12. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Málþing til heiðurs Gísla H. Sigurðssyni

Í tilefni starfsloka Gísla H. Sigurðssonar, prófessors í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Háskóla Íslands og Landspítala, var haldið málþing honum til heiðurs föstudaginn 15. nóvember síðastliðinn.

                                           
                                            Frá vinstri: Engilbert Sigurðsson, Sven Erik Gisvold, Sigurbergur Kárason,
                                            Martin Ingi Sigurðsson,
Gísli Heimir Sigurðsson, Alma Dagbjört Möller
                                            og Sigríður Kalman. Mynd Tómas Guðbjartsson

Gísli H. Sigurðsson var ráðinn fyrsti prófessor í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Háskóla Íslands og forstöðulæknir við Landspítala árið 2000 eftir að hafa gegnt stöðu prófessors við Háskólann í Bern fyrir þann tíma. Auk rannsóknarstarfa hefur Gísli verið mjög virkur í kennslu læknanema, þróun sérnámskennslu á Íslandi og skandinavísku samstarfi á sviði kennslu og vísinda. Gísli varð sjötugur í janúar síðastliðnum og lauk þá störfum sem prófessor.

Á málþinginu hélt Martin Ingi Sigurðsson, arftaki Gísla, tölu um ævi og störf hans. Sigríður Kalman, prófessor við Karólínska háskólasjúkrahúsið, fjallaði um skandínavískt samstarf á sviði svæfinga- og gjörgæslulækninga undir merkjum SSAI. Þá fjallaði Sven Erik Gisvold, prófessor við háskólann í Þrándheimi, um tíma sinn sem ritstjóri skandinavíska tímaritsins í svæfinga- og gjörgæslulækningum auk þess sem hann fór yfir hugleiðingar sínar um hættuna við það þegar yfirvöld leggja ofuráherslu á kostnað og framleiðni heilbrigðiskerfisins. Í ráðstefnulok flutti Alma Möller landlæknir Gísla svo kveðju frá samstarfsmönnum við Landspítalann.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica