07/08. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

Samsek í þögn. Hulda Einarsdóttir

Hulda Einarsdóttir læknir sérfræðingur í ristil- og endaþarmsskurðlækningum við læknadeild Yale New Haven Connecticut

doi 10.17992/lbl.2020.0708.588

COVID-faraldurinn hefur lagst þungt á samfélög um allan heim með gríðarlegum afleiðingum á heilsu fólks og efnahag þjóða. Faraldurinn hefur kennt okkur margt, einkum um lýðheilsumál og misrétti, um stjórnunarhætti yfirvalda og gildi samfélags. Snörp viðbrögð heima á Íslandi skiluðu sér í öruggri stjórn á útbreiðslu veirunnar. Ég segi stolt íslenskar kórónusögur þeim sem vilja hlusta.

Viðbrögð Yale-spítalans við faraldrinum voru til fyrirmyndar en stjórn Bandaríkjanna með forsetann í fararbroddi fær hins vegar falleinkunn fyrir viðbrögð sem byggðust á afneitun og þjóðernishyggju. Sofið var á verðinum, viðvaranir hundsaðar og undirbúningur var slakur, meðal annars með nýlegri lokun faraldursdeildar Þjóðaröryggisráðsins. Bandaríkjaforseti, fullur hroka, var þess fullviss að „Kínavírusinn” myndi hverfa sem galdur. Vitaskuld fór þjóðin á bólakaf. Mikill fjöldi veiktist af COVID-19 og New York varð ný miðja faraldursins. Ekki var það nóg. Annað og ekki minna lýðheilsumál bættist við. Vitnisburður úr síma um kaldrifjað morð lögreglumanna á George Floyd blés fersku lofti í kraumandi reiði vegna kynþáttafordóma. Úr einangrun streymdi fólk út á götur í mótmælaskyni. Lýðheilsusérfræðingar studdu mótmælin opinberlega, þrátt fyrir augljósa aukna smithættu því rasismi er stærra og djúpstæðara heilsufarsmál en COVID-19.

Síðustu vikur hef ég lært að við erum öll sorglega sek um kynþáttafordóma. Því verðum við að breyta.

Við læknar gegnum lykilhlutverki í að læra um misrétti og lagfæra. Þeldökkur unglæknir í barnalækningum hélt nýverið magnaða ræðu fyrir utan bókasafn læknadeildar Yale. Læknar voru mættir til að mótmæla kynþáttahatri. Hún lýsti uppvexti sínum sem þeldökk manneskja í Ameríku og hvernig jafnvel hvíti sloppurinn verndaði hana ekki gegn kynþáttafordómum. Hún þakkaði okkur samstöðuna en spurði okkur hvar við hefðum verið fram að þessu? Og hvort við værum komin til að vera? Hún sagði okkur að allir þeldökkir sjúklingar fyndu fyrir fordómum inni á spítalanum. Allir! Þeir segðu okkur ekki frá því af því þeir treysta okkur ekki.

Heilbrigðisþjónusta í Bandaríkjunum er stórkostleg ef maður hefur aðgang að henni. Minnihlutahópar hafa sögulega séð haft skertan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.1 Þeldökk börn eru 500% líklegri til að vera með astma en hvít. Þeldökkir Ameríkanar eru tvöfalt líklegri til að deyja úr COVID-19 en hvítir. Svartir eru þyngri og oftar með háþrýsting og sykursýki. Þeir deyja að meðaltali þremur árum fyrr en hvítir með sambærilegan fjárhag. Blökkumenn bíða lengur á biðstofum okkar. Þeir eru líklegri til að deyja úr algengustu krabbameinunum en hvítir. Sökum ómeðvitaðrar hlutdrægni veita læknar hvítum markvissari þjónustu við brjóstverkjum.

Þeldökkir Ameríkanar hafa verri aðgang að hollum mat, hreinu lofti og útivistarsvæðum. Póstnúmer manns er mikilvægara en erfðaefni, heilsufarssaga og tryggingar. Svartir búa nánast allir ennþá í rauðu hverfunum sem þeir voru skipaðir í á 20. öldinni.Meðalfjárhagur svartrar fjölskyldu er að jafnaði tífalt minni en hvítrar.3 Rasismi birtist því ekki bara í fúkyrðum heldur líka í útbreiddu og djúpstæðu, kerfisbundnu misrétti í heilbrigðisþjónustu, menntun, húsnæði og efnahag.

Kerfisbundin mismunun í bandaríska réttarkerfinu4 er þjóðfélagslegt krabbamein sem tekur unga menn úr umferð í ár og áratugi. Þeldökkir menn lenda í fangelsi miklu oftar og miklu lengur fyrir miklu vægari brot en hvítir. Bandaríkin hýsa 4% af íbúum jarðar en 25% af föngum á heimsvísu. Gróðamiðuð einkarekin fangelsin væru rekin með tapi ef fanga vantaði. 67% af fangelsuðum mönnum eru svartir en svartir eru 13% af þjóðinni. Á ævi sinni mun einn af þremur blökkumönnum lenda í fangelsi, einn af 6 spænskættuðum, en einn af 17 hvítum. Þrettándi viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna veitti þrælum frelsi árið 1865 en nauðungarvinna er áfram leyfileg fyrir dæmda menn. Þessi klausa hefur markvisst og án miskunnar verið notuð til að réttlæta þrælkunarvinnu fanga. Mörg bandarísk stórfyrirtæki notfæra sér slíkt vinnuafl og borga lítil eða engin laun. Þeir sem vilja sniðganga þessi fyrirtæki geta auðveldlega fundið þau á netinu.

Kynþáttafordómar eru ekki meðfæddir, þeir lærast. Sjö forsendum þeirra5 er lýst í nýrri grein. Fjölmiðlar gegna stóru hlutverki í viðhaldi á flokkaskiptingu fólks og aðskilnaði, til dæmis með því að birta hvíta oftar og í betra ljósi en svarta. Blökkumenn eru glæpamenn, hvítir fórnarlömb. Persónur í barnabókum eru flestar hvítar. Lífseigasta undirstaða rasisma er aðgerðaleysi. Á meðan við erum dipló og sitjum hjá deyr fólk. Án okkar viðurkenningar og aðgerða fer hnéð ekki af hálsinum. Þögnin er verst, hún er ofbeldi í sjálfri sér.

Í svartri list og tónlist, til dæmis Black Lives Matter-lagalista á Spotify, spilar maður lag eftir lag þar sem grátbeðið er um hjálp og skilning. F*** Tha Police er bón um hjálp. Bíómyndin Moonlight er bón um víðsýni og samúð. Við getum lært svo mikið af svo mörgum.

Lesum, hlustum, spyrjum og breytum!

Heimildir

1. Being Black Is Bad for Your Health. We must acknowledge the link between race and poor health before we can meet our nation's daunting health equity challenge. Risa Lavizzo-Mourey, David Williams, U.S. News & World Report, April 14, 2016.
 
2. The Case for Reparations. Two hundred fifty years of slavery. Ninety years of Jim Crow. Sixty years of separate but equal. Thirty-five years of racist housing policy. Until we reckon with our compounding moral debts, America will never be whole. Ta-Nehisi Coates. The Atlantic. June 2014.
 
3. McIntosh K, Moss E, Nunn R, et al. Examining the Black-white wealth gap. February 27, 2020. brookings.com
 
4. Alexander M. The New Jim Crow. Mass Incarceration in the Age of Colorblindness. New Press. 2010.
 
5. Roberts & Rizzo. The Psychology of American Racism. Am Psychologist 2020: 1-40.
https://doi.org/10.1037/amp0000642
PMid:32584061


Þetta vefsvæði byggir á Eplica