12. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Bakslag á Landspítala, segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður Læknaráðs

„Aldrei mikilvægara en nú að læknar standi saman. Þeir eiga ekki að standa sundraðir af ótta við að missa spón úr aski sínum“

„Bakslag,“ segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður Læknaráðs og kvensjúkdómalæknir, spurð um viðkvæma stöðu innan stórra heilbrigðisstofnana landsins um þessar mundir, til að mynda rekstrarvanda Landspítala. Starfsfólk spítalans hafi verið búið að jafna sig eftir sparnaðarkröfur hrunsáranna og verið orðið bjartsýnna.

                                           
                                           Ebba Margrét Magnúsdóttir er formaður Læknaráðs sem hefur staðið í
                                           ströngu vegna bágrar stöðu á Landspítala  litið til rekstrar og
                                           framkvæmda. Mynd/Védís.

hlusta á efni

„En með halla spítalans, sparnaðarkröfum frá fjárlaganefnd og samdrætti í úthlutunum til byggingar nýja meðferðarkjarnans verður bakslag. Ég hef vissulega smá áhyggjur af stöðunni og vona að við missum ekki fólk sem gefst upp á ástandinu,“ segir Ebba sem þó vill ekki vera svartsýn.

„Já, margt er mjög vel gert og biðlistar að einhverju leyti að minnka og heilbrigðisþing að ræða forgangsmál. Frábært. Fullt af góðum hugmyndum, en það þarf að hlúa að fólki á gólfinu, hlaupandi læknum og hjúkrunarfræðingum sem standa vaktina 24 tíma á sólarhring 365 daga á ári,“ segir hún. „Það er krefjandi.“

Verðum að standa í lappirnar

Ebba Margrét hefur stýrt Læknaráði frá árinu 2017 og hefur aukinn þungi færst í málefni Landspítala á þeim tíma. Læknar tókust á á fundi læknaráðs föstudaginn 15. nóvember og varð stjórn ráðsins undir með ályktun sína um nýtt skipurit Landspítala sem þótti of mild gagnvart breytingunum. Hátt í 60 mnns sátu fundinn. Hún segist una því og lúta ákvörðunum meirihlutans. Mikilvægt sé þó að læknar standi saman á þessum ólgutímum.

„Það eru sviptingar innan heilbrigðiskerfisins og mikilvægt að við læknar og aðrar heilbrigðisstéttir stöndum í fæturna, berjumst og séum hreinskilin með þennan fyrirhugaða niðurskurð á stoðsviðum Landspítala,“ segir hún og nefnir fréttir um að draga eigi úr fjárframlögum fyrir byggingu meðferðarkjarna spítalans um 3500 milljónir króna.

„Þetta eru engar smátölur. Daglega eru fréttir af fráflæðisvanda bráðamóttökunnar og þá hljóta ráðamenn að sjá að það liggur á að laga ástandið,“ segir Ebba sem telur að þótt þeir sem stýri framkvæmd á nýjum spítala hafi stigið fram og sagt að ekki ætti að hægja á framkvæmdum sé erfitt að sjá hvernig annað sé hægt við þessa ákvörðun.

„Allar opinberar framkvæmdir, svona stórar, fara yfirleitt framúr í tíma. Við sjáum það með sjúkrahótelið. Það dróst að afhenda það og þegar það var gert komu margir gallar í ljós og ótrúlegt að svona skuli gerast á 21. öldinni,“ segir Ebba.

Allt nötrar og fólk er lúið

Hún segist alltaf hafa haft áhyggjur af staðarvali spítalans og aðgenginu sem nú sé að koma í ljós að sé stórt vandamál. „Starfsemin sem er í gangi er viðkvæm. Allt nötrar við sprengingar daglega. Fólk er orðið lúið en ætlar að þreyja þorrann og góuna og bíður eftir betri tíð á nýjum spítala,“ segir Ebba Margrét sem verður áfram á sínum stað á kvennadeildinni í 70 ára gömlu húsi, enda ekki gert ráð fyrir deildinni í nýja meðferðakjarnanum.

Ebba segir aldrei mikilvægara en nú að læknar standi saman. „Út af svo mörgum hlutum. Við erum ólíkur hópur með ólíka hagsmuni. Við horfum á baráttu Sjúkratrygginga Íslands og sjúkraþjálfara og gerum ráð fyrir að geta staðið í þeim sporum. Það getur klofið stéttina,“ segir hún. Þá sé afar mikilvægt að standa saman sem einn maður.

Hingað og ekki lengra í sparnaði

„Eins líka í þessum sparnaðaraðgerðum. Við þurfum að segja hingað og ekki lengra. Eðli þessarar starfsemi er ekki þannig að hægt sé að hætta við eitthvað,“ segir hún. Þá þarf einfaldlega ákvörðun um að sinna ekki sjúklingum með ákveðna sjúkdóma.

„Svo þarf að gefa í varðandi laun hjúkrunarfræðinga og vinnutíma þeirra,“ segir Ebba Margrét. „Það er ekki eðlilegt að fimmti hver hjúkrunarfræðingur sé farinn að sinna öðrum störfum 5 árum eftir útskrift.“

Ebba Margrét segir skrýtið að þessi vandi sem hafi verið þekktur árum saman sé ekki leystur. „Þetta er alþjóðlegt vandamál og þótt ég sé læknir get ég tjáð mig um þeirra kjör án þess að óttast að mín kjör verði við það verri. Við verðum að ræða málið opinskátt og einlæglega.“

Sem dæmi um þetta hafi mótstaðan sem hún fann þegar hún tjáði sig um mismunandi fjölda yfirlækna á Landspítala eftir deildum komið á óvart. „Það á einfaldlega að þola dagsljósið,“ segir Ebba. Hún hafi aðeins tjáð sig um staðreyndir „Það á að vera sambærilegt yfir allan skalann.“

Undrandi á ójöfnuði milli lækna

Hún undrist einnig ójöfnuð sem endurspeglist í launum lækna. „Forstjóri Landspítala hefur komið á fundi Læknaráðs og sagt að fjöldi fastra yfirvinnutíma sé eins og villta vestrið. Ég varð hugsi þegar ég heyrði þetta.“ Hún hafi óskað eftir úttekt frá mannauðsdeildinni sem nýr formaður Læknaráðs um þessa föstu yfirvinnutíma. Komið hafi í ljós að mikið sé um fasta yfirvinnu til að halda í stéttir sem sótt sé í utan frá.

„En ég sá líka mun milli karla og kvenna. Þar hallaði verulega á konur,“ segir Ebba. „Við þurfum að geta opnað og talað um þetta án þess að óttast að missa spón úr aski okkar. Það á ekki að vera launaleynd í landinu.“

Hún gagnrýnir að ákveðið hafi verið í vor að taka svokallað Heklu-verkefni af hjúkrunarfræðingum og þeim tilkynnt það í haust. „Það er eins og blaut tuska framan í þær.“ Þær hafi unnið hörðum höndum í allt sumar. Eins með ljósmæður sem hafi misst 5% álag af launum sínum.

Ómarkviss handbrögð?

„Þær hafa strax gripið til þess ráðs að minnka stöðuhlutfall sitt og taka aukavaktir til að hífa launin upp,“ segir hún. Sparnaðurinn sé því lítill á heildina litið og aðgerðin svo gott sem marklaus. En er að mati Ebbu frekar horft til svona sparnaðar þar sem kvennastéttir eiga í hlut?

„Ég veit það ekki. Ég held að við höfum gleymt að hlúa að umönnunarstéttum og margar þeirra eru kvennastéttir,“ segir Ebba. Hafa verði í huga að fleiri konur stundi nú læknanám en karlar. „Við höfum séð með fleiri störf að þegar konur verða að meirihluta virðist það vera þróunin að launin lækka.“ Hún þekki ekki ástæðuna.

„Heilbrigðisstéttir verða að vera samtaka í þessari baráttu en ekki að berjast innbyrðis,“ segir Ebba.

Verðum að vanda til jafnlaunavottunar

„Það er með ólíkindum að við höfum í eitt og hálft ár, ásamt Læknafélagi Íslands, Félagi sjúkrahússlækna og Félagi almennra lækna, bent mannauðssviði Landspítala, forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga á óánægju okkar með þá leið sem farin var við vinnslu jafnlaunavottunar. Endalausir fundir, endalaus samtöl,“ segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður Læknaráðs. Hún sjái ekki hvernig spítalinn ætli að landa jafnlaunavottun fyrir árslok.

Læknaráð mótmælir í ályktun harðlega því breska kerfi sem Landspítal valdi að nota við vottunarferlið. En verður hlustað? „Ég veit það ekki,“ segir Ebba Margrét. „Ég satt að segja efast pínulítið um það.“ Mikill tími og orka hefur farið í þetta mál. Bæði forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga virðast hlusta ólíkt framkvæmdastjóra mannauðssviðs. „En því miður virðast ekki gjörðir fylgja því að skilja hlutina.“

Í ályktuninni segir að læknar muni hvorki sætta sig við að sjónarmið þeirra verði hunsuð, né að spítalinn fái jafnlaunavottun með þessum hætti, í andstöðu við lækna. Læknaráðið hvetur yfirstjórnina til að hverfa af þessari braut og nota sama kerfi og aðrar íslenskar heilbrigðisstofnarnir hafi notað með farsælum hætti.Þetta vefsvæði byggir á Eplica