06. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Lóan kom þrátt fyrir allt. Ólafur Guðlaugsson
Þetta eru skrýtnir tímar. Allt snýst um einhverja veirusýkingu. Nær öll samtöl snúast einhvern veginn yfir í COVID þetta eða hitt. Auðvitað kemur það ekki á óvart þar sem þessi veira hefur snert alla þætti samfélagsins og haft einhver áhrif á allt og alla.
Nú, í fyrsta leikhléi eða kannski andrými, er gott að staldra við, anda djúpt og horfa inn á við. Eftir þennan erfiða vetur þar sem ég og minn frábæri samstarfshópur vann myrkranna á milli, er mér efst í huga þakklæti og auðmýkt. Svona til skiptis.
Ég er þakklátur fyrir hækkandi sól, fækkandi COVID-greiningar og komu lóunnar. Mér finnst frábært að lóan og allir vinir hennar skyldu koma til landsins á réttum tíma og ekki láta mannaveirusýkingar trufla sig. Eftir þennan vetur er ég einnig þakklátur fyrir allt það óeigingjarna og frábæra samstarfsfólk sem tók þátt í þessu stóra COVID-verkefni. Ég held að enginn sem ekki tók þátt í þessari orustu geti skilið vinnuna á bakvið árangurinn sem náðist. Endurskipuleggja þurfti nær alla heilbrigðisþjónustu á Íslandi, útfæra lausnir á vandamálum sem aldrei hafa komið upp áður, við sjúkdómi sem enginn þekkti í desember.
Heilbrigðisþjónustan byggist á fagfólki, mörgum mismunandi fagstéttum sem allar vinna saman að einu sameiginlegu marki, að tryggja skjólstæðingum okkar bestu mögulegu þjónustu. Samheldnin hefur verið alger. Einbeitingin og ákveðnin í að klára þau verkefni sem komu upp á hverjum degi hafa fyllt mig stolti af því að vinna í okkar heilbrigðiskerfi með okkar frábæra fagfólki.
Ég er þakklátur fyrir að enginn af mínu samstarfsfólki smitaðist við umönnun sjúklinga. Sums staðar erlendis hafa margir heilbrigðisstarfsmenn smitast, með tilheyrandi veikindum, dánartíðni og andlegu álagi allra. Mér finnst líklegt að gott aðgengi að réttum hlífðarbúnaði og mikil fagmennska hafi komið í veg fyrir það hérlendis.
Ég er þakklátur fyrir að eiga fjölskyldu sem hefur stutt mig á þessum krefjandi tímum. Ég vann langt fram eftir á hverjum degi og allar helgar í marga mánuði. Þau voru alltaf tilbúin til að gefa mér knús, nema þegar ég lenti sjálfur í sóttkví B. Það var erfiður tími. Ég vann í stofufangelsi á daginn og var í sóttkví eftir að heim var komið. Þá urðu þráðlaus knús að duga, eins erfitt og það nú er. En öll él birtir upp um síðir, og knúsið var gott eftir tveggja vikna stofufangelsi án sýkingar.
En aftur að lóunni. Ég er þakklátur fyrir að geta heilsað upp á hana af og til á fjöllum. Ég hef getað skotist sum kvöld og jafnvel um helgar til að mása upp fjöll og fell í kringum borgina. Það er ómetanlegt að búa á stað með góðu aðgengi að frábærum og fjölbreyttum útivistarsvæðum og eins er ég þakklátur fyrir heilsuna og að geta svona skammlítið másað upp brekkur og skriður. Það er jú þannig að ekkert hreinsar hugann og færir mann inn í núið eins og að þurfa að rata í þoku, snjó, rigningu og jafnvel myrkri á fjöllum. Þá er ekki rými til að stressa sig yfir óþarfa smáatriðum. Ég hef einmitt leyst mörg vandamál á fjöllum og þar hafa góðar hugmyndir kviknað.
Ég er auðmjúkur gagnvart þeim áskorunum sem allt mitt samstarfsfólk þurfti að standast. Það er stundum talað um hetjur sem hlaupa inn í brennandi hús. Hvað segir maður þá um heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með nýjan, áður óþekktan smitsjúkdóm, sem getur smitað okkur sjálf eins og aðra, og mögulega borist til þeirra sem okkur eru kærastir í framhaldinu. Það eina sem skilur á milli er þunnt lag af hlífðarbúnaði. Samt hikaði enginn í þeim verkefnum sem þurfti að leysa, allt unnið fumlaust og af æðruleysi. Dag eftir dag, nótt eftir nótt.
Kraftur náttúrunnar er okkur á Íslandi vel kunnur, og nú erum við minnt á áhrifamátt smæstu lífveranna. Við þurfum að vera auðmjúk gagnvart náttúrunni og umgangast hana af mikilli virðingu.
Þá verður að hafa í huga að þó vel hafi gengið í fyrstu bylgjunni er ekki sjálfgefið að svo verði næst.
Verum þakklát fyrir lífið, heilsuna og ástina.