07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Framtíðarhljómar í fræðslu og vísindum – bara gleði, nú sumargleði. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir

Sumarið er komið! Virkilega öðruvísi vetur að baki – fjallkonan sagði allt sem segja þarf um hann á Austurvelli 17. júní. Um leið og sólin hækkaði á lofti, sem við Íslendingar kunnum svo vel að meta, og við gátum notið birtunnar, stigum við fram úr „kófinu“. Það hefði verið svo miklu verra ef þjóðin hefði verið í sóttkví sumarlangt og stigið út með lækkandi sól. Sjáum hvað setur og njótum birtunnar sem er svo einstök fyrir sumarið á Íslandi. Maður bara gleymir að fara að sofa …!

En fátt er svo með öllu illt … heimsfaraldurinn breytti fundahöldum. Streymi fékk nýja merkingu. Í að minnsta kosti 30 ár hefur fræðslufundur lyflækninga verið vikulega á Landspítala/Borgarspítala í Fossvogi, í anda háskólasjúkrahúss. Hluti af því að viðhalda þekkingu lækna. Við höfum hlýtt á flókin sjúkratilfelli, lausn þeirra og tilvitnun í fræðin og fengið upplýsingar um nýja þekkingu á flestum sviðum læknisfræðinnar. Innlendir sem erlendir sérfræðingar hafa haldið frábær erindi okkur öllum til mikillar ánægju og fræðslu. Það hefur torveldað fundarsókn að Landspítalinn er í mörgum húsum. En … svo kom heimsfaraldurinn

Fyrsti fundur eftir samkomubann var einstakur. Fundinum streymt út í víðáttuna og skrítið að stýra fundi með engum viðstöddum nema fyrirlesaranum. Nýdoktor Berglind Aðalsteinsdóttir hjartalæknir hélt frábært erindi um doktorsverkefni sitt Arfgerð og svipgerð ofvaxtarhjartavöðvakvilla. Eftir fundinn var ljóst að þessa fyrirlestra þarf að vista og gera aðgengilega öllum íslenskum læknum. Nú vistum við fyrirlestrana á Landspítala, á „Workplace“ og á Vimeo, auk þess sem þeir eru vistaðir undir fræðsla á vef LÍ. Bjarki Rafn Þórðarson kerfisfræðingur hjá deild heilbrigðis- og upplýsingatækni á Landspítala hefur unnið þetta verkefni með undirritaðri og á miklar þakkir skildar. Meðalfjöldi fundargesta fyrir faraldur var 35.

En svo kom veiran! Ólafur Guðlaugsson yfirlæknir sýkingavarna á Landspítala hafði tekið að sér með góðum fyrirvara að halda fræðsluerindið 6. mars. Tímasetningin reyndist mikilvæg; 58 læknar mættu í Blásali til að hlýða á erindið: COVID-19. Þetta varð síðasti fundur fyrir samkomubann. Aðsóknarmet sem síðan var sprengt ítrekað eftir að fundunum var streymt og hefur að hámarki farið í 230.

Við streymum fundunum áfram eftir sumarfrí og er vel tekið á móti hugmyndum um góð fræðsluerindi.

Sérnámslæknar í framhaldsnámi í lyflækningum á rannsóknaráðstefnu sérnámslækna í febrúar. Mynd/Helga Ágústa

Ég vil nota tækifærið og nefna vísindarannsóknir sérnámslækna í lyflækningum á Landspítala sem hafa árabil verið stundaðar undir handleiðslu sérfræðilækna á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri, oft í samvinnu við stofnanir utan spítala, Hjartavernd og Íslenska erfðagreiningu. Rannsóknirnar hafa verið vaxtarbroddur innan lyflækninga. Árlega er haldin rannsóknaráðstefna þar sem allir sérnámslæknarnir flytja erindi um rannsóknir sínar og voru erindin 20 í ár. Umræður um vísindaverkefni með reyndari vísindamönnum eru ungum vísindamönnum afar mikilvægar og því þakkarvert að eldri kollegar hafi og muni áfram gefa sér tíma til að vera með á ráðstefnunni. Dagurinn er alltaf jafn ánægjulegur og mikilvægt að því sé viðhaldið.

Árið 2019 skilaði vísindavinna sérnámslæknanna 7 nýjum doktorum frá Háskóla Íslands. Einstakt! Við þurfum að tryggja áframhaldandi vísindastarf yngri kolleganna. Grundvöllur góðrar heilbrigðisþjónustu er vísindamenntuð og rannsakandi læknastétt með breiða fræðilega fagþekkingu. Þetta kom svo berlega fram þegar heimsfaraldurinn reið yfir og afar ánægjulegt að sjá tilvitnun í orð Ólafs Baldurssonar framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala á aðalfundi spítalans 12. júní: „Vísindaleg þjálfun starfsfólks Landspítala var eitt af því sem gegndi lykilhlutverki í árangri spítalans gegn kórónuveirunni.“

Svíar halda því fram 30% af hverjum útskriftarárgangi lækna þurfi að tileinka sér vísindanám svo viðhaldið sé þekkingu í öllum mikilvægum sérfræðigreinum. Við þurfum að tryggja tíma til vísindavinnu fyrir lækna í framhaldsnámi. Landspítali þarf áfram að auka framlag sitt til vísinda og nálgast samanburð við nágrannaþjóðirnar og ekki verður dregið úr mikilvægi annarra sjóða, utan spítalans.

En vísindamenn sem aðrir þurfa sumarfrí og nú stefnum við öll að því að njóta þess í föðurlandinu, kannski í tvennum skilningi. Eigum öll gleðilegt sumar og opnum hugann fyrir nýjum hugmyndum.

Hina afar viðeigandi tilvitnun í ljóð Jónasar Hallgrímssonar við hátíðarsal Háskóla Íslands geri ég að mínum lokaorðum:

Vísindin efla alla dáð,

orkuna styrkja, viljann hvessa,

vonina glæða, hugann hressa,

farsældum vefja lýð og láð.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica