07/08. tbl. 105. árg. 2019
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Minning um mann. Óttar Guðmundsson
Læknablaðið hefur beðið nokkra lipra penna í læknastétt að senda blaðinu hugleiðingar sínar í dagsins önn.
Ég hóf nám í læknadeild haustið 1968. Utan úr heimi bárust fregnir af háværum mótmælum stúdenta í París og Berlín. Barist var á götuvígjum og bensínsprengjum kastað að lögreglu. Stúdentar gagnrýndu steinrunna stjórnendur háskóla og samfélags. Pólitískir foringjar hvöttu til byltingar þar sem markmiðin voru óljós. Stúdentaleiðtoginn Rudi Dutschke var skotinn til bana um vorið. Þessar fréttir hreyfðu þó lítið við nýnemum í læknadeild sem sátu og lærðu utan að Tissues of the body og efnafræðiformúlur. Veturinn leið og átökin hörðnuðu úti í heimi. Við réðumst að Tissues í tíunda sinn og reiknuðum efnafræðidæmi og misstum fyrir vikið af Þorláksmessuslagnum. Ég áttaði mig á því í próflok að ég hafði meira eða minna misst af byltingarárinu mikla.
Að hausti var aftur sest á skólabekk en stressið hafði minnkað. Helgi Kristbjarnarson hafði komið frá Bandaríkjunum árið áður og var fullur af nýjum hugmyndum. Hann sagðist vera búinn að fá nóg af þessum utanbókarlærdómi og boðaði pólitíska þátttöku. Helgi bauð sig fram til formanns stúdentafélagsins fyrir vinstri menn. Ég var áróðursstjóri og ritstjóri Punkta sem kom út í aðdraganda kosninga. Eftir því sem á leið baráttuna urðu Punktar róttækari og framúrstefnulegri. Lokablaðið kostaði okkur sigurinn. Á baksíðunni var mynd af Jesú Kristi þar sem hann var eftirlýstur af lögreglu fyrir múgæsingar, druslulegan klæðaburð og óæskilegar skoðanir. Þetta fór fyrir brjóstið á siðprúðum stúdentum. Þeir kölluðu okkur guðlastara svo að við glutruðum niður unnum sigri í jafntefli og hlutkesti sem við töpuðum. Frá og með þessum kosningum urðum við Helgi samherjar og vinir. Við vorum á móti Víetnamstríðinu, ameríska hernum og lýstum yfir stuðningi við íslensku stúdentana sem lögðu undir sig sendiráðið í Stokkhólmi.
Vorið 1973 settumst við í ritnefnd Læknanemans. Fljótlega var ákveðið að gera hann að róttæku stúdentamálgagni. Gömlu útliti blaðsins var gjörbreytt og mynd af Jing og Jang sett á forsíðuna.
Í fyrsta tölublaðinu voru fóstureyðingum gerð skil. Ströng fórstureyðingarlög voru í gildi og nokkrar íslenskar konur fóru til Bretlands til aðgerðar. Blaðið tók afstöðu með frjálsum fóstureyðingum og gagnrýndi harðlega afstöðu lækna og ráðamanna til þessa máls.
Í næsta blaði var ráðist til atlögu við geðbatteríið. Stefna blaðsins var sú að hefðbundnar geðlækningar gengju erinda ríkjandi stjórnvalda. Við sögðum að komið væri fram við sjúklinga af mikilli vanvirðingu. Í blaðinu birtum við stóra sykkíatríuspilið sem gerði gys að nútíma geðlækningum og kynntum andsykkíatríuna. Tómasi Helgasyni var ekki skemmt yfir þessari umfjöllun sem vakti mikla athygli úti í samfélaginu. Í blaðinu var grein og myndir af heimilislausu fólki og rónum í Reykjavík. Gamli Læknaneminn birti í hverju blaði sjúkratilfelli. Við sögðum frá konu sem kiknaði undir álagi eigin lífs. Hún var meðhöndluð af kappi með lyfjum, legnámi og örorku. Við spurðum hver væri sjúkastur, konan sjálf eða læknarnir sem kepptust við að troða í hana gagnslausum lyfjum og taka úr henni líffæri.
Í þriðja blaðinu var bætt um betur og haldið áfram að vega að máttarstoðunum. Umfjöllunin um geðheilbrigðismál hélt áfram af sama þunga. Við Helgi ásamt ritnefndinni skrifuðum grein um lyfjaiðnaðinn sem varð til þess að umboðsmenn hótuðu að hætta að auglýsa í blaðinu. Saman sömdum við myndasögu sem átti að sýna umbreytingu róttæks læknanema í íhaldssaman kall með hatt. Nokkrir stúdentar gerðu gagnrýna úttekt á læknadeild og helstu kennurunum á áður óþekktan hátt.
Fjórða blaðið var á sömu nótum. Sexólógía var tekin til umfjöllunar auk marxistískrar hugmyndafræði nútímalækninga. Allt voru þetta nýmæli sem ekki höfðu áður þekkst í Læknanemanum. Vitnað var í blöðin og myndasagan endurbirt í tveimur dagblöðum. Við Helgi vorum skammaðir mjög víða fyrir að hafa breytt blaðinu úr faglegu tímariti í róttækt málgagn stúdenta. Aðrir í ritnefnd voru Anna Björg Halldórsdóttir, Vésteinn Jónsson og Einar Brekkan.
Þegar litið er um öxl til þessara tíma fyllist hjartað eftirsjá og þakklæti. Á þessum árum vorum við ekki hræddir við neitt og stóð á sama um ólund kennaranna við læknadeild. Við létum verkin tala.
Þessi samvinna var upphafið að vináttu okkar Helga Kristbjarnarsonar. Tíminn leið og leiðir skildu. Ég gerðist hluti af íslensku lækningasamfélagi með stofurekstri og spítalavinnu en Helgi hélt áfram á ótroðnum slóðum.
Síðasta sameiginlega aðgerðin var mörgum árum síðar. Benedikt Erlingsson leikari hafði hlekkjað sig við siglutréð á einum hvalbátanna uppi í Hvalfirði. Lögreglan leyfði að læknir fengi að fylgjast með Benedikt þar sem hann stóð á köldu dekkinu. Það varð úr að Helgi færi til að stappa stáli í mótmælendur undir köpuryrðum starfsmanna Hvals h/f. Nokkru síðar fór hann í sjónvarpið til að ræða við Halldór Ásgrímsson einmitt um hvalveiðar og fánýti þeirra.
Helgi lést langt um aldur fram haustið 2002. Hann var einn hugmyndaríkasti maður sem ég hef kynnst og stóð alltaf með sjálfum sér og skoðunum sínum. Hann var maður framkvæmdanna og lét sér ekki nægja að ræða málin. Lokaorðin í myndasögunni um forpokaða læknanemann eru: „Ég er ennþá róttækur en bara orðinn raunsærri en ég var.“ Helgi hélt áfram að vera róttækur en ég varð raunsæinu að bráð. Fyrir mörgum árum tautaði ég stundum þessa breyttu og afbökuðu vísu fyrir munni mér þegar á móti blés.
Vont er að hafa vald á þér,
whisky-flöskutappi.
Fýsna- sækir hart fram her.
Helgi stattu nærri mér.