyrir alla og óvissan tekið á. Þau haldi sínu striki. „Já, við starfsfólkið erum mjög brött og hlökkum til að halda áfram í okkar verkefnum.“

Tveggja metra reglan, fjarfundabúnaður og fjöldatakmarkanir hjálpi þeim að sinna sjúklingunum áfram þótt rekstur stofnunarinnar verði krefjandi í vetur vegna niðurskurðar og tekjumissis. Enn hafi til að mynda ekki tekist að selja álfinn, sem venjulega hafi skilað tugum milljóna í reksturinn. Samþykkt hafi verið í vor að skera enn frekar niður, eða um 125 milljónir króna. Meðferðarþjónusta þeirra sé mikilvæg nú þegar huga þurfi að geðheilbrigði og heilsu landsmanna.

„Þjónusta SÁÁ er mjög mikilvægur og stór hlekkur í velferðarþjónustunni allri,“ segir hún. „Svo sannarlega finnst mér að yfirvöld eigi að veita okkur ennþá meiri athygli og tryggja okkar þjónustu.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica