06. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Sníður Heilbrigðisstofnun Suðurlands að nýjum veruleika, framkvæmdastjóri lækninga í viðtali

Af þeim 105 sem veiktust af COVID-19 í Vestmannaeyjum lögðust aðeins þrír á sjúkrahús. Enginn þurfti á gjörgæslu. Framkvæmdastjóri lækninga segir fjarlækningar ekki eiga að leysa landsbyggðarsjúkrahúsin og heilsugæsluna af hólmi heldur nýtast til að styrkja þjónustu þeirra.

COVID-19 faraldurinn sýnir hvað það er mikilvægt að hafa öflugar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Þetta segir Sigurður Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi. Hjörtur var endurráðinn framkvæmdastjóri til 5 ára síðastliðið haust.

„Erfiðara hefði verið að takast á við faraldurinn ef þessi mannauður og aðstaða hefðu ekki verið fyrir hendi,“ segir Hjörtur, sem hóf störf á á sjúkrahúsi Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja 2001 eftir sérnám í lyf- og hjartalækningum á Íslandi og í Noregi. Síðan þá hefur stofnunin verið sameinuð heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) sem er nú með 10 starfsstöðvar í heilsugæslu.

Starfsfólk heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum, frá vinstri: Davíð Egilsson yfirlæknir, Auður Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur, Hrund Gísladóttir hjúkrunarfræðingur, Bjartey Hermannsdóttir móttökuritari, Aníta Áskelsdóttir hjúkrunarfræðingur, Hjörtur Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga, Thelma Rós Tómasdóttir hjúkrunarfræðingur, Guðný Bogadóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Hafsteinn Daníel Þorsteinsson yfirlæknir, Hannes Sigmarsson læknir og Hjalti Kristjánsson læknir. Mynd/Tryggvi Sæmundsson

„Haustið 2014 rann Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja saman við HSU og eftir að Hornafjörður kom að fullu inn nú eftir áramótin þá sinnir ein stofnun öllu heilbrigðisumdæmi Suðurlands,“ lýsir hann. Hvernig kemur sameining svæðisins út?

„Það eru kostir og gallar,“ segir Hjörtur. Hætta sé á að miðsóknaraflið verði of ríkjandi og jaðarinn útundan sé ekki gætt að því. „En að sama skapi myndast hagræðing,“ segir hann og nefnir til að mynda samninga um tölvukerfi, lyfjakaup og eflingu á ýmsum faglegum þáttum.

Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að skýr stefna liggi fyrir um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. „Það er mjög erfitt að fá gott fólk til skuldbinda sig til að vinna við aðstæður með óljósa framtíð.“

Heimsfaraldur í Eyjum

Kastljós fjölmiðla beindist að Vestmannaeyjum nú í kórónuveirufaraldrinum þegar upp kom fjöldi smita í Heimaey. „Fyrsta tilfellið greindist 15. mars,“ lýsir hann. „Á fyrstu 10 dögunum fórum við síðan hratt úr einu tilfelli í 51. Margir fóru á stuttum tíma annaðhvort í einangrun eða sóttkví.“ Þá þegar hafi verið búið að skipuleggja starfsemina og gera áætlanir.

„Við lagskiptum þjónustunni og hólfaskiptum aðgangi starfsfólks innan laga þar sem það var hægt. Við reyndum að hafa legudeildina afmarkaða með því að aðskilja starfsfólk.“ Það sama hafi gilt um heilsugæsluna. „Við tókum COVID- og COVID-grunsamleg vandamál út fyrir sviga,“ segir hann og lýsir því hvernig þeir sem stóðu vaktina hafi gert allt til að láta hlutina ganga.

„Menn unnu myrkranna á milli þarna í nokkrar vikur. Einn læknirinn okkar er á ónæmisbælandi lyfjum. Hann hélt samt ótrauður áfram, setti upp veirugrímu í febrúar og var með til skamms tíma,“ lýsir hann.

„Í nokkrar vikur sá hann að mestu leyti um vaktþjónustu fyrir önnur vandamál en öndunarfærasýkingar, á meðan hinir tveir föstu læknarnir í vaktlínunni sinntu COVID-tengdum málum; móttöku, vitjunum, sýnatöku og þess háttar. Í raun lagði allt starfsfólkið á sig aukið álag með ýmsum hætti. Mjög ánægjulegt var að sjá hvað allir voru samtaka í því að láta hlutina ganga.“

Enginn læknir veiktist af veirunni en einn fór í samtals mánaðarsóttkví vegna útsetningar utan stofnunar. Fimm starfsmenn, þar af þrír hjúkrunarfræðingar, smituðust og talsverður fjöldi var í sóttkví. Þá komust afleysingalæknar erlendis frá ekki í fyrirhugaðar afleysingar. Keyrt var á takmörkuðum mannafla sem þó var samhentur.

„Við urðum að bregðast við þessu en í 4-6 vikur var ansi mikið að gera hjá þeim sem eftir stóðu,“ segir hann. Hjálp kom einnig annars staðar frá. Þrír hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar komu af fastalandinu í tæpa viku og geislafræðingur úr Reykjavík leysti af í vikutíma.

„Reyndur lungnalæknir af Landspítala, sem var í leyfi þaðan, kom með stuttum fyrirvara inn í samtals tæpar tvær vikur og dekkaði sjúkrahúsvaktina, þar sem áður fyrirhuguð afleysing brást vegna ástandsins,“ segir hann.

„Við fórum að sinna fólki í mun meira mæli í gegnum síma og einhverju leyti með myndsímtölum og þar gátum við nýtt okkur starfsfólk sem var í sóttkví.“ Álag vegna annarra heilsufarsvandamála hafi minnkað af ýmsum sökum, sem hafi hjálpað til.

Hann segir að til að takast á við veiruna hafi HSU fengið lánaða gáma hjá Vestmannaeyjabæ og fyrirtækjum í bænum og spyrt við heilsugæsluna. Þar hafi öndunarfæra- og COVID-móttaka verið sett upp og þannig aðskilin annarri heilsugæslustarfsemi eins og hægt var. Eins hafi gámar verið notaðir við sýnatökur.

Erfitt hafi verið að vita hvert stefndi þegar tilfellin voru á stuttum tíma orðin 51. „Við urðum að takast á við vandann eins hratt og hægt var.“ Kraftur hafi verið settur í skimanir sem þó hafi í upphafi liðið fyrir að ekki voru til sýnapinnar og glös. Samstarf við Íslenska erfðagreiningu hafi hjálpað mikið til við að stöðva útbreiðsluna. Um 1500 einstaklingar voru skimaðir með sýnatöku dagana 2.-3. apríl og 33 smit greind.

„Eftir það hafa einungis greinst tveir jákvæðir. Báðir einkennalausir. Eftir 20. apríl hafa engin smit greinst í Vestmannaeyjum þrátt fyrir dugnað við sýnatökur.“ Af öllum smituðum voru einungis þrír lagðir inn á sjúkrahús og enginn á gjörgæslu.

Hjörtur segir að samstaða fólks í bænum hafi verið aðdáunarverð. „Samfélagið er með afmarkaða, þéttriðna og virka samsfélagsgerð sem skýrir ef til vill hvers vegna smitið fór svo hratt um.“ Svo spili tilviljanir inn í, en rétt eins og smit hafi ferðast hratt um hafi það með samhentu átaki verið stöðvað.

Fjarlækningar mikilvægar

En breytir COVID-faraldurinn stofnuninni? „Við erum smám saman að fara til baka í að veita sömu þjónustu og áður, en kannski og vonandi með uppfærðri og betri aðferðafræði,“ segir Hjörtur. Þessa fyrstu viku maímánaðar sækja fleiri í að koma og hitta starfsfólk. „Fjarlausnir og tæknilausnir hafa þó sannað gildi sitt.“

Hjörtur telur að fjarheilbrigðisþjónusta eigi að geta eflt þjónustuna á landsbyggðinni. „Bæði styrkt þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi og eins bætt aðgengi að ýmissi sérfræðiþjónustu,“ segir hann. „En hafa þarf í huga í því sambandi að áfram þarf að veita staðbundna þjónustu. Það er ekki skynsamlegt að strippa litla staði af læknum og hjúkrunarfræðingum og ætla að sinna öllu í gegnum tölvu.“

Óttast hann það? „Það er hætta á að menn telji að hægt sé að leysa þjónustuna með ódýrari hætti með þeim lausnum og horfi ekki á heildarmyndina,“ segir hann. „Það er hægt að ná fram hagræðingu og skilvirkni á ýmsan hátt með tæknilausnum, en það má ekki rýra þjónustustig og gæði þjónustunnar.“

Hann segir mikilvægt að fólk geti hitt heimilislækni sinn í eigin persónu, ekki síst þeir sem séu með langvinn eða alvarleg vandamál. Því þurfi að hafa fastráðna lækna á hverjum stað, hvort sem þeir séu búsettir á staðnum eða komi reglubundið. „Eftirfylgd getur síðan að einhverju leyti farið fram í gegnum tæknilausnir,“ segir hann. Hann viðurkennir þó að óttast dálítið að stefnt sé að fjarlækningum án stuðnings á stöðunum sjálfum.

„Þetta snýst annars vegar um heilsugæsluna, persónuleg samskipti og þjónustustigið. Hins vegar um öryggisstig,“ segir hann. Hægt er að útfæra hluti og þjónustu með ýmsum hætti en fjarheilbrigðisþjónustu eigi að efla og styrkja þá þjónustu sem fyrir sé en ekki að rýra hana.

Lækna vantar í 5 stöðugildi

Hjörtur segir að betur hafi tekist að manna stofnunina nú en síðustu ár. „Nú eru fastráðnir yfirlæknar á öllum heilsugæslustöðvum.“ Þó vanti heilsugæslulækna í 5 stöðugildi. „Fyrir nokkrum árum höfðum við engan fastan lækni á sumum stöðunum en stöðugleiki í mönnun hefur aukist smám saman.“

Mönnun á landsbyggðinni snýst ekki aðeins um laun heldur einnig um aðstöðu, starfsumhverfi, starfsanda, álag og starfsöryggi. „Þar koma ýmsir þættir inn í sem geta bætt ástandið“ segir hann. „Gerðar hafa verið ýmsar skipulagsbreytingar, ekki síst á Selfossi, en þar hefur eftirspurn eftir þjónustu aukist verulega síðustu ár.“

Þótt fleiri hafi verið ráðnir þurfi að gera enn betur. Stefnt sé að því að aðskilja bráðamóttökuna á Selfossi mun meira frá heilsugæslu þar sem umfang bráðamóttökunnar sé orðið það mikið.

„Ástandið í kjölfar COVID gefur okkur núna á ýmsan hátt svigrúm til að endur-sníða þjónustuna að verkefnunum.“

Settist að í Eyjum eftir sérnám í Noregi

Sigurður Hjörtur Kristjánsson er fæddur og uppalinn á Siglufirði og hafði aðeins hugsað sér að vera tvö ár í Vestmannaeyjum þegar hann kom þar til starfa 2001, en ástin knúði dyra. Hann kynntist Láru Skæringsdóttur, sem er grunnskólakennari og er auk þess að klára BA í ensku nú í vor.

Sigurður Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hefur verið búsettur meira og minna í Eyjum frá árinu 2001 en er nú með starfstöð þar og á meginlandinu. Mynd/Tryggvi Sæmundsson

„Það varð til þess að ég ílengdist aðeins!“ Hann segir samfélagið í Eyjum svipa til Siglufjarðar þegar hann ólst þar upp. „Siglufjörður var álíka einangraður og Vestmannaeyjar eru og hugarfarið á margan hátt svipað,“ segir hann. Hann er sá fyrsti í fjölskyldunni sem lærir til læknis, hafði skráð sig í verkfræði en kláraði læknisfræði.

„Ég var ekki alveg viss og skipti á síðustu stundu í læknisfræði eftir að hafa spáð mikið í hvað ég vildi gera. Mér fannst þetta einhvern veginn eiga best við mig þótt ég þekkti ekki mikið til og enginn nákominn mér læknismenntaður.“ Þar sem hann komst í gegnum fyrsta árið í fyrstu tilraun hafi hann haldið áfram.

„Ef ég hefði ekki gert það veit ég ekki hvort ég hefði reynt aftur. Hann hélt til sérnáms til Noregs. Það hafi hentað vel. Fjölskylduvænna sé að sækja sérfræðinám í Skandinavíu en að fara til Bandaríkjanna. „Þess vegna fórum við fjölskyldan til Noregs.“

Hjörtur og fjölskylda fóru fyrir áratug til Nýja-Sjálands og vörðu þar 14 mánuðum. Þau vildu breyta til og prófa nýja hluti og fékk hann ársleyfi frá störfum. Hann vann sem sérfræðingur við sjúkrahúsið í Whangarei á Norðureyjunni.

„Í stuttu máli var það draumur í dós og frábær reynsla á allan hátt. Laumufarþegi var líka með í för sem fullkomnaði upplifunina. Yngsti sonurinn, Aron Hugi, fæddist sem sagt á Nýja-Sjálandi og verður 10 ára núna í sumar.“

Spænska veikin í Eyjum

Þessi mynd hefur ekki birst áður en hún er tekin í sjúkrastofu franska spítalans (Gamló) í Eyjum sem starfandi var 1906-1927. Takið eftir hlustpípu læknisins. Læknir í Eyjum á þessum tíma var Halldór Gunnlaugsson (1875-1924) sem starfaði á franska spítalanum. Hann var að gegna sóttvarnalögum þegar hann drukknaði á leið um borð í millilandaskip úti fyrir Vestmannaeyjum. - Frakkar byggðu vegleg sjúkrahús fyrir sína sjómenn við Íslandsstrendur í Reykjavík, Fáskrúðsfirði og í Vestmannaeyjum. Myndir frá Ljósmyndasafni Vestmannaeyja.

Skipið Skagfirðingur kom til Vestmannaeyja 4. nóvember 1918 og um borð voru menn frá Reykjavík sýktir af spænsku veikinni. Íbúar þá voru 2033 talsins og af þeim veiktust 1341, eða 66%. Alls létust 27 (af þeim voru 12 á aldrinum 20-40 ára), eða 1,3% af íbúum. – Nú eru íbúarnir 4284 og tölurnar frá 1918 jafngilda því að þar myndu veikjast 2827 og 56 deyja.

Á flensutímanum 1918-1920 var samkomu- og samgöngubann í Eyjum og mikill tímabundinn vöruskortur.

Byggt á erindi Þórólfs Guðnason sóttvarnalæknis, Í bjarma sjálfstæðis, um spænsku veikina sem hann
flutti í Eyjum 14. október 2018.

 

1918 í Vestmannaeyjum

Byggðin í Heimaey árið 1915.

Árið 1918 voru 400 húsráðendur í Vestmannaeyjum. Börnin sem fæddust voru 81, en 52 dóu. Fjölmennustu stéttirnar voru útgerðarmenn, sjómenn og verkamenn. Verslanir voru 23 og allar í innlendri eigu.

Vélbátar voru 63 alls, og aflinn 886.494 þorskar. Talsverður búskapur var í Eyjum árið 1918. Sauðfé var 1161, nautgripir 111 og hross 55 talsins. Kartöfluuppskera var 163 tunnur og gulrófur 354 tunnur. Fuglaveiði var umtalsverð og veiddust 68.320 lundar, 20.280 fýlsungar og 159 súlur. Tímakaupið í Eyjum var 65 aurar árið 1918.

Híbýlakostur var bágborinn hjá almenningi. Fólk hafðist við í óhituðum vistarverum, oft mjög þröngum, en verstur var skorturinn á eldsneyti til matargerðar. Kol voru afar dýr, verðið hafði hækkað 1000% frá stríðsbyrjun 1914, þau voru skömmtuð og sama gilti um sykur, steinolíu, smjörlíki og sement. Skortur var á kornvörum og kartöflum. Erfitt var að útvega olíu og salt handa útgerðinni.

1918 var þungt: miklar vetrarhörkur, dýrtíð, vöruskortur, atvinnuleysi, Kötlu-gos, – en verst var spænska veikin og nær helmingur þeirra sem létust var ungt og hraust fólk.

Fyrri heimsstyrjöldinni lauk með friðarsamningum og fullveldi Íslands var viðurkennt 1. desember. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um það sögðu 457 kjósendur í Vestmannaeyjum já, 4 nei.

Byggt á upplýsingum frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.Þetta vefsvæði byggir á Eplica