06. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

0,01 skildi eineggja tvíburana Sunnu og Erlu að í inntökuprófunum fyrir læknisfræðina

Engin samkeppni, bara stuðningur, segja þær systur Sunna Lu Xi og Erla Liu Ting Gunnarsdætur. Þær eru á fjórða ári í læknisfræði og hafa þegar birt tvær fræðigreinar í Læknablaðinu. Þær stefndu á skiptinám á Spáni og Ítalíu í sumar en kórónuveiran kom í veg fyrir áformin.

„Málið snýst um að skipuleggja sig og þá er þetta ekkert mál,“ segir Sunna Lu Xi Gunnarsdóttir spurð hvernig hún og systir hennar, Erla Liu Ting Gunnarsdóttir, fjórða árs nemar í læknisfræði, fara að því að skrifa fræðigreinar samhliða námi sínu. Erla dregur úr systur sinni. „Ég ætla nú ekki að segja að þetta hafi verið auðvelt,“ skýtur hún inn. „Nei, nei,“ samsinnir Sunna. „En gaman,“ botnar Erla. „Maður verður að hafa áhugann.“

hlusta

Þær hafa vakið athygli á göngum læknadeildarinnar fyrir hve samrýmdar þær eru og fylgjast að í náminu en segja þónokkra ekki átta sig á því að þær séu tvær. „Já, sumir hafa ekki séð okkur saman og ruglast á okkur. Halda jafnvel að við séum sama stelpan,“ segir Erla. Sunna segir þær oft í mismunandi deildum. „Já, þá halda margir að við séum sama manneskjan.“

Sunna Lu Xi og Erla Liu Ting Gunnarsdætur stefndu á að fara í skiptinám í sumar. Sunna til Ítalíu en Erla til Spánar. Ekkert varð úr því vegna kórónuveirunnar sem veldur COVID-19. Þær segja hafa verið lærdómsríkt að fylgjast með Landspítala fást við heimsfaraldurinn. Mynd/gag

Þær systur fæddust í Reykjavík fyrir 24 árum og bjuggu þar fram á sjöunda ár en fluttu þá í Garðabæ. Þær eiga ættir að rekja til Kína, eru hálfkínverskar, en hafa ekki búið þar. „Nei, en við höfum farið þangað nokkrum sinnum,“ segir Erla.

Skrifa greinar meðfram námi

Þrátt fyrir að vera aðeins á fjórða ári í læknisfræði hafa þær systur fengið tvær fræðigreinar birtar með fleiri höfundum. Sunna leiddi fyrri greinina sem birtist í febrúar og fjallaði um notkun ósæðardælu við kransæðahjáveituaðgerðir. Dælan eykur blóðflæði um kransæðar í þanbili og auðveldar hjartanu að tæma sig í slagbili.

Niðurstaðan sýndi að innan við 5% sjúklinga fengu ósæðardælu í tengslum við kransæðahjáveitu hér á landi. Hlutfallið hefði lítið breyst á síðastliðnum 18 árum og fylgikvillar töluvert meiri og lífslíkur síðri en viðmiðunarhópsins.

Fræðigreinarnar sumarstarf

Seinni fræðigreinina leiddi Erla og birtist hún í mars. Hún var um algengi og áhættuþætti lengdrar dvalar á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð. Þar kemur fram að fimmti hver sjúklingur þurfi að dvelja á gjörgæslu í tvær eða fleiri nætur eftir aðgerðina. Ýmsir áhættuþættir spái fyrir um hve lengi þeir þurfi að dvelja á gjörgæslu.

Með þeim systrum skrifa Alexandra Aldís Heimisdóttir og Sunna Rún Heiðarsdóttir sem einnig eru læknanemar og Sólveig Helgadóttir, læknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Akademíska sjúkrahússins í Uppsölum í Svíþjóð. Einnig læknarnir Tómas Guðbjartsson og Martin Ingi Sigurðsson.

Þær segja frá því hvernig þær hjálpuðust að við að safna gögnunum. „Þetta er komið frá BS-verkefninu okkar, þriðja árs verkefninu okkar. Þar notuðum við sama gagnagrunninn og hjálpuðumst að,“ segir Erla.

„Skrifin voru sumarvinnan okkar síðasta sumar.“ Tæplega ár tók að klára fræðigreinarnar. En hjálpast þær að við námið?

„Já,“ svara þær og Sunna tekur við: „Mér finnst mjög þægilegt að hafa einhvern með mér sem gengur í gegnum það sama og ég.“ Erla bætir við. „Við getum alltaf talað saman. Við lærum saman. Það hjálpar mjög.“ Sunna: „Já, við lærum alltaf saman.“ En hefur það alltaf verið þannig?

„Já,“ segir Erla. „Við höfum alltaf verið saman í skóla.“ Þær systur tóku þátt í norrænu vísindaþingi hjartaskurðlækna í Geilo í Noregi. Þar vann Erla til fyrstu verðlauna fyrir verkefnið.

„Þetta er fyrsta þingið sem við tókum þátt í þannig að ég bjóst alls ekki við að vinna nein verðlaun, en ótrúlega gaman að taka þátt. Þetta er lítið þing og skemmtileg stemmning á því. Það er mjög gott að byrja á þessu þingi,“ segir Erla.

Samhliða því að segja frá árangri Erlu á Facebook-síðu sinni benti Tómas Guðbjartsson á að tímalengd dvalar á gjörgæslu eftir kransæðaaðgerðir væri vandamál sem öll sjúkrahús á Norðurlöndum þyrftu að kljást við vegna skorts á gjörgæslurýmum. Óvenjulegt sé að 4. árs læknanemi vinni til fyrstu verðlauna.

Hafa alltaf fylgst að í námi

Erla og Sunna gengu í Menntaskólann í Reykjavík en segja þó að þær hafi ekki endilega stefnt á það frá upphafi náms að verða læknar. „Nei, en síðasta árið í MR kom námsefni um mannslíkamann í líffræðinni. Okkur fannst það mjög áhugavert og ákváðum þá báðar að fara í inntökuprófið.“ Og gekk það upp í fyrstu tilraun? „Já,“ svara þær í kór.

En er engin samkeppni á milli þeirra? „Nei,“ svarar Sunna og þá Erla. „Nei, ég myndi frekar segja að það væri hvatning að hafa hvor aðra.“ Sunna samsinnir því og Erla heldur áfram. „Við erum líka alltaf mjög svipaðar. Til dæmis munaði aðeins 0,01 á milli okkar í inntökuprófunum.“

En eru þær búnar að ákveða hvort og þá í hvaða sérnám þær stefna? Erla teygir nei-ið og segir of snemmt að ákveða það. Ekki skurðlækningar? „Kannski,“ segir hún en Sunna segir margt koma til greina.

„Mér finnst svo margt spennandi en ég veit ekki hvað ég vil velja.“ Hún býst þó við að fara beint að grunnnáminu loknu í áframhaldandi nám. Erla einnig. „Já, ég hugsa að ég geri það líka.“ En sjá þær fyrir sér að taka námið hér heima eða úti? „Það fer allt eftir því hvaða sérnám við veljum.“

Ætluðu til Spánar og Ítalíu

Þær systur segja kórónuveirufaraldurinn hafa haft mikil áhrif á námið þeirra. Þær hafi minna farið milli deilda. Áhrifin séu þó mest á sumarið en þær stefndu á að fara í skiptinám til Spánar og Ítalíu, einmitt þar sem faraldurinn hefur verið hvað skæðastur.

„Áætlanir okkar hafa breyst mjög mikið út af kórónuveirunni. Planið var að halda rannsóknunum áfram og fara svo í skiptinám í einn mánuð í sumar. Ég sótti um Ítalíu og Erla ætlaði til Spánar. Tvö löndin sem fóru hvað verst út úr veirunni,“ segir hún. „Við ætlum því að vinna að rannsóknum en einnig vinna á spítalanum.“ Þær verða á bæklunarskurðdeildinni.

„Þessu var aflýst fyrir nokkrum vikum síðan. Við bjuggumst við því,“ segir Erla og Sunna bætir við: „Þess vegna ákváðum við að sækja um störf hér heima í sumar í staðinn.“ Þær vinni rannsóknir undir handleiðslu Tómasar í sumar. „Við ætlum að byrja á nýju verkefni en vitum ekki enn hvert það verður.“

Læra af heimsfaraldri

Systurnar eru nú í prófum. Hvernig gengur? „Bara mjög vel,“ segir Erla og Sunna heldur áfram: „Við vorum að klára verklegt próf áðan.“ Í þetta sinn hafi verklega prófið verið í lyflæknisfræði, föstudaginn 8. maí. „En það var með aðeins breyttu sniði, því það voru engir sjúklingar,“ segir Sunna og þá Erla. „Já, til að minnka smithættu voru ekki sjúklingar. Við lásum um tilfellin á blöðum og mátum þörfina eftir því.“ En bjuggust þær nokkurn tímann við að upplifa heimsfaraldur sem þennan? „Ég hefði aldrei búist við þessu,“ segir Sunna. „Nei, aldrei,“ bætir Erla við.

„Þessar vikur hafa verið mjög lærdómsríkar og afar áhugavert að sjá hvernig spítalinn hefur tekist á við ástandið, sem og sóttvarnalæknir og landið í heild. Við höfum lært heilmikið, þá sérstaklega í viðbrögðum og sóttvörnum. Það hefur verið virkilega þess virði að sjá vinnubrögð spítalans og læra af þeim.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica