04. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá HÍ

Þórir Einarsson Long varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 20. desember 2019. Ritgerðin heitir: Bráður nýrnaskaði – Nýgengi, áhættuþættir, endurheimt nýrnastarfsemi og lifun.

                                   

Andmælendur voru Kenneth Christopher, lektor við Brigham and Women´s Hospital, Harvard-háskóla, og Gunnar Tómasson, lektor við læknadeild Háskóla Íslands. Umsjónarkennari var Gísli H. Sigurðsson prófessor og leiðbeinandi Ólafur Skúli Indriðason sérfræðingur. Meðleiðbeinandi var Martin Ingi Sigurðsson prófessor. Aðrir í doktorsnefnd voru Runólfur Pálsson prófessor og Tómas Guðbjartsson prófessor.

Ágrip af rannsókn

Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengt vandamál bæði innan og utan sjúkrahúsa og tengist hærri tíðni fylgikvilla og dánartíðni. Langvinnur nýrnasjúkdómur (LNS) er áhættuþáttur fyrir BNS sem jafnframt er áhættuþáttur fyrir þróun á LNS og versnun á sjúkdómnum. Endurheimt fyrri nýrnastarfsemi eftir BNS er talin sjálfstæður áhrifaþáttur fyrir horfur sjúklingsins en ekki hefur náðst samstaða um skilgreiningu á endurheimt fyrri nýrnastarfsemi eftir BNS. Í dag er væg hækkun á kreatíníni í sermi (SKr) um 26,5 µmól/L innan 48 klukkustunda hluti af greiningarskilmerkjum BNS en hins vegar er lítið vitað um einkenni og afdrif þess hóps sem greinist með BNS einungis vegna þessa hluta skilmerkjanna.

Verkefnið undirstrikar að BNS er algengt vandamál, bæði í almennu sjúkrahúsþýði og í kjölfar skurðaðgerða. Það eru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir BNS í kjölfar kviðarholsaðgerða sem auðveldlega er hægt að meta fyrir aðgerð og nýta við áhættumat sjúklinga. BNS tengist verri skammtíma- og langtímalifun og þróun á LNS og versnun á undirliggjandi LNS. Að ná ekki endurheimt á fyrri nýrnastarfsemi er tengt verri eins árs lifun, þróun og versnun á LNS.

Doktorsefnið

Þórir Einarsson Long lauk bakkalárgráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og embættisprófi í læknisfræði frá sama skóla þremur árum síðar. Að loknu kandídatsári hóf hann sérnám í almennum lyflækningum við Landspítala þar sem hann starfar nú. Þórir hefur stundað rannsóknavinnu samhliða námi og starfi sem læknir frá 2012 og hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar, var meðal annars valinn ungur vísindamaður Landspítala 2019.

Hvað segir doktorsefnið?

Hvað ertu að lesa og/eða horfa á?

Ég er að lesa Tíminn og vatnið, bókina hans Andra Snæs þessa dagana. Svo fylgist ég með þáttunum Ísalög á RÚV. Þemað hjá mér er greinilega hlýnun jarðar.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Erfitt að segja því það sveiflast mikið yfir tíma. Myndi segja bara 7 en væri eflaust 9-10 án góðra leiðbeinenda ímynda ég mér.

Hvað er framundan í starfi/námi?

Ég starfa 50% sem almennur læknir á göngudeild og ráðgjöf nýrnalækninga Landspítala og svo er ég 50% í rannsóknum hjá verkefninu Blóðskimun til Bjargar með áherslu á nýrnahluta verkefnisins. Planið er að verða nýrnalæknir sem stundar rannsóknir í framtíðinni.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem forstjóri Landspítala?

Byrja á að ráða mér húshjálp en reyna síðan að finna mögulegar leiðir til að hækka laun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.

Hvenær fórstu síðast til læknis?

Held að það hafi verið 2011.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica