06. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Minningarorð um Pál Sigurðsson

bæklunarlæknir og fyrrum ráðuneytisstjóri 9. nóvember 1925 – 16. apríl 2020

 

Páll Sigurðsson lauk embættisprófi í læknisfræði í janúar 1952 og hafði þá þegar ráðið sig á spítala St. Jósefs á Landakoti. Að loknu kandídatsárinu fór hann í framhaldsnám í bæklunarskurðlækningum í Gautaborg. Guðrún Jónsdóttir eiginkona Páls lauk læknaprófi í ársbyrjun 1955 og hélt þá út með dætrum þeirra, tvíburunum Jónínu og Ingibjörgu.

Síðla árs 1955 fékk Páll bréf frá berklayfirlækni sem bauð honum starf á nýrri slysadeild í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg sem hafði opnað þá um haustið. Yfirlæknirinn hafði veikst af mænusótt og lamast illa. Þeim hjónum var nú vandi á höndum. Hugur Páls stóð til þess að bæta við sig tveimur árum í skurðlækningum þótt það þyrfti ekki til að fá sérfræðiréttindi í bæklunarskurðlækningum. Það var hins vegar ekki auðvelt að fá læknisstöður á Íslandi á þessum tíma og hvorugt langaði til að eyða starfsævinni í Svíþjóð. Páll sótti því um stöðuna og lofaði að koma heim í febrúar 1956. Hann vann á Slysavarðstofunni frá 1956 til 1960. Samtímis var hann með stofu fyrir móttöku sjúklinga í sérgrein sinni og sinnti auk þess heimilislækningum fyrir rúmlega 800 manns 17 ára og eldri, auk yngri barna. Enn fremur annaðist hann sjúklinga á Landakoti á árunum 1956-1970. Eftir að heim kom fæddist dóttirin Dögg og síðan tvíburabræðurnir Sigurður Páll og Jón Rúnar.

Í ágúst 1959 fór Páll í námsferð til Svíþjóðar, Danmerkur og Englands til þess að kynna sér nýjungar í sérgrein sinni. Landlæknir frétti af þessu og bauð honum styrk til fararinnnar gegn því að hann kynnti sér einnig störf lækna að almannatryggingamálum og sækti síðan um embætti tryggingayfirlæknis, sem myndi losna á árinu 1960. Gekk það eftir. Í tryggingaráði fékk Páll þrjú atkvæði af fimm og þar með stöðuna. Hann hóf störf í Tryggingastofnun ríkisins 1. júlí 1960. Hann fékk leyfi stjórnenda stofnunarinnar til að vera áfram með stofu sem bæklunarlæknir og gera aðgerðir á Landakoti, en hætti sem heimilislæknir. Þessi skipan byggðist á því að stjórnvöld litu á hvert verkefni sem hlutastarf. Þetta breyttist nokkrum árum síðar þegar spítalalæknar ákváðu að segja upp störfum sínum. Dóms- og kirkjumálaráðherra, sem þá fór með heilbrigðismál, benti læknum á að þar sem um hópuppsögn væri að ræða, væri þetta athæfi þeirra refsivert. Læknarnir sátu við sinn keip og var málinu vísað til gerðardóms. Úrskurður hans var birtur sumarið 1963 og var þá farið að greiða læknum sérstaklega fyrir vakta- og yfirvinnu.

Páll var varaborgarfulltrúi 1962-1966 og borgarfulltrúi 1966-1970. Sem varaborgarfulltrúi lagði hann fram tillögu um að endurskoða fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar í Reykjavík. Tillagan var samþykkt og nefnd skipuð þar sem Páll var fulltrúi borgarstjórnar. Vegna þessarar vinnu fór hann í nóvember 1965 ásamt læknunum Arinbirni Kolbeinssyni og Þórarni Guðnasyni til Norðurlandanna og Englands til að afla upplýsinga um hópstarf lækna og heilsugæzlustöðvar, en í læknaskipunarlögum sem þá giltu var gert ráð fyrir möguleikum til breytinga á skipan héraða í þá átt að samstarfshópar gætu myndast. Um ferðina birtu læknarnir grein í Læknablaðinu 1966 (52. árg., 1. hefti, febrúar 1966). Nefndin lagði árið 1968 fram tillögur um breytt fyrirkomulag heimilislæknisþjónustu í borginni. Með tillögunum var lagður grunnur að þeirri heilsugæslu sem landsmenn búa við í dag því flestar þeirra birtust í frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu, sem varð að lögum 1. janúar 1974. Páll var formaður nefndarinnar, sem samdi það frumvarp, þá orðinn ráðuneytisstjóri.

Síðla sumars árið 1969 fóru Guðrún og Páll til frekara náms ásamt yngri börnunum þremur til Bristol í Somerset á Suðvestur-Englandi. Guðrún hóf nám í geðlækningum og Páll stundaði lýðheilsufræði í Department of Public Health, University of Bristol. Þaðan útskrifaðist Páll vorið 1970. Þegar heim kom, hélt Guðrún áfram sérnáminu og starfaði sem geðlæknir þar til þau fóru bæði á eftirlaun. Guðrún lézt 27. nóvember 2019.

Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið var stofnað 1. janúar 1970 og tók til starfa 1. september sama ár. Páll var skipaður fyrsti ráðuneytisstjórinn og gegndi embættinu í aldarfjórðung. Um það tímabil má fræðast í bók hans Heilsa og velferð, þættir úr sögu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins 1970-1995. Páll vildi varpa ljósi á uppbyggingu og þróun heilbrigðis- og tryggingamála síðasta aldarfjórðung 20. aldar enda taldi hann þá sögu eiga erindi fyrir almennings sjónir, bæði til að henni væri haldið til haga en ekki síður til að gera mönnum grein fyrir þeim stórstígu breytingum og framförum sem urðu í heilbrigðisþjónustunni á tímabilinu.

Greinarhöfundur ritaði umsögn um rit Páls á þessum vettvangi (Læknablaðið 1999; 85: 77) og sagði þar meðal annars:

Páli Sigurðssyni hefir tekist að draga saman mikinn fróðleik og setja fram á þann skipulega og agaða hátt, sem einkennt hefir alla embættisfærslu hans. Páll hefir með þessu framtaki sínu varpaði ljósi á þróun heilbrigðis- og tryggingamála á Íslandi síðustu þrjá áratugi þessarar aldar.

Páll var kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Íslands árið 2004.

Að leiðarlokum þakkar greinarhöfundur áratuga vináttu við þau hjón Guðrúnu og Pál og samstarf, sem aldrei bar skugga á.

Örn Bjarnason læknir og fyrrum ritstjóri Læknablaðsins



Þetta vefsvæði byggir á Eplica