03. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Botninum er náð

Heilbrigðisstarfsmenn og sjóðir hafa áhyggjur af bágri stöðu vísindastarfs hér á landi

„Nú er botninum náð,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson, formaður prófessoraráðs Landspítala, eftir að ljóst var hversu rýr hlutur heilbrigðisvísinda var í úthlutunum úr rannsóknarsjóði Rannís. Einungis 17% allra þeirra 359 verkefna sem sótt var um styrki fyrir fengu úthlutun, alls 7 frá heilbrigðisvísindasviði.

Samkvæmt tölfræði heilbrigðisvísindasviðs hlaut ekkert verkefni frá sviðinu öndvegisstyrk, aðeins þrjú af 31 fengu verkefnastyrk, eitt af 12 fékk rannsóknarstöðustyrk. Þá hlutu þrír af 15 doktorsnemastyrk. Heildarfjöldi styrkumsókna sviðsins voru 53.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, segir afleiðingar þess að hér á landi verji stjórnvöld umtalsvert minna fé til heilbrigðisvísinda en í öðrum norrænum löndum mikið áhyggjuefni.

„Vel fjármögnuð vísindastarfsemi laðar að vel menntað og þjálfað fólk sem vaxandi samkeppni er um á alþjóðavettvangi. Samkeppni frá Norðurlöndum er sérstakt áhyggjuefni hvað þetta varðar,“ segir Ólafur en reynir um leið að uppörva heilbrigðisvísindafólk með því að benda á að ekki skuli vanmeta þau miklu sjálfstæðu tækifæri sem hér séu til að standa í fremstu röð í heilbrigðisvísindum.

Inga Þórsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs, segir alla áhyggjufulla yfir stöðunni. Heildarfjárhæðin sem rannsóknarsjóðurinn hafi úr að spila sé einfaldlega allt of lág. „Við myndum vilja hafa hana þannig að almennt árangurhlutfall gæti verið alla vega fjórðungur að 30% í það minnsta, sem er í samræmi við það sem sést ef horft er til erlendra sjóða. Það væri eðlilegt. 16-17% árangurshlutfall er allt of lágt.“ Árangur heilbrigðisvísindasviðsins í ár séu auk þess gríðarleg vonbrigði eða um 9%.

Björn bendir á að úttekt stofnunarinnar NordForsk sýni að staða heilbrigðisvísinda hér á landi sé ein sú lakasta í Evrópu og lökust á Norðurlöndum. „Við vorum í efsta sæti Norðurlanda í kringum aldamótin þegar kom að fjölda greina og tilvitnana í þær.“ Hann vill að stofnaður verði heilbrigðisvísindasjóður sem hrein viðbót við aðra sjóði.

„Forsenda allra framfara og aukinna gæða liggur í vísindastarfi,“ segir hann. Stórmál sé að ná fyrri stöðu landsins í vísindastarfi. Auka þurfi fjármagn, hvetja fólk áfram og gefa þeim tíma og rúm til að stunda vísindi. „Þar liggur stóri vandinn í dag.“

Rannsóknasjóður Rannís bendir á í svari við fyrirspurn Læknablaðsins að hann sé samkeppnissjóður. Umsóknirnar séu metnar af viðeigandi fagráðum og sérfræðingum og það sé háð fjármagni hversu mörg verkefni séu styrkt.

Sjóðurinn tekur undir áhyggjur af því að fjármagn frá yfirvöldum sé ekki nógu hátt. „Úthlutunarhlutfallið hefur lækkað síðustu ár og það hefur ekki bara áhrif á rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda heldur á önnur fagsvið líka,“ segir í svari sjóðsins. Fjármagnið ráði för. Það hafi verið 2,5 milljarðar króna allt frá ársinu 2016.

 

1% til rannsókna á spítalanum er alltof lágt

Björn Rúnar Lúðvíksson bendir á að heildarfjárframlög til vísindaiðkunar á Landspítala sé innan við 1%. Það sé allt of lágt. Á Norðurlöndum sé það 6-8% en í Bandaríkjunum víða 10-14%.

Ólafur Baldursson bendir á vandasama fjárhagsstöðu spítalans þar sem hið opinbera hafi ekki gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til vísindarannsókna þurfi spítalinn að taka þann kostnað innan úr hinum almenna rekstri.

„Þetta er athyglisvert þar sem vísindahlutverk Landspítala er lögbundið. Vegna þrenginga í rekstri og skorts á afmörkuðum fjárheimildum, blasir við ákveðinn ómöguleiki í því að leggja meira til vísindamála en það tæpa 1% af rekstri sem nú er gert,“ segir hann. Spítalinn einn geti ekki leyst vandann.

„Ég tel að afmarka þurfi mun betur en nú er gert, fjárveitingar til vísindarannsókna á heilbrigðissviði. Það er ótækt að vísindarannsóknir þurfi að vera í fjárhagslegri samkeppni við þá miklu og brýnu þörf sem er fyrir heilbrigðisþjónustuna sjálfa,“ segir hann. „Færa má rök fyrir því að kerfi sem stillir slíkri samkeppni upp, standist ekki þær grunnsiðferðiskröfur sem flestir vilja byggja þjóðfélagið á.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica