05. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

Börnin okkar. Steingerður Sigurbjörnsdóttir

Steingerður Sigurbjörnsdóttir‚ barnalæknir og barna- og unglingageðlæknir á SÓL sálfræði- og læknisþjónusta

doi: 10.17992/lbl.2020.05.578

Á síðustu vikum höfum við staðið frammi fyrir hamförum á heimsvísu. Fréttir af heimsfarsótt með tilheyrandi hörmungum, samfélagslegum áhrifum og óvissu hafa dunið á fjölskyldum. Á sama tíma hefur daglegt líf barna umturnast, skólasókn verið takmörkuð, hömlur verið á félagslegri umgengni og skipulagt íþrótta- og tómstundastarf legið niðri. Skjól hjá foreldrum er jafnvel ótryggt vegna álagsþátta eins og ótryggrar atvinnu, fjárhagsvanda, álags og streitu. Griðastaðir hjá afa og ömmu, frænku og frænda, kennara og þjálfara eru jafnframt óaðgengilegir. Fréttir af auknu heimilisofbeldi og fjölgun barnaverndartilkynninga vegna barna í yfirvofandi hættu bera vitni um að skapast hefur ástand í samfélaginu sem ógnar velferð barna.

Börn erfa frá foreldrum sínum uppskrift að lífinu með bæði áhættu- og verndarþáttum. Þau eru háð foreldrum/umönnunaraðilum og samfélaginu um grundvallarþætti eins og næringu, öryggi, vernd, umönnun, uppeldi, menntun og heilbrigðisþjónustu. Þar vegur hlutverk foreldris/umönnunaraðila þyngst. Sé vel hlúð að börnum og þörfum þeirra á unga aldri mætt, geta þau sýnt af sér ótrúlega seiglu við krefjandi aðstæður.

Ef forsendur foreldra/umönnunaraðila til að sinna hlutverki sínu vel eru hins vegar skertar, til dæmis vegna erfiðleika á borð við veikindi, óreglu, áföll, ofbeldi, fjárhagsvanda eða slakar félagslegar aðstæður, er staða barna önnur. Við slíkar aðstæður eykst hætta á streitu, aðlögunarerfiðleikum og geðrænum vanda hjá börnum, sérstaklega ef barn er í -ofanálag erfðafræðilega í aukinni hættu. Kreppa í lífi fjölskyldu eykur ennfremur hættu á að börn verði fyrir illri meðferð.

Vanlíðan hjá börnum kemur gjarnan fram í breytingum á hegðun og líðan, til dæmis minna þoli gegn mótlæti, erfiðleikum við tilfinningastjórnun, hræðslu, kvíða, pirringi, áhugaleysi eða depurð. Einnig eru líkamleg einkenni algeng, til dæmis magaverkur eða höfuðverkur, sem og svefntruflanir, breytingar á matarlyst og versnandi námsárangur. Ekki er alltaf augljóst hvers eðlis einkenni eru og þau eru jafnvel skrifuð á óþekkt barns eða vanhæfni foreldra. Hafa þarf í huga að börn tjá sig oft ekki beint um slæma líðan sína og börn í erfiðum aðstæðum eru oft sérstaklega dugleg við eigin umsjá, taka mikla ábyrgð á eigin námi og daglegu lífi. Þegar betur er að gáð og málin skoðuð í samhengi við aðstæður barna og fjölskyldna þá skýrist oft myndin. Hjá börnum sem búa við krefjandi aðstæður til lengri tíma getur verið ennþá erfiðara að koma auga á tengsl vanlíðunar og streitu. Einkennin byggjast upp á löngum tíma og breytingar á líðan haldast ekki alltaf í hendur við tímasetningu atburða eða aðstæðna sem eiga þátt í vandanum. Börn geta sýnt einkenni síðar, jafnvel löngu síðar. Það er því auðvelt í annríku starfi læknis að yfirsjást einkenni vanlíðunar og streitu hjá börnum.

Læknar þurfa að gefa börnum tíma, tala við þau ein þegar við á, taka mið af þroskastöðu og hlusta vel. Höfum það hugfast að á bak við veikt foreldri getur verið barn í erfiðri stöðu og ennfremur að til að geta hjálpað barni þarf að hjálpa foreldrum. Þetta verður ekki aðskilið.

Yfirstandandi samfélagsleg vá og afleiðingar hennar geta leitt af sér bylgju álagstengds vanda barna og fullorðinna sem mun reyna á velferðarkerfið allt og ekki síst heilbrigðisþjónustuna. Við þær aðstæður þarf að tryggja nægjanleg félagsleg úrræði fyrir fjölskyldur og aðgengi að gagnreyndri meðferð við geðrænum vanda fyrir börn og fjölskyldur, óháð búsetu, fjárhag og félagslegri stöðu. Útrýma þarf öllu sem kallast getur biðlisti þegar börn og þeirra velferð á í hlut.

Til framtíðar mætti hugsa sér samhæfða aðgerðaáætlun í málefnum barna sem unnið væri eftir á tímum samfélagslegrar ógnar. Þetta væri nokkurs konar almannavarnaáætlun fyrir börn sem byggði á þekkingu á málefnum barna og fjölskyldna, þroskaferli og heilsufari barna, félagslegum aðstæðum, áhættuþáttum og verndandi þáttum.

Þekking er grunnurinn að bættri þjónustu við börn til lengri og skemmri tíma og því er nauðsynlegt að stórefla rannsóknir á málefnum tengdum velferð barna hér á landi, ekki síst geðheilsu og þjónustuþörf.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica