04. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Breytt skipulag krabbameinsleitar – Stöðumat á tímum nýrra áskoranna

Í ársbyrjun 2014 voru legháls- og brjósta-krabbameinsleitir Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands (KÍ) aðskildar og eftirfarandi breytingar gerðar á skipulagi leghálskrabbameinsleitar: (a) boðunaraldri var breytt úr 20-69 ára aldri í 23-65 ára aldur, (b) millibili boðana var breytt úr tveggja til fjögurra ára millibili í fast þriggja ára millibil og (c) taka frumustroka var færð frá læknum til ljósmæðra.1 Auk þess var fræðilegu uppgjöri leitarinnar hætt.2 Með hliðsjón af nýlegri ákvörðun ráðherra um flutning framkvæmdar leitarstarfsins frá KÍ til Landspítala og heilsugæslunnar telja greinarhöfundar tímabært að fylgja eftir fyrri skrifum um ofangreindar breytingar.1,3,4

Aðskilnaður legháls- og brjóstakrabbameinsleitar

Það var hugsun mammografíunefndar Ólafs Ólafssonar landlæknis,5 sem stóð að innleiðingu brjóstakrabbameinsleitar með röntgenmyndatöku, að samkeyrsla legháls- og brjóstakrabbameinsleitar væri til hagræðis fyrir konur, sem þá gætu mætt samtímis til beggja skoðana ef þeim svo hugnaðist. Það var hugsun þessara frumkvöðla að leitin færi fram í fullri sátt við heilsugæslulækna og sérfræðilækna.

Þrátt fyrir gagnrýni á gagnsemi brjóstakrabbameinsleitar, sem hafði áhrif á mætingu,2 gekk samkeyrslan með ágætum þegar frá byrjun, í nóvember 1987. Ákvörðun um aðskilnað leitarþáttanna í árslok 2013 kom því á óvart. Þetta stuðlaði hins vegar að fyrirliggjandi ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um að flytja framkvæmd leitarinnar frá KÍ eins og greint hefur verið frá.6

Mætingartíðni

Upplýsingar um mætingu til krabbameinsleitar (tafla I) eru sóttar í ársskýrslur KÍ 2017-2018.7 Þar er að finna mætingartölur til leghálskrabbameinsleitar sem taka mið af 3,5-árs mætingartíðni í aldurshópnum 23-65 ára allt frá árinu 2007. Á tímabilinu 2007-2013 mældist 3,5-árs mætingartíðnin 72% en lækkaði í 69% árin 2014-2018.

                                    

Mæting til brjóstakrabbameinsleitar tók áfram mið af tveggja ára mætingu í aldurshópnum 40-69 ára og var 60% á tímabilinu 2007-2013 en lækkaði í 57% árin 2014-2018.7 Mætingin dalaði því um 3% milli þessara tímabila sem gæti bent til að breytingar á skipulagi leitarinnar hafi ekki verið konum til hagræðis.

Nýgengi og dánartíðni

Upplýsingar um heimsaldursstaðlaðar 5-ára hlaupandi meðaltalstölur fyrir legháls- og brjóstakrabbamein eru sóttar til Krabbameinsskrár (tafla II).

                                    

Brjóstakrabbameinsleitin hefur aðallega áhrif til greiningar sjúkdómsins á byrjunarstigi og í minna mæli til greiningar setkrabbameins (DCIS). Eftir upphaf leitar 1987 er árangurinn því aðallega metinn út frá breytingum á dánartíðni frekar en breytingum á nýgengi sjúkdómsins. Tölur Krabbameinsskrár sýna að dánartíðnin hefur lækkað marktækt um 45%, úr 26,4/100.000 (1991-1995) í 14,5/100.000 (2005-2013).8 Á tímabilinu 2014-2018 var dánartíðnin að meðaltali 15,1/100.000.

Leghálskrabbameinsleitin hefur aðallega áhrif til greiningar sjúkdómsins á forstigi. Eftir upphaf leitar 1964 er árangur leitarinnar því metinn bæði út frá breytingum á nýgengi og dánartíðni. Vegna greiningar sjúkdómsins á forstigi hefur nýgengið fallið marktækt um 69%, úr 27,3/100.000 á tímabilinu 1964-1968 í 8,6/100.000 á árunum 2014-2018.

Dánartíðnin hefur fallið marktækt um 88%, úr 9,6/100.000 á tímabilinu 1967-1971 í 1,2 /100.000 á árabilinu 2000-2013.9 Árin 2014-2018 var dánartíðnin 1,9/100.000 miðað við 0,7/100.000 á árabilinu 2004-2008 (p=0,05).

Aldursmörk leghálskrabbameinsleitar

Aldursmörk leitar taka mið af nýgengi og dánartíðni sjúkdómsins auk tíðni alvarlegra forstigsbreytinga við þessi aldursmörk. Samkvæmt upplýsingum Krabbameinsskrár greindust 45 konur á aldrinum 20-29 ára með leghálskrabbamein á tímabilinu 1999-2018 og þar af 10 konur 20-24 ára. Af þessum 10 konum greindust 5 á tímabilinu 2014-2018. Fimm konur 20-29 ára dóu úr leghálskrabbameini á tímabilinu 1999-2018 og þar af voru tvær á aldrinum 20-24 ára. Önnur þeirra lést á tímabilinu 2014-2018.

Hvað efri aldursmörkin varðar greindust 43 konur í aldurshópnum 65 ára og eldri á 20 ára tímabilinu 1999-2018 sem er 12% (43/356) allra þeirra kvenna sem greindust með leghálskrabbamein á þessum tíma. Á sama tímabili dóu 38 konur á þessum aldri af völdum sjúkdómsins en það er helmingur (38/76) allra þeirra sem dóu af völdum leghálskrabbameins á tímabilinu.

Þessar niðurstöður benda til að breytingar á aldursmörkum leitar í ársbyrjun 2014 hafi verið vanhugsaðar. Hvað neðri aldursmörkin varðar er þó ljóst að almenn HPV-bólusetning 12 ára stúlkna, sem hófst 2012, mun með tímanum fækka leghálskrabbameinum meðal yngri kvenna. Hafa þarf þó í huga að bóluefnið Cervarix® (virkt gegn HPV-stofnum 16/18), sem notað er hér á landi, hefur mun minni virkni en Gardasil9® (virkt gegn HPV- stofnum 16/18/31/33/45/52/58 auk 6/11) og því löngu tímabært að skipta um bóluefni eins og áður hefur komið fram.10

Ársskýrslugerð leitarsviðs

Síðasta fræðilega úttektin á árangri leitarinnar birtist í Skýrslu Leitarstöðvar fyrir starfsárið 2012.2 Skyndiákvörðun stjórnenda leitarsviðs um að hætta slíkri úttekt var óvænt og skapaði erfiðleika við endanlega úrvinnslu þessarar greinar, þar sem upplýsingar eru ekki lengur aðgengilegar varðandi leitarsögu, stigaskiptingu og vefjagerð meinsemda hjá þeim konum sem hafa greinst með eða dáið af völdum leghálskrabbameins. Eftir tilkomu HPV-greiningar hér á landi ættu slíkar upplýsingar einnig að vera sjálfgefinn og aðgengilegur hluti árlegs uppgjörs svo unnt sé að meta áhrif HPV-bólusetningar til framtíðar litið. Það vekur því furðu ef ráðuneytið og landlæknir, sem eru eftirlitsaðilar leitarinnar, hafa samþykkt slíka stefnubreytingu.

Niðurstaða

Af ofangreindu má álykta að: (a) breytt skipulag hefur ekki bætt mætingu kvenna til leitar; (b) breytt aldursmörk leghálskrabbameinsleitar teljast vanhugsuð; (c) hækkandi dánartíðni leghálskrabbameins er áhyggjuefni og (d) breytingar á úrvinnslu gagna leitarinnar eftir 2012 torvelda eðlilega upplýsingagjöf um afrakstur leitarstarfsins.

Þessar niðurstöður þurfa ekki að koma á óvart þar sem breytingarnar voru á sínum tíma gerðar til samræmingar við leitarkerfi í sumum nágrannalöndum,3 fremur en að miða við niðurstöður rannsókna á efniviði leitarinnar, sem bentu til að víðari aldursmörk ættu við hér á landi.

Þó mæting í báða leitarþættina hafi með breyttum tímum orðið minni en æskilegt var er árangurinn ótvíræður8,9  og hefur leitin því öðlast sess sem jákvæður þáttur til verndar heilsu kvenna í landinu. Til fróðleiks má hér vitna til ummæla Ólafs Ólafssonar fyrrverandi landlæknis 1984 um árangur leghálskrabbameinsleitar: „Nú vilja allir Lilju kveðið hafa“.11

Vonandi munu þær grundvallarbreytingar sem heilbrigðisyfirvöld hafa nú þegar tilkynnt á framkvæmd leitarinnar efla mætingu, en það mun þó byggjast á ákvörðunum um framtíðar stjórnskipulag nýrrar Stjórnstöðvar sem ber ábyrgð á boðunar-, eftirlits- og úrvinnsluhlutverki leitarinnar frá næstu áramótum.12

Heimildir

1. Sigurdsson K, Geirsson RT. Breytt skipulag leghálskrabbameinsleitar. Læknablaðið 2014; 100: 112-3.
https://doi.org/10.17992/lbl.2014.01.524

PMid:24394792

 
2. Sigurðsson K, Oddsson K. Skýrsla Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins fyrir starfsárið 2012. Krabbameinsfélagið. krabb.is/media/leitarstodin/2012-Skyrsla-Leitarstodvar-Krabbameinsfelagsins-106-bls.pdf - mars 2020.
https://doi.org/10.17992/lbl.2012.04.424

PMid:22460432

 
3. Oddsson K. Er meira betra? Um breytt skipulag leghálskrabbameinsleitar. Læknablaðið 2014; 100: 184-5.
 
4. Sigurðsson K. Skipulag og framkvæmd legháls- og brjóstakrabbameinsleitar. Morgunblaðið 2018; 30.04: 17.
 
5. Um leit að brjóstakrabbameini. Hjúkrun 1983; 3-4: 28.
 
6. Sigurðsson K. Í minningu Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Morgunblaðið 2020; 29.02: 30.
 
7. Ársskýrslur Krabbameinsfélagsins 2017-2018. krabb.is/starfsemi/um-felagid/arsskyrslur/ - mars 2020.
 
8. Sigurdsson K, Olafsdóttir EJ. Population-based service mammography screening: the Icelandic experience. Breast Cancer (Dove Med Press) 2013; 5: 17-25.
https://doi.org/10.2147/BCTT.S44671

PMid:24648754 PMCid:PMC3929328

 
9. Sigurdsson K. Cervical cancer: cytological cervical screening in Iceland and implications of HPV vaccines. Cytopathology 2010; 21: 213-22.
https://doi.org/10.1111/j.1365-2303.2010.00783.x

PMid:20646020

 
10. Sigurðsson K. Samspil HPV-bólusetningar og leghálskrabbameinsleitar. Morgunblaðið 2018; 13.09: 46.
 
11. Ólafsson Ó. Með röntgenmyndum má lækka dánartíðni úr brjóstakrabbameini um allt að 70%. Morgunblaðið 1984; 20.12: 28.
 
12. Einarsdóttir AS. Brjóstaskimunin stærsta vandamálið, - yfirlæknir Leitarstöðvarinnar um fyrirhugaðan flutning. Læknablaðið 2020; 106: 115.
 
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica