05. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Árshátíð Félags læknanema

Nú á dögunum var haldin árshátíð Félags læknanema. Þar eru árlega veitt verðlaun þeim kennara og deildarlækni sem þykja hafa skarað fram úr. Í ár voru einnig veitt sérstök heiðursverðlaun.

Kennsluverðlaun

Handhafi kennsluverðlauna FL 2019 er Elsa Björk Valsdóttir, sérfræðingur í almennum skurðlækningum og lektor við læknadeild Háskóla Íslands. Elsa hefur barist ötullega fyrir því að innleiða hermikennslu í læknadeild. Hún hefur skipulagt færnibúðir fyrir læknanema í upphafi 4. árs og staðið fyrir færniviku sem hluta af námskeiði í skurðlæknisfræði. Með þessu gefst nemendum tækifæri til að æfa klínísk vinnubrögð í öruggu umhverfi undir handleiðslu leiðbeinanda. Einnig hefur Elsa átt þátt í því að skipuleggja klíník um siðfræði fyrir 4. árs læknanema til að fjalla um siðferðisleg álitamál sem geta komið upp í starfi og ræða erfið atvik sem nemar kunna að hafa lent í.

                                         
                                           Stjórn Félags læknanema, frá vinstri: Krister Blær Jónsson,
                                           Þórdís Þorkelsdóttir, Teitur Ari Theodórsson, Elsa Björk Valsdóttir,
                                           Árni Johnsen, Sólveig Bjarnadóttir og Daníel Pálsson. Ljósmyndari:
                                           Jóhannes Davíð Purkhús.

                                           

Deildarlæknaverðlaun

Handhafi deildarlæknisverðlauna FL 2019 er Hjálmar Ragnar Agnarsson. Hjálmar hefur verið einstaklega virkur og metnaðarfullur í því að sinna nemum og á mikið hrós skilið. Hann hefur sýnt frumkvæði í kennslu og skipulagt fræðslu utan skóla til að hjálpa við próflestur. Sérstaklega á hann heiðurinn af því að kenna 4. árs læknanemum að lesa hjartarafrit.

                                              
                                               Þórdís Þorkelsdóttir, Hjálmar Ragnar Agnarsson og Sólveig Bjarnadóttir.

Heiðursverðlaun

Handhafi heiðursverðlauna FL árið 2019 er Gunnhildur Jóhannsdóttir. Heiðursverðlaun eru aðeins veitt við sérstök tilefni, gjarnan til þeirra sem hafa unnið óeigingjarnt starf í þágu læknanema. Gunnhildur hefur með vinnu sinni sem skrifstofustjóri á skurðsviði Landspítala skipulagt og haldið utan um klínískt nám nema á 4. ári um áralangt skeið. Hún hefur þannig leitt margrar kynslóðir læknanema í gegnum sín fyrstu klínísku skref á Landspítala og kunnum við henni bestu þakkir fyrir.

                                            
                                             Sólveig Bjarnadóttir, Gunnhildur Jóhannsdóttir, Þórdís Þorkelsdóttir og
                                             Teitur Ari Theodórsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica