07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Haukur og Ásrún létu drauminn rætast með námi í Ungverjalandi og Slóvakíu

Draumurinn að verða læknir er við það að rætast hjá þeim Ásrúnu Björk Hauksdóttur og Hauki Óskarssyni. Bæði eru af höfuðborgarsvæðinu. Bæði þreyttu inntökupróf hér heima og fyrir skólana ytra. Bæði ryðja þau brautina innan fjölskyldna sinna og eru fyrstu læknarnir úr þeim röðum

Tímamót. Tvö. Þekkjast ekki en eru sest hlið við hlið á skrifstofu Læknablaðsins. Við ætlum að ræða læknanám erlendis, útskrift og COVID. Af hverju að læra ytra? Ásrún svarar fyrst.

Ásrún og Haukur eru að útskrifast úr læknanámi.
Hún frá Slóvakíu og hann frá Ungverjalandi. Þau verja kandídatsárinu hér heima og stefna bæði á sérnám í kjölfarið. Mynd/gag

Haukur Óskarsson og Thelma Sif Þórarinsdóttir með son sinn Jörund Bjarma Hauksson.

Ásrún Björk Hauksdóttir við störf í Kenía rétt áður en COVID-19 faraldurinn komst í hámæli. Mynd/aðsend

viðtal

„Ég byrjaði í lyfjafræði í Háskóla Íslands og kláraði fyrsta árið,“ segir hún og lýsir því hvernig hún hafi slegið úr og í að fara í inntökupróf þar sem hún hafði eignast kæra vini í lyfjafræðinni. Hún hafi svo tekið bæði það íslenska og slóvakíska

„Keppnisandinn kviknaði þegar ég náði slóvakíska prófinu. Ég hafði aðeins mánuð til að undirbúa allt og ég sé alls ekki eftir því,“ segir Ásrún sem klárar nú námið við háskólann í Jessenius í Slóvakíu eða réttara sagt; Comenius-háskólann í Bratislava, Jessenius-læknadeildina í Martin.

Haukur lýsir því hvernig hann langaði alltaf í læknisfræði og hafi því farið í MR. „Alveg frá því að ég man eftir mér,“ segir hann. „Ég var alltaf ágætur í raungreinum og hafði gaman af efnafræði og líffræði. Það var því náttúrulegt skref fyrir mig að taka inntökuprófin hér heima og svo ákvað ég að taka líka prófið í Ungverjalandi.“ Hann útskrifast í september frá Debrecen í Ungverjalandi. Útskriftinni var frestað fram á haustið vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

Vildi byrja námið strax

En hefðuð þið frekar viljað læra til læknis á Íslandi? Ásrún svarar því neitandi. „Mig langaði að prufa að búa í útlöndum, fannst það heillandi. Ég tel þó að námið sé einnig mjög gott á Íslandi. En það heillaði mig að flytja út og prufa eitthvað allt annað,“ segir Ásrún. Stefnan hafi einnig verið á nám erlendis hefði hún haldið lyfjafræðinni til streitu.

Haukur segir að hann hafi langað inn á Íslandi. „Ekki spurning. En ég vildi heldur ekki bíða og reyna aftur.“

Hann valdi Ungverjaland umfram Slóvakíu þar sem hefðin er lengri fyrir því að Íslendingar sæki þangað læknanám. „Ég vissi að fólk hefði farið þangað í langan tíma.“

En hvað með fordóma gagnvart námi í eystri hluta Evrópu, finna þau fyrir þeim? Ásrún segir að hún hafi ekki fundið fyrir því þegar hún tók verknámið á Íslandi. „Ég hef líka spurt sérfræðilækna sem ég hef unnið með hér hvort þeir finni mun á okkur. Ég hef ekki heyrt að þeir finni stóran mun,“ segir hún en að þau sem taki grunnnámið erlendis séu þó lengur að komast inn í íslenska kerfið.

„Við munum alltaf ná þeim sem læra hér heima þótt það taki lengri tíma að komast inn í allt.“ En hún hafi aldrei fundið fyrir fordómum. „Alltaf hefur verið tekið vel á móti mér og mér kennt það sem þarf.“

En eru kostir að koma heim með þekkingu? „Já, klárlega,“ segir Haukur. „Ég sá kosti við að fara út. Fá að vera minn eiginn herra. Búa einn, ekki inni á foreldrum. Á eigin vegum. Ég sé alls ekki eftir því,“ segir hann.

„Helsti kosturinn í Ungverjalandi er hve sterkt bóknámið er,“ segir hann. Hann hafi auk þess lært ungversku þótt kennt sé á ensku enda flestallir sjúklingarnir ungverskir. „Maður fær því betri reynslu af að tala við sjúklinga þegar maður kemur heim,“ bendir hann á.

„En kostirnir eru margir. Góðir og vel menntaðir kennarar,“ segir hann og gantast með að hann hafi verið sá eini í fjölbýlishúsinu þar sem hann bjó fyrst sem ekki hafi verið með doktorsgráðu.


Lærðu líka tungumálið

Hann segir persónubundið hversu mikið erlendu læknanemarnir leggi á sig við að læra ungverskuna. „Við erum í fullu námi og bætum nýju tungumáli við,“ segir hann. „Ungverska er ekki skyld neinu og því erfið mörgum. Maður fær ekki djúpan skilning á tungumálinu en getur bjargað sér.“

Ásrún segir þau líka læra á ensku í Slóvakíu en á spítalanum tali sjúklingarnir slóvakísku. „Við lærum slóvakísku fyrstu tvö árin í náminu og getum bætt enn við okkur ef við viljum. En námið er krefjandi og maður þarf að meta hversu mikinn tíma maður hefur,“ segir hún.

„En ég gat talað við sjúklinga, hafði grunninn í tungumálinu, en náði ekki djúpum skilningi. Þannig að þegar ég kom heim og talaði við sjúklinga fann ég hvað allt var miklu opnara og hvað ég náði dýpri klínískri þekkingu. En bóklega námið er mjög sterkt. Við klárum nánast alla áfanga á munnlegu prófi. Mér finnst það mikill kostur,“ segir hún.

En er þá gott að koma heim?„ Já,“ svarar Haukur og Ásrún grípur orðið. „Maður er tilbúinn. Tilbúinn að fara upp á spítala og púsla öllu saman. Koma með þekkinguna, getað talað við sjúklinga og láta allt smella,“ segir hún.

Haukur segir að í Ungverjalandi megi þau sækja verknám út fyrir skólann á viður-kenndum háskólasjúkrahúsum, meðal annars á Landspítala. „Vel hefur verið tekið á móti mér og ég náð að setja mig inn í starfið,“ segir hann.

Mæla þau með námi erlendis. „Já,“ segir Ásrún. „Ekki spurning,“ tekur Haukur undir. „Þetta er samt líka erfitt,“ bætir hún við. „Þú ert fjarri fjölskyldunni. Námið er mjög krefjandi og þeir sem detta út á fyrsta ári eru ekki að höndla þessar aðstæður,“ segir hún.

„Núna erum við með mjög gott nemendafélag sem hugsar um nemendurna. Ef fólk á í vandræðum er alltaf hægt að hafa samband við félagið. Við erum þétt samfélag. Maður er aldrei einn og við búum mjög nálægt hvert öðru,“ segir Ásrún en 155 Íslendingar séu við nám í slóvakíska skólanum.

Íslendingunum hrósað

„Skólinn er ánægður með Íslendinga og vill fleiri,“ segir hún. „Við erum samviskusöm. Við lærum heima. Stöndum okkur vel í tímum og í prófunum. Við höfum fengið extra hrós fyrir samviskusemi. Það er skemmtilegt,“ segir Ásrún.

Haukur segir 54 Íslendinga við lækna- og tannlæknanám í Ungverjalandi. Þeim hafi fækkað um leið og þeim hafi fjölgað í Slóvakíu. „Svo koma nemendur alls staðar að. Afríku, Ísrael, Norðurlöndunum. Mikil eftirspurn er eftir því að komast þarna inn. Þetta er mjög alþjóðlegur hópur,“ segir hann. Hann segir Íslendingasamfélagið sterkt í kringum námið, þau hittist oft.

„Við dreifumst svolítið um bæinn. Sumir vilja búa í miðbænum, aðrir nær skólanum en það er mjög góð samheldni.“

En hafa þau ákveðið sérnám? „Já,“ segir Haukur. „Já, já, já,“ svarar Ásrún og heldur áfram. „Ég ætla að byrja kandídatsárið mitt í október svo ætla ég að fara í meltingarlækningar. Ég ákvað það á fyrsta ári. Það er fjölbreytt,“ segir hún.

Haukur segir að hann sé ekki endanlega ákveðinn. „En ég hef mikinn áhuga á skurðlækningum. Það er eitthvað við að vera með hendurnar á meininu og geta lagað það. Maður sér ávinninginn strax.“ Hann hafi þó áhuga að mörgu öðru, hafi unnið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og heillast af heimilislækningum og bráðamóttöku.

Ásrún til Kenía og Haukur eignast barn

COVID-19. Hvernig kom veiran við ykkur? „Ég var í Kenía,“ segir Ásrún. „Ég ákvað að taka verknám í kven- og fæðingarlækningum þar.“ Fréttir um veiruna á Ítalíu hafi þá verið að fæðast. „Ég hugsaði: Ég næ þessu, flaug til Kenía og var í þrjár vikur í verknámi. Ég náði síðasta fluginu hingað heim þegar þeim var lokið. Ég átti flug til Slóvakíu en landamærunum hafði verið lokað. Ég varð því að breyta flugmiðanum og koma heim. Byrjaði í sóttkví og fór að læra. Ég var nú eiginlega í einangrun í tvo mánuði því ég þurfti að læra fyrir prófin.“

Ásrún kláraði síðasta prófið viku fyrir viðtalið. „Við munum útskrifast á réttum tíma,“ segir hún.

Haukur hefur verið hér heima í heimsfaraldrinum. „Við kærastan mín eignuðumst dreng í janúar. Ég hef reynt að gera mest af verknáminu hér heima síðasta árið. Hef hoppað út í próf úr efninu. En ég fór út um miðjan mars. Þá var veiran að verða skæð á Ítalíu. Mér leist ekki of vel á stöðuna. Eftir 4-5 daga úti í Ungverjalandi gáfu stjórnvöld út neyðarlög tengd COVID, þannig að ég hoppaði í flug um leið og prófið var búið og kom heim,“ lýsir hann.

En sjá þau fyrir sér að sækja sérnám ytra? Ásrún segir já. „Mig langar aftur út. Eitthvert allt annað, en ég reikna þó með því að byrja á Íslandi og fara svo út til að klára.“

Haukur sér fyrir sér að byrja sérnám í skurðlækningum hér heima. „En fer svo fljótt út. Það er spennandi og ég myndi líklega velja að fara til einhvers Norðurlandanna en einnig hugsanlega Bandaríkjanna. Það er spennandi og öðruvísi en að búa í Ungverjalandi, sem er ekki beint vestrænt ríki þótt það stefni hratt þangað. Maður finnur fyrir leifum af gömlu Sovétríkjunum. Eins og í COVID duttu þeir í býrókrasíugír. Manni leið eins og í Kafkabók, endalaust af póstum um ekki neitt,“ segir hann sposkur. „En þau stóðu sig vel,“ segir hann og hlær.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica