01. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Saumaði sárin sjálfur eftir að hafa verið barinn með byssum, - íslenskur læknir var í stöðugri lífshættu í Íraksstríðinu 1990

Gísli H. Sigurðsson svæfinga- og gjörgæslulæknir var í stöðugri lífshættu í fjóra og hálfan mánuð í Íraksstríðinu 1990. Hvað eftir annað fékk hann byssuhlaup við háls sinn og höfuð.

„Þetta er allt hér,“ segir Gísli H. Sigurðsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir, og réttir fram bókina Læknir á vígvelli eftir Ólaf E. Friðriksson sem Iðunn gaf út 1991. Hún fjallar um veru hans sem læknir í Kúveit þegar Íraksstríðið geisaði. Eiginkona hans, Birna Guðbjörg Hjaltadóttir, beið eftir honum ásamt þremur börnum þeirra á meðan hann var innlyksa og í lífshættu í Kúveit.

                                             
                                             Gísli H. Sigurðsson upplifði Íraksstríðið á eigin skinni sem prófessor og
                                              yfirlæknir á sjúkrahúsi í Kúveit. Þar varð hann innlyksa en komst með
                                              naumindum úr landi og heim til konu sinnar og þriggja barna.
                                              Mynd/gag

Hlusta á Gísla

Gísli er nú að hætta störfum eftir farsælan feril sem læknir í fjórum löndum. Í Kúveit var hann prófessor við háskólann og yfirlæknir svæfinga- og gjörgæsludeildar Mubarak Al Kabeer-háskólasjúkrahússins um ríflega 5 ára skeið. Síðustu mánuðirnir í starfi voru engu líkir.

„Ég ákvað að gefa út bók til að skrifa mig frá þessari reynslu, sem var svakaleg. Ég var margoft í lífshættu,“ segir Gísli. „Oft var ég með byssukjafta í andlitinu. Maður vissi aldrei hvernig það myndi enda,“ segir hann og hugsar rétt nærri 30 ár aftur í tímann, til ársins 1990.

Skothvellir á bráðamóttökunni

Læknablaðið sest niður með Gísla og fer yfir starfsævina í stórum dráttum. Hann er að vinda ofan af sér og klára verk, smátt og smátt, og við ræðum það sem litaði starfsferilinn mest, Kúveit er efst á blaði.

„Í þessu áður friðsæla landi var fólk skotið á staðnum fyrir smáræði, hvort sem var inni á spítalanum eða fyrir utan. Tilviljun réði því iðulega hver var tekinn,“ segir hann. Honum hafi fundist spennandi að lifa og starfa í framandi landi, en áttað sig á því eftir á að hann stóð í lífsins rúllettu við innrásina eftir 5 friðsæl ár í Kúveit.

                                           
                                            Eftir að innrásarherinn hafði verið hrakinn á brott frá Kúveit fundust
                                            meðal annars fjöldi pyndingartóla víðs vegar um borgina. Og vopn lágu
                                            eins og hráviði um allt.

„Inni á spítalanum var oft kaos þessa mánuði, sérstaklega þegar íraskir hermenn komu með yfirmenn sína sem höfðu orðið fyrir skoti frá leyniskyttum Kúveita,“ segir hann. „Stundum var skotið á bráðamóttökunni. Fyrst og fremst upp í loftið til að hræða okkur: Ef þið bjargið honum ekki þá verðið þið skotnir. Sumir voru dauðir við komuna,“ segir Gísli. „Þá urðum við að setja líkið á sjúkrabörur og fara með það í hvelli inn á skurðstofu og þykjast endurlífga þar til náðist í íraska herlækninn sem hafði verið skipaður sjúkrahússforstjóri.“

Tveimur vikum eftir innrásina var háskólaspítalinn sá eini í landinu með fulla starfsemi, þrátt fyrir að hátt í 200 erlendir læknar og sérfræðingar væru farnir úr starfsliðinu; í herkví, í felur eða ekki komnir úr sumarfríi. Gísli stóð einn Vesturlandabúa eftir á spítalanum.

Var oft handtekinn

Gísli kom til Kúveit á vegum Háskólasjúkrahússins í Lundi í Svíþjóð í gegnum samstarfssamning. Sænska sjúkrahúsið tryggði Kúveitum mannafla til að byggja upp nýjan háskólaspítala og læknadeild frá grunni og þar lauk hann sérnámi og doktorsprófi og gegndi yfirmannsstöðu.

Gísli segir að þegar hann var eini Vesturlandabúi spítalans hafi hjálpað sér að hafa sérstakt skírteini frá íraska sjúkrahússforstjóranum. Hann hafi skilið þýðingu íslenska læknisins fyrir spítalann og fyrirskipað að ekki mætti handtaka Gísla án þess að haft væri samband við sig.

„Ég var samt 11 sinnum tekinn til fanga og yfirheyrður klukkutímum saman. Stundum pyntaður. Ef ég þurfti að fara eitthvað út fyrir spítalann voru allsstaðar eftirlitsstöðvar mannaðar lítt þjálfuðum hermönnum. Þeir voru margir ólæsir, óskrifandi og illa þjálfaðir en þeir vissu að taka ætti alla hvíta menn fasta. Þeir myndu fá verðlaun ef þeir fyndu slíka,“ segir hann.

„Þeir voru oft mjög æstir og beindu hríðskotabyssum að hausnum eða hálsinum á manni. Maður vissi ekki nema þeir myndu í stressinu drepa mann óvart.“

Hann lýsir óhugnanlegu atviki á slíkri eftirlitsstöð. „Vestræn hjón voru skotin til bana. Þau höfðu ekki áttað sig á að þau áttu að hægja á bílnum löngu áður en þau komu á stöðina. Þeir skutu bílstjórann, manninn, og síðan konuna þegar bíllinn kom rennandi inn á stöðina. Það voru mörg svipuð tilfelli.“

En hvernig fjarlægir hann sig frá svona atburðum? „Ég held það hafi með það að gera að vinna sem svæfinga- og gjörgæslulæknir. Maður er svo oft með alvarlega veika og slasaða sjúklinga sem deyja þrátt fyrir mikla meðferð. Maður myndar einhvers konar mótstöðu,“ segir hann.

„Einnig hjálpaði mikið að hafa ekki tíma til að átta sig á hættunni þegar stressið var sem mest.“

Rifbeinsbrotinn í yfirheyrslum

Gísli segir að hættan í yfirheyrslunum hafi verið mest áður en yfirmenn komu á staðinn. „Ég var því oft laminn og barinn því hermennirnir á varðstöðvunum skildu mig ekki og gátu ekki lesið skírteinið mitt frá spítalanum. En þegar vel þjálfaðir og upplýstir leyniþjónustumenn komu að borðinu, greinilega breskþjálfaðir, varð hættan minni.“

Hann nefnir sem dæmi um hve vel írösku leyniþjónustumennirnir voru að sér að þeir hafi vitað að hann hefði verið í háskóla í Bandaríkjunum, í Norður-Karólínu, ekki fjarri stað þar sem sérsveitarmenn bandaríska landhersins væru þjálfaðir. Þeir hafi vitað að þar hafi verðandi yfirmenn í hernum verið þjálfaðir.

„Þeim fannst það skrýtin tilviljun. Þeir voru með afrit af skólapassanum í fyrstu yfirheyrslunni og þar stóð að ég væri með lífstíðarvegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Þeir höfðu ekki séð það áður og grunaði því að ég væri njósnari,“ segir Gísli. Út á það hafi yfirheyrslurnar gengið.

En varstu með áverka eftir pyntingarnar? „Já,“ svarar Gísli. „Stundum rifbrot. Svo var ég að sprauta staðdeyfilyfi sjálfur í brotin, því ég varð að sjást á spítalanum án veikleika og gat ekki látið vita að ég væri í vandræðum. Erfiðast var að sauma sjálfur gat á hausnum á mér með því að horfa í spegil.“

Frá Kúveit í skjóli nætur

En af hverju fór hann ekki fyrr frá Kúveit eða á þessum 2 til 4 vikum eftir innrásina þegar Vesturlandabúar, þar á meðal Birna, voru fluttir landleiðina til Bagdad höfuðborgar Írans af sendiráðum sínum? Hann segir að hann hafi kosið að hjálpa til.

„Margir hjúkrunarfræðingar og læknar frá Miðausturlöndum og Asíu, sem störfuðu á háskólaspítalanum, máttu yfirgefa landið, en vildu vinna áfram meðan ég, yfirmaður þeirra, var þar. Tryggð við yfirmann var ótrúlega sterk á deildinni. Ég vissi að ef ég færi myndu flestir starfsmenn þessarar lykildeildar á spítalanum einnig yfirgefa landið.“

Hann er stoltur af því hversu faglega þjónustu þau gátu veitt á spítalanum á þessum ófriðartíma. „Við vorum vel undirbúin fyrir hópslys og gátum tekið á móti allt að 32 illa slösuðum í einu án meiriháttar vandræða,“ segir hann. „Það þykir mikið fyrir hvaða spítala sem er.“

Breyta hafi þurft miklu í klínískri vinnu. „Við urðum að taka stórar ákvarðanir, hverjum við gætum bjargað og hverjum ekki. Hverjir fengju verkjalyf, súrefni og frið til að deyja á meðan við þjónuðum þeim sem áttu séns á að lifa af.“

Gísli segir að þegar hann fór hafi honum ekki verið lengur vært í Kúveit. Hann hafi verið tekinn þrisvar í yfirheyrslu á jafnmörgum dögum. „Ég fann að það var orðið tímaspursmál hvenær ég yrði látinn hverfa.“ Hann hafi vitað of mikið og verið kunnugt um að hann væri eini Vesturlandabúinn sem væri vitni að mörgu sem íraska setuliðið hafði gert á hlut almennra borgara í Kúveit. Hann hafi verið orðinn virkilega smeykur.

„Ég var þó orðinn nokkuð vanur því að vera hræddur. Ég var oft með púls upp á 150.“

Martraðirnar liðinn tími

Gísli fékk aðstoð sænska sendiherrans til að komast frá Kúveit. Sendiherrann sendi mann til að ná í Gísla og fylgja honum til Bagdad á laun. Sá hafi komist á leiðarenda með mútum og fortölum, en dauðarefsing hafi legið við að fara á milli landanna fyrir Íraka. Kænska og mútur hafi komið þeim á leiðarenda.

„Þegar við vorum stoppaðir á eftirlitsstöðvum sagðist hann vera einkavinur innanríkisráðherrans, gat sagt allt um hans hagi. Hann vissi sem var að Saddam Hussein var svo hræddur um samsæri sinna manna gegn sér að samskipti milli varðstöðva og hersveita voru miklum takmörkunum háð,“ lýsir hann.

Hermenn á varðstöðvunum hafi vitað að þeim bæri að handataka þá en þeir hafi einnig vitað að reglur giltu ekki um alla. Hermennirnir gátu lent í miklum vandræðum ef þeir röskuðu ró íraska ráðherrans. „Eftir 6-8 tíma yfirheyrslur var okkur því alltaf sleppt þótt ekki hafi tekist að sannreyna sögu okkar.“

En fær hann martraðir eftir þessa reynslu? „Ekki lengur, nei.“ En fékk hann þær? „Já það kom vissulega fyrir,“ svarar Gísli og brosir.

Rekinn og endurráðinn í Svíþjóð

Áður en Gísli fór til Kúveit gekk honum vel í starfi í Svíþjóð og hann segist aldrei hafa fundið fyrir því að hann væri þar útlendingur. Hann hafi fengið tækifæri jafnvel umfram sænska kollega. „Mér fannst það stundum óþægilegt,“ segir hann hógvær. Honum hafi boðist staða sem reyndari læknar fengu ekki.

„Ég var aldrei að ota mínum tota. Þetta var ákvörðun yfirmanna á þeim árum. Samt var ég alltaf í nokkurri andstöðu við prófessorinn gamla. Honum þótti ég helst til sjálfstæður í hugsun. Hann rak mig meira að segja einu sinni en sá svo eftir því,“ segir Gísli og hlær.

„Á þessum árum voru menn reknir á staðnum. En það er nú breytt,“ segir Gísli en segir að á sama tíma hafi prófessorinn sýnt mikið sjálfstraust og leitað til hans þegar svo bar undir.

„Yfirmenn lögðu mikið upp úr því að ala upp fólk sem gæti stjórnað. Þeir vildu ekki endilega beina öllu kastljósinu að sjálfum sér,“ segir Gísli. Hér á landi hafi hefðirnar verið meira í ætt við smákóngakerfi sem hafi þó breyst á síðustu áratugum. En hvað skýrir það? „Svo margt hefur batnað.“ Það þekkir Gísli því hann kom hingað heim og starfaði í nokkra mánuði eftir Íraksstríðið.

Smákóngaveldið á Íslandi

„Það var á fyrri hluta árs 1991. Þá fannst mér óþægilegt að vinna á Landspítalanum.“ Ekki hafi ríkt gagnkvæm virðing milli stétta, hjúkrunarfræðinga og lækna. „Það var óþarfa kjaftur á fólki. Sumir starfsmenn voru mjög ókurteisir. Ég hafði ekki kynnst því í Svíþjóð og ekki í Kúveit. Mér fannst það sérkennilegt.“ Hann hafi því leitað aftur út og tekið við yfirmannsstöðu svæfinga- og gjörgæsludeildar Háskólasjúkrahússins í Bern í Sviss. Í Sviss hafi samskipti starfsmanna á spítalanum og í háskólanum verið á allt öðru plani.

„Svo þegar ég kom heim til Íslands 10 árum seinna var andrúmsloftið allt annað á Landspítalanum, allt önnur gæði, ótrúleg framför.“ Margir nýir sérfræðilæknar á flestum deildum spítalans hafi verið komnir heim með góða menntun frá ýmsum löndum. Hjúkrunarfræðingum með háskólapróf og framhaldsmenntun hafi á þessum áratug fjölgað ört. Starfsandinn hafi verið einstaklega góður.

„Það var mjög jákvæð upplifun.“ Andinn hafi haldist síðan sem allra víðast.

Trappar niður vinnuna

En hvernig er að hætta störfum sem læknir? „Skrýtið. Mér fannst ég fyrst vera í fríi,“ segir Gísli og hlær. „Ég er að byrja að fatta það núna,“ segir hann og hefur síðustu misseri sinnt mörgum verkum auk klínískrar vinnu á gjörgæslunni. Var með læknanema og sérnámslækna á sinni könnu, sinnti vísindarannsóknum, var formaður Vísindaráðs Landspítala í 11 ár. Þá hefur hann setið í ritstjórn erlenda læknatímaritsins Acta Anaesthesiologica Scandinavica og áður European Journal of Anaesthesiology.

Síðustu 11 ár hefur Gísli einnig verið í ólaunuðu starfi framkvæmdastjóra tveggja ára viðbótarnáms (fellowship) í gjörgæslulækningum á Norðurlöndum sem tekur við eftir 5 ára sérnám í svæfinga- og gjörgæslulækningum.

„Ég hef verið að trappa niður vinnu þetta ár. Vinn ekkert klínískt lengur en hef sinnt stjórnunarstörfum í sambandi við sérnám lækna bæði hér á Landspítalanum og á hinum Norðurlöndunum. Ég vinn einnig áfram við vísindastörf,“ segir hann.

„Ég á líka eftir að skrifa nokkrar greinar sem ég hef ekki haft tíma til að klára. Er líka ennþá í ritstjórn Acta Anaesthesiologica Scandinavica og í nefndum á vegum Evrópusamtaka gjörgæslulækna. Ég hef sennilega næg verkefni í einhver ár.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica