07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Fólk sem fékk COVID-19 en lagðist ekki á spítala þarf endurhæfingu

Magdalena Ásgeirsdóttir, yfirlæknir á Reykjalundi, segir einn af öðrum tínast inn í endurhæfingu eftir COVID-19. Reykjalundur varð varadeild Landspítala þegar kófið geisaði sem hæst

Fólk sem greindist með COVID-19 hefur þurft á almennri endurhæfingu á Reykjalundi að halda þrátt fyrir að hafa ekki lagst inn á spítala í baráttu sinni við veiruna. Þetta segir Magdalena Ásgeirsdóttir, yfirlæknir á Reykjalundi.

viðtal

„Fólkið sem fékk vægari lungnaeinkenni en glímdi við önnur einkenni, eins og vöðvamáttleysi, gríðarlega þreytu eða úthaldsleysi er nú að koma til okkar eitt af öðru í endurhæfingu,“ segir hún.

„Fólk segir að því líði enn eins og slytti 8 til 12 vikum eftir veikindin,“ segir hún. Ekki sé vitað hversu langan tíma taki að endurheimta fyrri styrk en þau lesi sér stöðugt til um þróun þessa nýja heimsfaraldurs.

Reykjalundur varð varadeild Landspítala þegar COVID-19-faraldurinn fór á flug. Sérstök COVID-deild var sett upp á endurhæfingarsjúkrahúsinu, starfsmönnum skipt í tvö teymi sem og deildunum. Yfir 20 manns lögðust þá inn á Reykjalund, 13 þegar mesta var.

„Það var angist í þeim sem voru á gjörgæslu,“ segir Magdalena. „Flestir veiktust svo skyndilega. Höfðu verið með hita í einhverja daga. Einn eða -tveir lýstu því svo að þeim hefði fundist þeir skyndilega vera að deyja.“ Þeir hafi óttast að tilfinningin kæmi aftur. Angistin hafi verið mikil. Fólki var boðin sálgæsla og langflestir þáðu það.

Hópurinn sem hefur notið endurhæfingar er ólíkur, frá 40 ára aldri að áttræðu. Magdalena segir meðhöndlunina í sjálfu sér ekki ólíka þeirri sem fólk njóti eftir alvarlega lungnabólgu og fjölkerfasýkingar.

„Þetta eru sömu gjörgæslueinkennin og hjá fólki sem hefur verið svæft og legið hreyfingarlaust lengi.“

Magdalena segir að ekki sé mælt með endurhæfingu fyrr en 8 vikum eftir að fólk smitist. „Þetta er kerfislægur sjúkdómur sem leggst á fleiri líffæri en lungun; heilann, æðakerfið og hjartavöðvann,“ segir hún. Hann geti myndað blóðtappa og allskonar bólgur.

„Okkur tókst í þessu fyrsta áhlaupi faraldursins að vera COVID-19 laus hér á Reykjalundi. Hvorki starfsmenn né skjólstæðingar smituðust,“ segir hún.

Magdalena er stolt af starfsfólki Reykjalundar. „Það lögðust allir á árarnar og vildu leggja sitt af mörkum,“ segir hún. Andinn meðal starfsfólk sé góður en spítalinn var í kastljósi fjölmiðla síðla hausts vegna ólíkrar sýnar stjórnar og starfsfólks.

„Við erum svo mikið vertíðarfólk. Ef eitthvað var, þá lyfti þessi törn andanum. Fólk sýndi aftur samstöðuna sem var hér í haust. Allir voru tilbúnir þótt nú séu allir lúnir og þrái fríið sitt. Fólk þarf að hvílast,“ segir hún.

Magdalena segir bera á því að endurhæfingastöðin sé að fá beiðni frá Virk, sem vinni að starfsendurhæfingu, vegna fólks sem glímdi við COVID. Hún hvetur því lækna til að spyrjast fyrir, hringja, séu þeir í vafa um ferilinn og beina þeim beint til sín. En mun faraldurinn nú breyta starfsemi Reykjalundar?

„Ég hugsa það,“ segir hún og bendir á að nýjar áherslur fylgi nýrri stjórn. „Rétt áður en COVID-19 brast á var búið að gera skriflegan samning við Landspítala um að taka á móti nýskornum bæklunar-sjúklingum til þess að auka flæðið svo hægt væri að vinna á biðlistum.“ Það hafi þeim þótt áhugavert.

Stefnt er að auknu samstarfi við Landspítala. „Það er af hinu góða fyrir alla.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica