04. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Hnútar í lungum og eftirfylgd þeirra

Leiðbeiningar frá Fleischner Society

Hnútar eru fyrirferðaraukningar í vefjum líkamans. Í lungnavef eru þeir skilgreindir sem litlir, aðgreinanlegir vefjamassar sem eru ýmist eðlileg eða óvænt fyrirferð. Þeir eru ýmist kallaðir hnúðar eða hnútar á íslensku, nodule á ensku og nodus á latínu.

Með vaxandi fjölda tölvusneiðmynda af brjóstholi er hjágreining slíkra hnúta orðin æ algengari. Hluti þeirra getur verið krabbamein sem geta verið upprunnin í lungum eða meinvörp frá öðrum líffærum.

Vegna þessa hafa verið gefnar út klínískar leiðbeiningar á vegum Fleichner Society sem eru alþjóðleg samtök sem vinna leiðbeiningar um málefni sem snúa að myndgreiningu.1,2 Leiðbeiningarnar eru fyrir hnúta sem greinast óvænt. Þær eiga ekki við einstaklinga sem eru yngri en 35 ára, eru ónæmisbældir eða eru með krabbamein.

                  

Hnútar í lungnavef geta verið þéttir eða grisjóttir og eru mismunandi leiðbeiningar fyrir þessar gerðir. Taka þarf tillit til áhættuþátta krabbameina við mat á hnútum. Þeir helstu eru stærð hnúta, því stærri því meiri áhætta, útlit (óreglulegar brúnir), staðsetning (algengari í efri hlutum lungna), fjöldi (áhætta eykst frá einum upp í fjóra hnúta en lækkar eftir það), og reykingar. Séu reykingar meiri en 30 pakkaár og innan síðustu 15 ára eykur það enn áhættuna. Hnútar sem vaxa hratt eða sjást samfara lungnaþembu og/eða bandvef í lungum eru líklegri til að vera krabbamein. Hnútar sem liggja við fleiðru eða glufur (fissures) lungnanna eru oft eitlastöðvar í lungum.

Nýlega hafa rúmmálsmælingar hnúta komið að nokkru í staðinn fyrir lengdarmælingar á þeim.2

Hér til hliðar eru töflur sem hjálpa læknum að ákveða eftirfylgni hnúta útfrá stærð, gerð og fjölda þeirra ásamt áhættuþáttum.1

Heimildir

1. MacMahon H, Naidich DP, Goo JM, Lee KS, Leung ANC, Mayo JR, et al. Guidelines for Management of Incidental Pulmonary Nodules Detected on CT Images: From the Fleischner Society 2017. Radiology 2017; 284: 228-43.

PMid:28240562

 
2. Bankier AA, MacMahon H, Goo JM, Rubin GD, Schaefer-Prokop CM, Naidich DP. Recommendations for Measuring Pulmonary Nodules at CT: A Statement from the Fleischner Society. Radiology 2017; 285: 584-600.
https://doi.org/10.1148/radiol.2017162894

PMid:28650738



Þetta vefsvæði byggir á Eplica