04. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Skortur á reglufylgni á Landspítala, rætt við Ásdísi Elfarsdóttur Jelle

Hjúkrunardeildarstjóri segir reglur aðeins virka sé þeim fylgt. Deildarstjóri sýkingavarnardeildar Landspítala segir víða sóknarfæri þegar komi að því að fylgja reglum

                                           
                                           Ásdís Elfarsdóttir Jelle á sýkingarvarnardeild Landspítala sem hefur
                                           vinnuaðstöðu við Eiríksgötu. Mynd/gag

Reglur um verklag virka lítið sé þeim ekki fylgt. Ólafur G. Skúlason, hjúkrunardeildarstjóri á Landspítala, segir landlægt á spítalanum að fólk taki sér það vald að ákveða hvort það fylgi reglunum.

„Það ber á því að sumir hugsa: Ég er ekki sammála því að ég eigi að vera með húfu á þessum stað. Þá ætla ég ekki að gera það.“ Þá séu umgengnisreglur á spítalanum virtar að vettugi.

„Enginn á að vera með úr eða hring en þú sérð samt margt starfsfólk með hring og úr. Því finnst það allt í lagi. Það er ekki nóg að setja verkreglur. Það þarf að fylgja þeim eftir,“ bendir hann á.

Ásdís Elfarsdóttir Jelle, deildarstjóri á sýkingavarnadeild Landspítala, tekur undir þessi orð Ólafs. „Víða eru sóknarfæri,“ segir hún. Eftirfylgni við reglur sé mun ríkari víða erlendis en hér á landi. Vandinn liggi meðal annars í menningunni.

„Er ekki sagt að margir Íslendingar eigi erfitt með að fara eftir reglum? Standi til að mynda ekki í röð. Sumir skilja ekki tilganginn, vita ekki og trúa ekki. Svo eru aðrir sem halda að þeir viti betur. Oft er þetta sama fólkið sem fylgir reglunum erlendis, enda erfitt að vera sá sem sker sig úr.“ Það tilheyri öryggismenningu að fara að reglum og sé grundvöllur þess að rjúfa smitleiðir milli sjúklinga.

Nærtækasta dæmið um litla reglufylgni sé að sýkingavarnadeild Landspítala hafi ákveðið að allir sloppar yrðu stutterma. Bæði nefna að margir læknar séu ósáttir við það og ætli ekki að fylgja fyrirmælunum. Ólafur segir eftirmálana enga. „Þetta þykir mér skrýtið því setji vinnuveitandinn reglur ber að fylgja þeim.“

Ásdís segir rannsóknir sýna að bakteríur setjist helst í ermalíningar, vasa og mittissvæði sloppanna. Fólk eigi að fara í hreinan vinnufatnað daglega en það geri ekki allir. Þá sé bannað að vera með skart á höndum, langar neglur og gervineglur. „Það er sárt að taka niður hringa en bakteríum er sama hvort þær ferðast á milli með giftingarhring eða öðrum hring. Undir hringnum er dásamlegt að vera ef þú ert baktería.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica