02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Mikilvægt að benda á vandann – segja Ragnar Freyr Ingvarsson og Björn Rúnar Lúðvíksson

Læknarnir segja mikilvægt að stíga fram og tjá sig um stöðu heilbrigðiskerfisins. Ragnar Freyr segir umvandanir ráðherra á fundi Læknaráðs Landspítala sérlega alvarlegar sé litið til bankahrunsins.

„Það er svo skammt frá hruni og í kjölfar þess var þögn talin einn af orsakavöldum þess hversu illa fór. Það hefði kannski bægt frá meira tjóni en ella hefði fólk tjáð sig,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í lyf- og gigtlækningum á Landspítala, þegar við setjumst niður á skrifstofu hans á sjöundu hæð Fossvogsspítala og ræðum fund Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra með Læknaráði Landspítala.

                                         
                                          Björn Rúnar Lúðvíksson og Ragnar Freyr Ingvarsson stigu fram og
                                          gagnrýndu orð heilbrigðisráðherra á fundi með Læknaráði. Þeir hafa
                                          miklar áhyggjur af ástandi spítalans. Þar ríki NEYÐARÁSTAND. Mynd/gag


hlusta

Upptaka af fundinum fór víða í fjölmiðlum vegna orða ráðherra um að erfitt væri að standa með spítalanum þar sem læknar ályktuðu á „færibandi“ um slæmt ástand hans. Þeir Ragnar og Björn Rúnar Lúðvíksson, formaður prófessoraráðs Landspítala, stigu fram á fundinum og gagnrýndu þessi orð, eins og sjá má hér í blaðinu. Læknablaðið hitti þá Björn og Ragnar hvorn í sínu lagi sama dag á skrifstofum sínum, Björn á Hringbraut og Ragnar í Fossvogi.

„Það er háalvarlegt mál að við skulum ekki hafa lært meira af hruninu en þetta,“ segir Ragnar. „Ég tala nú ekki um að vinstri stjórnmálamaður biðji fólk um að þegja um grafalvarlegt ástand.“ Það hafi ekki verið að ástæðulausu að ályktanirnar komu á færibandi.

Lýsa NEYÐARÁSTANDI

„Mann grípur skelfing að hugsa til þess að fyrir einu og hálfu ári sögðum við að það væri neyðarástand. Ekkert var gert. Neyðarástandið verður því alltaf meira. Fyrst neyðarástand með litlum stöfum, svo Neyðarástand með stóru N-i og nú NEYÐARÁSTAND í hástöfum. Hvað veljum við næst; últra-NEYÐARÁSTAND?“

Björn segir að hann telji að ráðherra hafi ekki áttað sig á því hve alvarlegt ástandið hafi verið í langan tíma. „Við höfum horft á hvernig hefur molnað undan starfsemi spítalans mjög lengi. Þetta svakalega högg og niðurskurður sem verður við hrunið, um og yfir 20%, hefur aldrei verið bætt. Á sama tíma hafa verkefnin margfaldast.“

Björn bendir á að læknar hafi á þessum sama rúma áratug séð gríðarlegar framfarir í læknisfræði. „Hátækni. Við meðhöndlum sjúkdóma sem við gátum ekki fyrir áratug síðan. Við erum betri í að meðhöndla alvarlega veikt fólk og koma því til heilsu sem við gátum ekki fyrir áratug síðan. Þetta kostar gríðarlegt fjármagn.“

Ragnar nefnir margt sem vel hafi verið gert undir stjórn ráðherra, eins og að byggja hjúkrunarrými, koma til móts við fíkla og fanga. „En ímyndaðu þér að litla barnið þitt kæmi gangandi með einkunnaspjaldið úr skólanum. Það hefði fengið 10 í öllu en þú sérð að það er kviknað í hárinu á barninu. Hvað er fyrst á dagskrá þann daginn? Einkunnaspjaldið eða eldurinn?“ spyr hann.

Óstarfhæf fyrir bráðveika

„Við erum með óstarfhæft sjúkrahús þegar kemur að því að sinna bráðveiku, og þá sérstaklega bráðveiku öldruðu fólki,“ segir hann. Inntur eftir nánari útskýringum bendir hann á að frá því í haust hafi um 30 sjúklingar að jafnaði legið fastir á bráðamóttökunni. Þennan föstudag, 17. janúar, hafi tveir sjúklingar verið útskrifaðir af lyflækningasviði.

„Það hefði þurft að útskrifa 35. Af deildinni minni þar sem útskrifa á 5 á dag fer enginn.“ Það sé einkar slæmt fyrir helgi þar sem starfsemin sé minni en á virkum dögum.

Björn Rúnar segir að með orðum sínum hafi ráðherra staðfest þann stjórnunarstíl sem viðgangist á spítalanum. „En það verður samt að segja henni til hróss að hún kom í pontu eftir að við Ragnar mótmæltum orðum hennar og dró þau að sumu leyti til baka.“ Hún hafi sannarlega viljað opna umræðuna. Spurður frekar um stjórnunarstílinn á spítalanum segir hann:

„Þegar fjármagnið er af skornum skammti grípa stjórnendur til örþrifaráða. Þeir eru með bakið upp við vegg og bregðast við sem sært ljón, það bítur frá sér,“ segir hann og nefnir dæmi.

Í stríði við helstu stéttir

„Eins og það að lýsa yfir stríði við hóp lækna, lýsa yfir stríði við hóp hjúkrunarfræðinga með launaskerðingum. Það þýðir raunverulega ekki annað en að verið er að draga saman seglin. Þetta fólk getur ekki unnið þau störf sem það gerði áður. Hver á að vinna vinnuna ef ekki læknar og hjúkrunarfólk?“

Björn vísar í McKinsey-skýrsluna sem segi álagið á íslenska lækna of mikið. „Það molnar því hægt og rólega undan starfseminni. Það er vandamálið. Við höfum horft á svo ofboðslega stóran vanda í svo langan tíma að við erum komin í breaking point. En hingað til hefur okkur tekist að halda uppi öflugu og góðu heilbrigðiskerfi í fremstu röð þrátt fyrir þessa hörmungar, aðstöðuleysi og fjárskort,“ segir hann og gagnrýnir nýja skipuritið.

„Yfirstjórnin er að fjarlægjast kjarnastarfsemina. Það er slæmt og þetta nýja stjórnunarlag er ekki til að bæta ástandið,“ segir hann. „Það er martröð að þurfa að ganga frá einu stigi í annað til að fá loksins svar um hvort einhver ákvörðun verði tekin. Þetta er óskilvirkt fyrirkomulag. Þetta er veruleikinn í dag.“

Ragnar tekur undir það. Ábendingar af gólfinu nái ekki á toppinn. „Forstjóri, framkvæmdastjórar, forstöðumenn,
yfirlæknar, sérfræðingar. Það er afar langt til þeirra sem ráða.“ Hann skilji þó að forstjóri vilji breytingar og vill gefa honum tíma til að spreyta sig með þetta nýja fyrirkomulag.

Áætlanir og arðsemi

Ragnar kallar eftir aðgerðaáætlun. „Við þurfum að horfa til þess sem við gerum í dag, hvað við ætlum að gera eftir mánuð, hvað eftir 6 mánuði og hvað til lengri tíma,“ segir hann „Ég sé enga áætlun. Þess vegna erum við að hrópa um neyðarástand. Við söknum þess að sjá áætlanir settar fram. Þetta er ákall eftir því.“

Engar áætlanir séu til að mynda fyrir inflúensutímabilið sem brátt haldi innreið sína. „Núll,“ segir Ragnar. „Við erum verr undirbúin í ár en í fyrra. Við erum með fleiri sjúklinga. Við erum með lamaðra sjúkrahús en í fyrra. Við erum með sjúkrahús þar sem tannhjólin eru ósamstillt. Þau eru hægt og bítandi að stoppa.“

Björn nefnir að hann vilji sjá arðsemisútreikninga en ekki aðeins útreikninga á kostnaði. Fráleitt sé að hafa fólk á biðlistum til að mynda eftir liðskiptaaðgerðum því arðsemin af því að hafa fólk fullvirkt sé slík.

„Heilbrigðiskerfið er arðsamasti atvinnuvegur þjóðarinnar. Ég fullyrði það. Margfalt arðsamari en sjávarútvegurinn. Við þurfum að sýna þessar tölur.“ Vandinn sé fjárhagslegs eðlis og arðsemin látin afskipt.

Úrræði nauðsynleg

En hver eru úrræðin að þeirra mati? Báðir hafa þeir nóg af hugmyndum, svo sem: Heimahjúkrun, sjúkrahús í heimahúsum, þróa bráðagöngudeild, stækka deildir og vera með áætlanir miðað við fólksfjölgun og tækniframfarir. Ragnar segir brýnast að fá hjúkrunarfræðinga til starfa á þeirra forsendum og að spítalinn verði að leita í eigin ranni. Fjöldi hjúkrunarfræðinga vinni á Landspítala en ekki við hjúkrun.

„Við erum með frábæra verkefnastjóra, millistjórnendur og fólk í ýmsum hlutverkum sem ekki lúta að klínísku starfi. Við þurfum að forgangsraða svo þeir sinni klínísku starfi samhliða rétt eins og velflestir læknar gera.

Björn bendir á að spítalinn eigi að snúast um þriðja stigs þjónustu eins og segi í heilbrigðisstefnu ráðherra. „En spítalinn sinnir margvíslegum öðrum verkefnum.“ Almennu legudeildirnar, þar sem sérgreinalækningar séu stundaðar, séu of veikburða. „Sérgreinarnar eigi að vera sterkar og öflugar á spítalanum en almennum lækningum, forvörnum og öðrum verkefnum á að sinna utan hans.“

Björn segir svo mörg spjót standa á læknum. „Ég man ekki eftir öðru eins. Valdleysi, stjórnskipulagið, þessi drög að nýrri heilbrigðislöggjöf og staða vísinda- og kennslu sem er hræðileg. Það þurfa að verða allsherjar umskipti hvað varðar sýn manna á vísindi og um hvað þau snúast.“

Mikilvægt að láta í sér heyra

Þeir eru á því að mikilvægt sé að tjá sig. „Maður verður að kvarta við þann sem ræður,“ segir Ragnar. „Það gengur ekki að barma sér inni á kaffistofu.“ Hann hafi lýst áhyggjum sínum við sinn yfirmann. „Það virðist ekki hafa dugað til. Ég veit hún hlustar og lætur sinn yfirmann vita en það sem við segjum nær ekki til þeirra sem öllu ráða. Ég fékk einstakt tækifæri til að ávarpa ráðherra. Maður verður að nýta það.”

Björn segir að halda verði því til haga að ráðherra hafi mildað orð sín. „Ég er ánægður þegar fólk sér að sér, skiptir um skoðun og tekur þátt í opinberum umræðum. Ég þoli ekki þegar fólk þorir ekki að segja hug sinn og/eða sem er verra, eins og ég upplifi í dag, að þeir sem tjá sig og eru erfiðir hljóti ekki áframhaldandi framgang eða upplifa að þeir eiga í erfiðleikum með að koma málum sínum áfram. Það er ekki gott,“ segir hann. En er það svo?

„Já, þeim hefur ekki verið launað með framgangi í starfi. Þeir hafa frekar lent í vandræðum með að koma málum sínum áfram. Menn hafa því verið hræddir við að tjá hug sinn opinberlega. Það er ekki gott,“ segir Björn.

En óttast Ragnar það? „Nei. Það væri fráleitt að vera refsað þegar manni gengur gott eitt til. Maður er að benda á ástand, ekki einstaklinga.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica