02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Heilbrigðisráðherra bað lækna um að hætta að tala spítalann niður

Það hitnaði á fundi heilbrigðisráðherra og Læknaráðs Landspítala þegar ráðherra bað um að læknar drægju úr gagnrýni á spítalann í fjölmiðlum. Ragnar Freyr Ingvarsson sagði það stríða gegn læknaeiðnum að þegja um ástandið.

„Ég verð að nota tækifærið til að segja hér við Læknaráð að það er töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala þegar það koma ályktanir á færibandi sem segja að þessi stofnun sé nánast hættuleg,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á fundi með Læknaráði Landspítala mánudaginn 13. janúar.

                                 

Fundur heilbrigðisráðherra var skömmu eftir fréttahrinu um slæmt ástand á bráðamóttökunni í kjölfar viðtals Læknablaðsins við Má Kristjánsson, yfirlækni smitsjúkdómalækninga Landspítala. Þar sagði hann stórslys í aðsigi á bráðamóttökunni og benti með tölum á aukið álag. Yfirskrift fundarins var Heilbrigðisstefnan. Ráðherra gaf svo læknum tækifæri til að spyrja spurninga á tæplega klukkustundarlöngum fundi. Um 40 læknar sátu í Hringsalnum og um 15 í Fossvogi.

Ráðherra gagnrýndi að á sama tíma og reynt væri að kalla eftir ungu fólki til starfa á spítalann, og kynna hann sem spennandi starfsvettvang kæmu ályktanir á „færibandi“ um hversu mikill skelfingarvettvangur spítalinn væri.                                         

„Á þessum fundi verð ég að leyfa mér að bera [ástandið] til dæmis saman við það ef háskólarektor og háskólaráð myndu glíma við það frá degi til dags að einstaka deildir háskólans, kennarafélög, stigu fram og segðu að það væri sennilega mjög óráðlegt að stunda nám við Háskóla Íslands. Vegna þess að það væri lélegur skóli, slök kennsla og að öllum líkindum væru rannsóknir þar ekki mjög merkilegar,“ sagði hún og lagði með þessari samlíkingu áherslu á mál sitt.

„Orð eru til alls fyrst og þess vegna hef ég sagt að ég myndi vilja eiga fleiri hauka í horni þar sem eru læknar, því læknar eru best menntaða stéttin á Íslandi, leiðtogar í sínu fagi og leiðtogar í því að byggja upp heilbrigðisþjónustu til lengri tíma,“ sagði hún.

„Ég myndi vilja sjá að læknar tækju það hlutverk alvarlega og horfðu til lengri framtíðar í því að vera með að byggja upp þjónstuna. Að vera með í því að tala um það sem eru áskoranir og hvernig við getum snúið bökum saman í því að bæta þjónstuna.“

Ábyrgð liggi í sögðum orðum

Hún sagði umræðuna nú enduróma að íslenskt heilbrigðiskerfi væri orðið gjaldþrota, það væri ónýtt. „Ég vil skilja það eftir hér að í því felst ábyrgð hvernig talað er.“ Hún minnti á ábyrgð Læknaráðs. „Ég vil biðla til Læknaráðs að leggja fleiri lóð á þær vogarskálar en færri á þær að tala spítalann niður.“

Ráðherra kallaði eftir þessari samstöðu í kjölfar fyrirspurnar Ragnars Freys Ingvarssonar, sérfræðings í gigtar- og lyflækningum, um aðgerðir vegna neyðarástandsins á bráðamóttökunni og þá skelfingarflækju sem blasti þar við á hverjum degi og hafi blasað við liðið ár?

Ragnar brást við þessum orðum ráðherrans með því að segja að hann teldi brot á læknaeiði að benda ekki á það ástand sem blasti við. Hann gæti ekki gert að því að svekkjandi væri að heyra að ástandið sé slæmt. „Það er þannig.“ Um 400 læknar starfi á Landspítala. Hún þyrfti ekki annað en að kalla eftir góðum ráðum. „En það væri líka gott ef einstaka sinnum væri á okkur hlustað,“ sagði hann. Klappaði meirihluti fundarins eftir orð Ragnars.

Í stríði við starfsmenn

Björn Rúnar Lúðvíksson, formaður prófessoraráðs Landspítala, tók undir orð Ragnars og benti á að staða Landspítala hafi aldrei verið jafn alvarleg.

„Ég talaði um fyrir þremur árum síðan að mér fyndist spítalinn vera að missa kúrsinn á góð og öflug mið og stefna á strönd. Útlínur klettanna hafa aldrei verið skýrari. Þetta er ekki þægileg aðstaða að vinna í eða setja sjúklinga okkar í,“ sagði hann. Læknar hafi komið með margvíslega tillögur við löggjöfina og skipuritið sem ekki hafi verið hlustað á.

„Ég get ekki verið sammála því að við séum ekki að koma með uppbyggilegar athugasemdir. Staðreyndin er sú að útgjöld til heilbrigðismála hafa aldrei verið eins lítið hlutfall af vergri landsframleiðslu og er í dag 8,3%. Það var 8,7% þegar þú tókst við,“ sagði hann við ráðherrann. Þá sé ógnarstjórn á spítalanum.

„Menn eru komnir með bakið að veggnum,“ sagði Björn Rúnar. „Búið er að lýsa yfir stríði á hendur læknum og hjúkrunarfólki á stofnun sem á fyrst og fremst að standa vörð um lækningar og hjúkrun. Þetta er alvarlegt. Ég vil benda þér og ríkisstjórninni á að það er alvarlegt ástand á Landspítala og þið verðið að bæta í. Þetta snýst um fjármagn.“ Læknablaðið tók stöðuna á þeim Ragnari og Birni eftir fundinn, sjá viðtal við þá á bls. 88-90.

Svandís lagði áherslu á að hún væri ekki að óska eftir ályktununum til að styðja ráðuneytið. Hún væri að biðja um jákvæðan slagkraft sem hægt væri að ná saman um. „Ég tek alvarlega þegar Læknaráð bendir á ástandið og þegar verið er að tala um alvarlegt ástand og neyðarástand.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica