05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Verkefnalitlir skurðlæknar í Malmö þjálfaðir upp í að svæfa

Raddir íslenskra lækna erlendis

 

Þetta eru undarlegir tímar bæði á spítalanum og í samfélaginu. Síðustu vikur hafa farið í skipulagningu og undirbúning fyrir hugsanlega eða líklega holskeflu af Covid-veikum sjúklingum. Suður-Svíþjóð er enn í viðbragðsstöðu en samtímis virðist Stokkhólmur nú þegar hafa náð toppi í faraldrinum.    

Skurðlæknar hafa hér flestir lítið að gera þessa dagana. Sumir hafa fengið þjálfun í svæfingum og vinna með Covid-sjúklinga. Í vinnunni minni eru allt of margir læknar þar sem móttökum og skurðstofum hefur verið lokað. Þetta er á allan hátt óvenjuleg staða. Margir eiga erfitt með athafnaleysið. Sjálfri tókst mér að kvefast illa í byrjun faraldursins og yfirmaður minn virtist bara glaður að hafa einum færri að sjá um, bað mig um að vera ekkert að flýta mér til baka. Engin Covid-sýnataka var eða er í boði, þess vegna eru allir sendir heim með minnstu einkenni. Þegar ég mætti loksins aftur eftir fjórar vikur heima (Covid? Hver veit!) mætti mér dúnalogn. Síma- og tölvulausnir, skjáfundir fylla nú hluta af deginum, aðeins fáeina sjúklinga þarf að hitta. Þegar allt um þrýtur þá hugar maður að pottablómum á kaffistofunni eða spáir í málningavinnu á skrifstofunni, fer út í vorið og heim og krækir kannski í prjónana. 

Ég vinn í tveimur teymum, bráðateymið er mest sjálfu sér líkt. En teymið sem sinnir kviðslits- og kviðsjáraðgerðum er gjörbreytt. Nánast engar móttökur standa eftir og biðlistar í aðgerðir lengjast ógurlega. Það eru fá teymi sem fá að halda skurðstofum opnum, en sem betur fer er krabbameinsaðgerðum forgangsraðað. 

Það er farið að bera á fækkun tilvísana til krabbameinsskurðlækna, sem er áhyggjuefni. Augljóslega veigrar fólk sér við að leita til læknis meðan þetta ástand varir. Sænskir hjartalæknar hafa gengið svo langt að beina þeim tilmælum til almennings að allir verði að koma á spítala með bráða brjóstverki. 

Folkhälsomyndigheten með Anders Tegnell í forystu á heiður skilinn fyrir hógværa og skynsama stefnu sem ætlar að fleyta okkur í gegnum faraldurinn þrátt fyrir slæman undirbúning. Það er skortur á ýmsu, svo sem starfsfólki, gjörgæsluplássum, varnarbúnaði, sýnatökuefni, lyfjum, eftir langvarandi fyrirhyggjuleysi og slælega stjórnun heilbrigðiskerfisins. Sumt er vandamál um allan heim, í öðru er um að kenna sofandahætti á heimavelli. 

Á meðan allt er í biðstöðu safnast verk-efnin upp. Þegar starfsemin fer í gang aftur verðum við jafn fá til að vinna verkin. Vonandi kemur þó eitthvað gott út úr þessum faraldri. Menn verða að skilja að það þarf að hafa borð fyrir báru, kerfið þarf að ráða við álagstoppa. Svíþjóð þarf að endurskoða atvinnuumhverfi og atvinnuskilyrði í heilbrigðiskerfinu til að halda starfsfólki og til að það njóti sín. 

Við höfum treyst því að vörur berist eftir hendinni og að þær komi hvaðanæva að úr heiminum. En getum við treyst því í framtíðinni, eftir að sjá landamæri lokast yfir nótt og vörusendingar stöðvaðar? Ég held ekki. 

Við höfum gert áætlanir og mátt reikna með að þær gangi upp. Covid hefur á örskömmum tíma breytt þessum aðstæðum og jafnvel fengið okkur til að framkvæma hluti sem áður töldust ómögulegir. Við höfum líka fengið tækifæri til að staldra við og hugsa, meðal annars um það hvernig við lifum, hvernig við forgangsröðum, hvað er mikilvægt. 

Þegar upp er staðið þá er það nú sem fyrr heilsan og fólkið okkar sem er mest um vert. Vonandi munum við það og hugum að lífsstíl og jarðarkúlunni svo að þessi lífsgildi eigi sér framtíð! 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica