11. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Svar frá höfundum til Hannesar Petersen

Höfundar vilja þakka athugasemdir vegna yfirlitsgreinar okkar um nárakviðslit í septemberhefti Læknablaðsins1 enda teljum við jákvætt þegar lesendur láta sig efni blaðsins varða. Athugasemdirnar snúa annars vegar að þýðingum á latneskum eða enskum líffæraheitum í nára og útskýringarmyndum 1a og 1b. Í engri athugasemdanna er því haldið fram að rangt sé farið með staðreyndir eða að efnistök séu villandi. Það er rétt hjá bréfritara að líffæraheiti eru sum á latínu en önnur á ensku eða íslensku. Það var meðvituð ákvörðun og gert til að auðvelda lesendum að skilja texta og myndir, enda mörg íslensku orðanna framandi. Sumar tillögur bréfritara, sem kennir líffærafræði við læknadeild, eru sennilega til bóta enda samræmast þær íðorðaskrá lækna. Rétt er þó að taka fram að sum af þessum íðorðum hafa ekki fest sig í sessi eða fleiri þýðingar verið notaðar fyrir sömu fyrirbæri. Þetta á til dæmis við um orðið funicle sem á ensku er oftast kallað spermatic cord og við þýddum því sem sáðstreng. Í íðorðaskrá er að finna orðið kólfur sem ekki er jafn lýsandi orð eða í anda enska heitisins. Hvort notað er heitið ductus deferens eða vas deferens fyrir sáðrás teljum við ekki skipta máli, enda er fókus greinarinnar ekki á líffærafræði nárans heldur sjúkdóminn nárakviðslit og meðferð hans. Auk þess má benda á að í læknatexta á íslensku er orðið sáðleiðari oft notað fyrir sáðrás.

Við höfum ákveðið að breyta textanum í Boxi 2 þannig að í stað funicle er nú orðið kólfur og orðið sáðstrengur tekið út. Ensku heitunum spermatic artery/vein hefur verið skipt út fyrir eistaslagæð og bláæð og rectus vöðva breytt í rectus kviðvöðva sem við teljum betra orð en beinn kviðvöðvi. Mynd 1a höfum við breytt og sett orðið funiculus spermaticus í stað sáðstrengs og ligamentum inguinale í stað nárabands, og öll líffæraheitin á myndinni höfð á latínu. Á mynd 1b kemur orðið sáðrás í stað sáðstrengs en önnur heiti eru óbreytt. Afstöðu æða, tauga og vöðva teljum við ekki ástæðu til að breyta, enda rétt að hafa í huga að ekki er um hreinræktaða líffærafræðimynd að ræða, heldur skýringarmynd þar sem helstu skref í aðgerðunum eru útskýrð, og frá sjónarhorni skurðlæknis. Slíkar myndir eru alvanalegar í bókum um skurðlækningar og svipaðar myndir og 1a og 1b er að finna í mörgum þeirra. Við teljum að þessi grein sé mikilvæg fyrir læknanema og verðandi skurðlækna en einnig lækna almennt. Texta um þennan algenga sjúkdóm hefur vantað á íslensku og við erum þegar byrjuð að nota greinina við kennslu læknanema í skurðlæknisfræði.

Bestu kveðjur,

Marta Rós Berndsen

Tómas Guðbjartsson

Fritz Berndsen

Heimildir

1. Berndsen MR, Guðbjartsson T, Berndsen FH. Nárakviðslit - yfirlitsgrein. Læknablaðið 2019; 105: 385-91.
https://doi.org/10.17992/lbl.2019.09.247
PMid:31482863Þetta vefsvæði byggir á Eplica