06. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Ljósmæðrafélag Íslands 100 ára

                                          
                                          Heiðursfélagar Ljósmæðrafélags Íslands á aldarafmælinu. Myndir frá
                                          Ljósmæðrafélagi Íslands.

                                            
                                            Þessari minningarhellu er búið að koma fyrir í gangstétt framan við
                                            Laugaveg 20 þar sem félagið var stofnað 1919.

Þann 2. maí síðastliðinn varð Ljósmæðrafélag Íslands 100 ára. Það var fyrsta stéttarfélag faglærðra kvenna á Íslandi. Á stofnfundi þess voru 20 ljósmæður saman komnar að Laugavegi 20 til að ræða nauðsyn þess að þær stofnuðu með sér félag til að vernda hagsmuni stéttarinnar.

Þó að samtök ljósmæðra hafi fyrst verið stofnuð árið 1919 er saga stéttarinnar mun lengri en ljósmæður eru fyrsta stétt kvenna í opinberu starfi hér á landi. Fyrstu íslensku ljósmæðurnar útskrifuðust á Bessastöðum haustið 1761 að loknu embættisprófi. Í erindisbréfi fyrsta landlæknisins Bjarna Pálssonar var meðal annars að hann skyldi uppfræða yfirsetukonur. Bjarni hafði væntanlega kynnst störfum faglærðra ljósmæðra í Danmörku og fékk þarlendar ljósmæður hingað til lands.

Árið 1912 var Yfirsetukvennaskóli Íslands stofnaður og fór nám til ljósmóðurstarfa þar fram. Árið 1932 var nafni skólans breytt í Ljósmæðraskóla Íslands. Skólinn starfaði til ársins 1994 en árið 1996 færðist nám í ljósmóðurfræðum yfir á háskólastig og útskrifuðust fyrstu ljósmæðurnar með próf frá Háskóla Íslands árið 1998.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica