05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

COVID-19-göngudeildin: Íslenskt hugvit, - Daði Helgason og Ragnar Freyr Ingvarsson

Göngudeildin sýnir áhrifamátt þess að vinna saman þvert á fagstéttir og hefur að mati læknanna Daða Helgasonar og Ragnars Freys Ingvarssonar afstýrt fjölmörgum innlögnum á spítalann. Afrek í sögu íslenskrar heilbrigðisþjónustu?

„Jú, göngudeildin er afrek,“ segir Daði Helgason, sérfræðilæknir á COVID-19-göngudeildinni, sem sett var upp á örfáum dögum í Birkiborg, húsi á lóð Landspítala Fossvogi. Hún var opnuð þann 24. mars og er því komin reynsla á starfsemina. Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir á deildinni, segir hana afrakstur þess þegar umhyggja og upplýsingatækni mætast.

Ragnar og Daði utan við COVID-19-göngudeildina á Landspítala í Fossvogi. Mynd/Þorkell Þorkelsson

hlusta

„Umhyggja er kjarninn í því sem við gerum og með öflug verkfæri í hendi er hægt að ná ótrúlegum árangri.“ Ragnar Freyr segir starfsemina hafa breyst mikið á um einum mánuði. Hann hefur áður gagnrýnt starfsaðstæður á spítalanum, þá sérstaklega neyðarástandið á bráðamóttökunni.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að þessi faraldur er skelfilegt tjón fyrir samfélagið allt, en inni á spítalanum hefur átt sér stað ótrúleg gróska, alveg frá gólfi til æðstu stjórnenda,“ segir hann. „Það var hlustað. Stjórnendur hlustuðu á fagmenn og stjórnvöld hlustuðu á sérfræðinga. Við það virðast góðir hlutir gerast. Það eru skilaboðin sem við tökum frá þessu verkefni,“ segir hann.

„Hér hafa verið leystar úr læðingi ótrúlegar hugmyndir. Samvinnuverkefni, nýsköpun, rannsóknartækifæri. Það hafa orðið til tengsl á milli fólks sem að öllu jöfnu hefði aldrei starfað saman. Aldrei rætt saman nema kannski í lyftunni á milli hæða,“ segir Ragnar Freyr.

„Nú sjáum við styrkinn í öðru fólki. Maður getur komið með eitthvað til þeirra og það gefið á móti. Það hefur sáð hugmyndum um hvernig við munum vinna saman í næstu verkefnum og komandi áskorunum að faraldri loknum.“

Geðheilsan lykilatriði

Daði segir að í upphafi hafi göngudeildin verið skipulögð af læknum á lyflækningasviði. „En nánast frá byrjum komu sérnámslæknar frá öðrum sviðum að verkefninu, skurðsviði, kvennadeildinni, augndeildinni og geðdeildinni.“ Farsóttarnefnd ýtti fyrstu drögum að hugmyndinni úr vör og hún óx í samvinnu þvert á deildir. Ragnar Freyr segir að strax á fyrstu dögunum hafi starfsmenn geðdeildar stigið fram og boðið þekkingu sína að fyrra bragði.

„Við sáum fyrstu dagana að staðan var ansi dökk,“ segir hann. „Þeir buðu stuðning við þá sem glíma við geðræn vandamál vegna faraldursins.“ Það hafi beint kastljósinu að geðheilsu sjúklinganna. Með því að gefa henni sérstakan gaum hafi innlögnum verið afstýrt.

„Síðan göngudeildin tók til starfa hefur sjúklingum með COVID-19 fækkað drastískt á bráðamóttökunni,“ segi Ragnar Freyr.

Daði segir smitaða áhyggjufulla. „Fólk horfir á fréttirnar og sér hve margir deyja af völdum veirunnar. Sjúklingarnir eru því eðlilega stressaðir,“ segir hann.

„Fyrst vorum við að einblína á líkamleg einkenni og velta fyrir okkur hver þyrfti að koma inn á spítalann. Við heyrðum mjög fljótt að það þyrfti að huga að geðheilsu. Við höfum heyrt hjá fólki hve gott er að heyra í hjúkrunarfræðingi daglega til að halda geðheilsunni þokkalegri.“

Ragnar Freyr segir að einn helsti kostur þessarar göngudeildar sé hve auðvelt er að skala hana upp og niður. „Bæði var hún þanin mjög hratt út og hægt er að draga úr starfsemi hennar eftir þörfum. En að sama skapi er hægt að endurræsa hana aftur ef þurfa þykir,“ segir hann.

Daði bætir við að það væri einnig hægt að gera í breyttri mynd, eftir þörfum og verkefnum. Göngudeildina megi nýta til annarra verka eftir faraldurinn. „Við erum sannfærð um að þegar heildarmyndin er skoðuð, höfum við sparað spítalanum margar innlagnir með því að bjóða upp á þessa þjónustu, og þar með fé.“

Deildin eigi sér ekki erlenda fyrirmynd svo vitað sé. Hún sé einstök. „Ráðherra sagði í viðtali í Kastljósinu að smæð landsins hjálpaði til. En við erum samt með um 1800 sjúklinga. Við höfum sinnt þeim persónulega. Ég veit ekki til þess að önnur þjóð hafi stundað símavöktun á þennan máta,“ segir Ragnar.

Þegar Daði er spurður hvað hafi komið honum mest á óvart svarar hann að það hafi verið hve allt gekk snurðulaust fyrir sig. „Ég hef ekki mikla reynslu af skipulagi og stjórnendahlutverki en á flókinni stofnun eins og Landspítala er ákveðin tregða og skrifræði sem getur tafið málin en núna hefur allt gengið smurt. Þessi samstarfsvilji og jákvæðni hefur komið á óvart.“

Tækifæri til breyttra vinnubragða

Ragnar Freyr nefnir að máttur umhyggjunnar hafi komið sér á óvart. „Umhyggja. Að stíga skrefinu lengra er manni auðvelt, taka eitt aukaskref og veita fólki umhyggju og stuðning.“ Það hafi gert meiri gæfumun en hann hafi áður upplifað.

„Við þurfum að taka umhyggjuna með okkur inn í önnur verkefni. Það að annast um fólk og láta velferð þess skipta sig máli er meðferð í sjálfu sér.“

Ragnar Freyr segir að í þessum faraldri hafi lausnin á vanda spítalans kristallast: að hlusta á sérfræðingana. Það mættu stjórnmálamenn læra af faraldrinum „Ég er að tala um í víðara samhengi. Ef við sem höfum sérmenntað okkur í því að meðhöndla sjúklinga, vinna með öðrum heilbrigðisstarfsmönnum og reka heilbrigðisþjónustu erum spurð, þá virðast hlutirnir fara vel.“

Hefur það ekki verið gert? „Það mætti augljóslega vera meira af því,“ svarar hann.

Þeir telja báðir að faraldurinn auki þekkingu og reynslu þeirra sem að koma. Daði hefur unnið á spítalanum frá kandídatsári 2015. „Reynslan er góð fyrir mig. Sérstaklega að fá tækifæri til að þróa svona verkefni og taka þátt í að skipuleggja. Ég hef lært heilmikið,“ segir hann.

Ragnar segir að sést hafi á þessu verkefni hve samvinnu margra þurfi svo allt gangi upp.

„Rafvirkjar, píparar, smiðir. Tölvunarfræðingar, hjúkrunarfræðingar, sérhæft starfsfólk, læknar, framkvæmdastjórar, stjórnendur. Maður verður orðlaus yfir því að sjá alla þá sem starfa innan spítalans ganga í takt,“ segir hann. Rafræn sjúkraskrá, Heilsugátt, hafi verið einn þeirra þátta sem gaf þeim tækifæri til að vera skrefi á undan.

Daði tekur undir að þau sem standi að Heilsugáttinni á spítalanum hafi sinnt lykilhlutverki. „Við höfum daglega búið til lausnir með þeim. Viðbrögðin hafa verið frábær. Við rekum okkur á eitthvað sem mætti fara betur og lausnin er komin á stuttum tíma,“ segir hann. „Það er margt sem við munum taka frá þessum faraldri. Ýmsar lausnir í skráningu gagna og gagnaúrvinnslu.“

Þeir eru þakklátir fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera með í verkefninu. Ragnar segir einfaldlega róandi að fá að vera partur af lausninni.

„Það hefur veitt mér ró að vita af öllu aflinu sem er hér til að leysa vandann. Ég sef vel, steinsef og mig dreymir vel.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica