03. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Fá of fá fóstur til ígræðslu - segir Hjálmar Bjartmarz læknir í Lundi

                                            
                                                         Hjálmar Bjartmarz á Læknadögum í Hörpu. Mynd/gag

Skortur á fóstrum er helsta hindrun þess að hægt sé að halda áfram að nýta fósturvef til ígræðslu í Parkinson-sjúklinga. Þá vakni margar siðferðislega spurningar við slíkar aðgerðir, sagði Hjálmar Bjartmarz læknir í Lundi í Svíþjóð þegar hann fór á síðasta degi Læknadaga yfir árangur af frumuígræðslu í heila Parkinsonsjúklinga. Í kringum árið 1990 hafi þurft að hætta þessum aðgerðum vegna skortsins.

„Nú þegar við byrjuðum aftur þá söfnuðum við fóstrum frá Malmö, Stokkhólmi, Cambridge og Cardiff. Við áttum í vandræðum með að fá fóstur.“ Þau þurfi meðal annars að vera af ákveðinni þyngd og þá hafi valdið vandkvæðum þegar farið var að eyða fóstrum með pillum.

Hjálmar fagnaði því að stofnfrumur tækju við af fósturfrumum. Einnig að hægt væri að beisla þær þannig að þær yllu ekki æxlum.

Hjálmar fór yfir ígræðsluaðgerðirnar og sagði frá því að hver þeirra tæki um 7-10 klukkustundir: „Hvert spor tekur um 30 mínútur því það þarf að gerast svo hægt.“ Hann sagði að hættan á blæðingum við ígræslu fósturfrumna í putamen í heila væri lítil, aðgerðin væri nánast án blæðinga og vart hægt að sjá að sjúklingurinn hefði farið í meðferð. Af 1000 aðgerðum hefði aðeins tvisvar blætt. „Og báðir þessir sjúklingar hafa náð sér.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica