05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Hefði illa lifað með því að keyra heilbrigðiskerfið í kaf, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir

Fyrsta kafla kórónuveirustríðsins er lokið. Tekist hefur að ná böndum á smitfaraldrinum hér innanlands og nú mikilvægt að viðhalda árangrinum

MYNDATEXTI: Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á daglegum upplýsingafundi almannavarna. Mynd/gag

„Ég held að það væri erfitt að lifa með því ef við hefðum keyrt heilbrigðiskerfið gjörsamlega í kaf og fengið önnur vandamál upp líka sem tengjast öðrum sjúkdómum og annarri þjónustu innan þess.“ Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á föstudagseftirmiðdegi þegar ljóst er að tekist hefur að koma böndum á kórónuveirufaraldurinn sem veldur COVID-19.

hlusta

„Þess vegna var það stefnan strax í byrjun að reyna að teygja á þessari kúrfu þannig að faraldurinn yrði viðráðanlegur fyrir heilbrigðiskerfið.“ Læknablaðið ræðir við hann um stefnu íslenskra stjórnvalda, samanburð við Svíþjóð og framhaldið. Faraldurinn hefur nú geisað frá janúarmánuði en fyrsta smitið kom fram hér á landi í lok febrúar. Hátt í 1800 hafa smitast og ríflega 1600 batnað. Tíu hafa látist hér á landi.

Stoltur af árangrinum

„Ég er stoltur af þessum árangri, samheldni og vinnu allra sem koma að verkinu. Stoltur af almenningi. Það er fyrst og fremst honum að þakka hve vel hefur gengið.“

Ef einhver þekkti ekki Þórólf fyrir þennan faraldur er afar ólíklegt að sá hinn sami geri það ekki nú. Hann er alls staðar. Hvort sem er í hverjum fréttatíma eða skemmtiþáttum. Hann heldur þétt um strengina í faraldrinum, rétt eins og á gítarnum í Vikunni hjá Gísla Marteini um miðjan aprílmánuð. Vel á sjötta tug blaðamannafunda með almannavörum eru frá. Þríeykið, Alma, Víðir og Þórólfur, hefur verið í eldlínunni.

Þórólfur segir fyrsta kaflanum í þessum faraldri lokið. „Nú tekur við annar kafli sem er að viðhalda árangrinum, aflétta álögunum sem hafa verið á samfélaginu og tryggja að faraldurinn blossi ekki upp aftur.“

Þreyttur? „Nei, ekkert sérstaklega. Nei, nei. Mismunandi, en ég tilbúinn að snúa mér að öðru. Þetta hefur tekið mikinn tíma og annað sem þarf að sinna setið á hakanum.“

Erfitt að stilla aðgerðir af

Tugir tonna af hlífðarfatnaði, fjölmargar öndunarvélar sem jafnvel enn liggja í pakkningum. Hefur þjóðin verið varin umfram þörf? „Nei, það er vandratað þetta einstigi á milli þess að gera mikið og gera of lítið.“ Hann bendir á hve löndin í kringum okkur hafa farið misjafnlega að gagnvart faraldrinum, Svíþjóð sérstaklega.

„Dánartíðnin af völdum COVID-19 er um 7 sinnum hærri í Svíþjóð miðað við höfðatölu en hér,“ segir hann. Með sambærilega dánartíðni hefðu andlátin hér verið um 70 af völdum COVID. „Það hefði verið gríðarlegt högg fyrir heilbrigðiskerfið. Yfirfyllt gjörgæsludeildirnar og haft mikil áhrif á aðra sjúklingahópa.“

Spurður um viðbrögð sænska sóttvarnalæknisins, Anders Tegnell, sem verji aðgerðir sínar segir Þórólfur hann ekki geta lagt dóm á störf sænska starfsbróðursins.

„En eftir því sem hann hefur sagt eru þeir að reyna að ná hjarðónæmi og telja að á endanum verði allir í sömu sporum, hvort sem það gerist hratt eða hægt. Það má vel vera að við eigum eftir að fá meiri veikindi seinna en það er mjög mikilvægt að það gerist það hægt að heilbrigðiskerfið ráði við það, þótt það gerist á lengri tíma,“ segir hann. Með aðferðinni hér kaupum við tíma.

Mikilvægt að kaupa tíma

„Hugsanlega kemur meðferð, eitthvað sem getur hjálpað.“ Svíar voru hugsanlega ekki verið nægilega vel undirbúnir. Ekki var nægilega mikið til af hlífðarfatnaði. „Heilbrigðisstarfsmenn kvarta mikið yfir því.“ Heilbrigðisstarfsfólk í Svíþjóð hafi veikst og dáið.

„Þannig að mér finnst þeir full brattir í skýringum sínum,“ segir Þórólfur. Óánægja sé mikil í Svíþjóð. „Án þess að ég geti lagt dóm á það að öðru leyti.“

En er aðferðafræði þeirra gamaldags? Ekki hugsað um hraða í nútímasamfélagi og styttri tíma að lausn en var í fyrri faröldrum.

„Ég tel að það sé margt sem við náum að vinna okkur inn með því að gera þetta tiltölulega hægt og láta faraldurinn ekki ríða yfir af miklum þunga. Það er mikilsvert að bíða og fá tíma til að sjá hvort við fáum aðrar lausnir sem hjálpa. Það verður erfitt fyrir Svía, og þær þjóðir sem hafa lent illa í þessu, ef það kæmi bóluefni og þeir kannski búnir að fórna svona miklu að réttlæta af hverju þeir gerðu þetta ekki öðruvísi.“ Hann nefnir suður-evrópskar þjóðir, Breta og Bandaríkjamenn.

„Ég tel að lykillinn að árangri sé þessi aggressífa nálgun að byrja að greina snemma, beita einangrun og smitrakningu og sóttkví.“ Aðferðafræðin við smitrakninguna sé einstök hér á landi.

Stefnan hér virkað vel

„Á þann máta hefur okkur tekist að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Tæplega 60% af þeim sem hafa verið að greinast hafa verið í sóttkví þegar þeir greindust. Þannig hefur okkur tekist að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Ég tel að þessi nálgun hafi virkað mjög vel,“ segir hann. „Þetta er ekki búið. Við munum áfram beita þessari sömu nálgun við smitrakningu og sóttkví.“

Núna er föstudagseftirmiðdagur. Mikil umferð. Hann óttast ekki að trúverðugleikinn fjari út haldi þau of fast í taumana þegar smitin séu svona fá, en viðurkennir þó ótta við að missa árangurinn út úr höndunum. Einstaklingsbundin hegðun ráði ferðinni. Hreinlæti, handþvottur og virða nándarmörk. Vera ekki í mannmergð og vernda viðkvæma hópa sem fari verst út úr sýkingunni.

„Ef við getum passað þetta getum við slakað á öðrum hlutum og fólk getur haldið áfram að njóta lífsins, kannski með aðeins öðru hugarfari en það gerði áður,“ segir Þórólfur.

En hvað með að setja grímur á andlit fólks? „Það gefst ekki vel. Það virkar ekki vel. Það getur gefið falskt öryggi gangi fólk með grímur til að verja sig.“ Skipta þurfi um grímur á nokkurra klukkustunda fresti. Fólk passi sig ekki eins vel.

Engin venjuleg veirupest

„Smitið berst aðallega með höndunum en ekki með loftbornum ögnum nema í mikilli nánd. Þannig að margar rannsóknir sýna að það gefur falskt öryggi.“ Það geti þó verið gott fyrir fólk sem sé með einkenni um COVID-19. Þórólfur hefur ekki sjálfur verið mikið í kringum COVID-19 sjúklinga en hann heyri að fólk sé lengi að ná sér. Veikindin dragist á langinn.

„Þetta er meira en venjuleg veirupest, kvefpest. Ég tala nú ekki um þá sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús eða þá sem hafa lagst á gjörgæslu. Þeir jafna sig hægt.“

Þórólfur telur að COVID-19 göngudeildin hafi skipt sköpum fyrir þá sem hafa greinst. „Þeir fengu góða þjónustu.“ Þjónustan við COVID-sjúklinga hefði vart verið önnur með nýju sjúkrahúsi. „En auðvitað hefði það verið þægilegra og raskað minna þjónustu við aðra sjúklingahópa.“

Einfaldara á nýju sjúkrahúsi

Þórólfur segir þörf á nýju sjúkrahúsi og betri aðstöðu. „Þá þurfa menn ekki að kollvarpa þeirri starfsemi sem er fyrir til að geta sinnt svona löguðu.“ Hins vegar sýni það þrótt og gæði þjónustunnar hvernig brugðist hafi verið við faraldrinum.

Þórólfur segir sóttvarnalækna hafa undirbúið sig lengi fyrir heimsfaraldur sem þennan og vinni samkvæmt viðbragðsáætlunum. Bæði heilbrigðiskerfið og samfélagið allt hafi staðist prófið. En hvernig verður framhaldið?

„Við þurfum áfram að skima og beita þeim úrræðum sem við höfum. Við þurfum að aflétta hægt og bítandi þessum samkomutakmörkunum sem hafa verið settar, þannig að hægt sé að gefa almenningi von um betri tíð. Við þurfum líka að huga vel að því að fleiri smit komi ekki inn erlendis frá,“ segir Þórólfur.

„Við þurfum að huga að faraldrinum frá öllum hliðum og ekki hleypa þessu úr lagi á næstu mánuðum. Það er of snemmt að segja til um hvað tekur við, hvernig haustið verður eða næsta ár. Við tökum nokkra daga, vikur, í einu.“

Er þá veiran komin til að vera? „Ég veit það ekki. Ég held að það viti það enginn.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica