12. tbl. 105. árg. 2019
Umræða og fréttir
Óska skýringa á launalækkunum yfirlækna og sérfræðinga
Ríflega 60 manns mættu á yfirlitsfund Læknafélagsins um málið
Á félagsfundi Læknafélags Íslands þann 26. nóvember var farið yfir launalækkanir á Landspítala. Ólga er í læknum þar sem yfirmenn og sérfræðingar hafa verið kallaðir á fund yfirmanns og þeim tilkynnt um breytingar á umsömdum ráðningakjörum; að umsömdum föstum yfirvinnutímum hafi verið sagt upp.
Fjöldi félagsmanna Læknafélags Íslands mættu á fund til þess að fara
yfir þá ákvörðun Landspítala að greiða færri yfirvinnutíma eða enga til
yfirlækna og sérfræðinga. Mynd/Védís
Í bréfi Reynis Arngrímssonar, formanns félagsins, til Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans, er óskað skýringa. Beðið er um upplýsingar um umfang launalækkananna, sem sagðar eru félagsmönnum að stafi af rekstrarvanda spítalans. Þá er óskað eftir því að fá að vita hvers vegna ekki var leitað til samstarfsnefndar um kjör lækna vegna þess hve umfangsmiklar breytingarnar á kjörunum séu. „Gerir félagið alvarlegar athugasemdir við að svo var ekki gert,“ segir í bréfinu.
Læknafélagið óskar einnig eftir því að fá að vita hvort og þá til hvaða annarra hópa en lækna uppsögn yfirvinnustunda nær til. Félagið vill vita hve umfangsmiklar aðgerðirnar séu, sundurliðað eftir starfsstéttum. Þá vill félagið vita hve mikið sparast á ársgrundvelli og óskar eftir að fá svör sem fyrst enda eigi nákvæmar upplýsingar um þetta efni að vera til hjá stofnuninni.