04. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

Í auga stormsins. Margrét Ólafía Tómasdóttir

Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir við heilsugæsluna Efstaleiti og lektor í heimilislækningum við læknadeild HÍ‚ Margrét situr í ritsjórn Læknablaðsins

doi: 10.17992/lbl.2020.04.574

Þegar þessi grein er skrifuð, 22. mars 2020, eru liðnir 23 dagar frá fyrsta greinda COVID-19-smitinu hér á landi. Rétt rúmar þrjár vikur. Þegar ég hugsa til baka finnst mér það næstum ótrúlegt, það virðist svo miklu lengra. Á þessum stutta tíma hefur orðið gjörbreyting á öllu umhverfi og fyrirkomulagi vinnu minnar sem heimilislæknir.

Sjálfsagt hafa orðið miklar breytingar hjá okkur öllum en þar sem heimilislæknar, sem og heilsugæslan í heild sinni, er framvarðasveit heilbrigðiskerfisins skipti máli að bregðast við hratt, vel og fumlaust. Við ógn sem þessa erum við fyrstir inn og síðastir út. Við stöndum í auga stormsins. Viðbrögð við almannavá sem þessari eru einn af kjarnaþáttum sérgreinar okkar og byggir stolt stéttarinnar á því að standa þétt saman, bregðast hratt við og sinna verkinu sem best verður á kosið.

Þannig hefur heilsugæslan tekið hröðum breytingum undanfarnar vikur. Strax í upphafi vikunnar eftir fyrsta smit, 2. mars, tók heilsugæslan upp vitjanaþjónustu vegna Covid-einkenna á dagvinnutíma. Þann 3. mars, fjórum dögum eftir fyrsta smit, hóf heilsugæslan sýnatökur fyrir utan allar heilsugæslustöðvar þar sem sýni úr fólki í áhættuhópi var tekið gegnum bílgluggann. Sama dag hafði Læknavaktin tekið í notkun sérútbúinn bíl fyrir Covid-sýnatökur til viðbótar við venjulegan vaktbíl Læknavaktarinnar.

Viku seinna var öllum skjólstæðingum sem áttu bókaðan tíma boðið að fá símaviðtal í stað komu á stofu til að draga úr smithættu inni á heilsugæslustöðvum þar sem stór hluti skjólstæðinga eru viðkvæmir fyrir. Ritarar hafa þannig hringt í hvern einasta bókaðan skjólstæðing og boðið þeim að breyta tímanum. Vaktþjónustu var breytt úr opinni móttöku í fyrirfram bókaða tíma.

Þann 19. mars var móttöku Læknavaktarinnar skipt í tvennt, fólk með hita og öndunarfæraeinkenni annars vegar og fólk sem mætir af öðrum sökum hins vegar, til að bæta smitvarnir bæði lækna og skjólstæðinga. 22. mars hóf heilsugæslan sýnatökur um helgar og í næstu viku er áætlað að heilsugæslan sinni almennri vitjanaþjónustu einnig á dagvinnutíma til að létta álagi af Læknavaktinni. Þá verður þriðji vitjanabíll Læknavaktarinnar tekinn í notkun.

Á hverjum degi kemur inn fjöldi pósta um breytingar á vinnutilhögun – allt frá uppbyggingu vaktþjónustunnar, ungbarna- og mæðravernd og móttöku áhættuhópa niður í hvernig við getum skipt okkur í kaffitíma. Síðastliðna viku skiptist starfslið hverrar heilsugæslu í tvennt og vinnur helmingurinn í símaviðtölum heiman frá sér, viku í senn, til að draga úr hættu á að einstaka stöðvar lokist.

Símtalafjöldi til heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar hefur margfaldast og ritarar taka við skráningum og upplýsingagjöf um sóttkví og einangrun. Allt þetta bætist ofan á hefðbundna vinnu okkar sem ekki má tapast niður þrátt fyrir önnur aðkallandi verkefni.

Síðustu vikur hefur oft komið upp í huga mér það sem ég hef heyrt ítrekað síðan ég byrjaði í læknadeild:

Heilbrigðiskerfið er eins og olíuskip, það tekur langan tíma að beygja út af fyrri stefnu.

Ég held það hljóti hér með að vera afsannað.

Ég sé ekki betur en einmitt núna hafi heilbrigðiskerfið gjörbylt starfsemi sinni á mettíma. Þegar ákvarðanir hafa verið teknar eru þær tilkynntar strax og breytingar framkvæmdar um leið. Sem dæmi má nefna útvíkkun á sýnatökum óháð áhættusvæðum í Evrópu sem tilkynntar voru á blaðamannafundi kl. 14. Strax á síðdegisvakt þremur tímum síðar hafði verið brugðist við. Eftir hádegi síðastliðinn föstudag var ákveðið að hefja sýnatökur um helgar. Á sunnudegi var starfslið frá Heilsugæslunni í Efra-Breiðholti mætt í bílakjallarann í Hörpunni og tók um 100 sýni.

Breytingar hafa verið gerðar ótrúlega fumlaust og án mótmæla þar sem allir hafa unnið sem einn maður til að takast á við núverandi ástandi. Gamalgróinn rígur milli undirsérgreina hefur horfið og teymisvinna heilbrigðisstétta hefur tekið á sig allt annan blæ, þar sem hver léttir undir með öðrum og allir hjálpast að við að breyta og bæta þjónustuna eins og hægt er.

Þrátt fyrir yfirþyrmandi álag og áreiti hefur andinn milli starfsmanna á minni heilsugæslu sjaldan verið betri.

Það hefur verið stagast á því í fréttum undanfarið að nú lifum við fordæmislausa tíma. Það má vera satt. En ég held við ættum frekar að líta á þá sem fordæmisgefandi tíma. Fordæmisgefandi fyrir hversu vel við getum unnið saman sem ein heild, fyrir hversu hratt og vel við getum breytt, bætt og aðlagað vinnu okkar að því sem upp kemur – og umfram allt hversu öflug við raunverulega erum þegar á reynir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica