03. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 28 pistill. Notkun tauga- og geðlyfja eftir aldurshópum á Íslandi og í Svíþjóð

Af Norðurlöndunum er notkun tauga- og geðlyfja mest á Íslandi en Svíar koma næst á eftir okkur. Íslendingar nota um 30% meira af þessum lyfjum heldur en Svíar og munar þar mest um notkun örvandi lyfja við ADHD og notkun þunglyndislyfja.

Á Íslandi er meira ávísað til allra aldurshópa, bæði hjá konum og körlum, heldur en í Svíþjóð. Þegar litið er á fjölda þeirra sem fá ávísað kemur í ljós að munur milli landanna er talsverður eftir kyni og aldri. Um 9% drengja á aldrinum 5 til 9 ára fengu ávísað tauga- og geðlyfjum á Íslandi sem er 80% hærra en meðal jafnaldra þeirra í Svíþjóð. Um 14% stúlkna á aldrinum 10-14 ára fengu ávísað tauga- og geðlyfjum á Íslandi sem er 80% hærra en meðal jafnaldra þeirra í Svíþjóð. Eftir því sem aldurinn vex er munurinn minni á milli landanna, einfaldlega vegna þess að langflestir yfir 85 ára í báðum löndunum taka tauga- og geðlyf (ceiling effect, sjá mynd 1 og 2 ).

Ef litið er á mun milli landanna í ávísuðum dagsskömmtum er notkunin hærri á Íslandi í öllum aldurshópum, að frátöldum stúlkum á aldrinum 0-4 ára. Munurinn milli landanna er mestur fyrir aldurshópinn 5-9 ára en ávísaðir dagsskammtar voru 68% hærri meðal drengja og 67% meðal stúlkna á þessum aldri, sjá mynd 3 og 4 . Skýringin á þessum mun milli landanna á lyfjanotkun meðal þeirra yngri liggur fyrst og fremst í ávísunum ADHD-lyfja en um 10 sinnum fleiri drengir 5-9 ára fá þessum lyfjum ávísað hér á landi miðað við Svíþjóð. Á Íslandi voru 12,6% drengja 5-9 ára settir á metýlfenídat árið 2017 en í Svíþjóð voru það 1,2%. Af stúlkum 5-9 ára fengu 2,2% metýlfenídat á Íslandi en 0,36 % í Svíþjóð.

Munur á fjölda notenda meðal eldra fólks er lítill á milli landanna en á Íslandi eru skammtar hærri en hjá jafnöldrum þeirra í Svíþjóð. Sem dæmi er í aldurshópnum 80-84 ára 12-14% fleiri sem fá tauga- og geðlyf hér á landi en munurinn á ávísuðu magni er 34-38% hjá körlum og konum.

Lítil breyting á sér stað á árinu 2018 í ávísunum tauga- og geðlyfja en á árinu fengu 57.000 karlar og 75.000 konur ávísað tauga- og geðlyfjum. Það dregur úr ávísunum margra tauga- og geðlyfja en ávísanir þunglyndislyfja aukast um 5,2% frá árinu 2017 og eru þunglyndislyf stærsti hluti tauga- og geðlyfja hér á landi en árið 2018 fengu rúm 50.000 Íslendinga ávísað þunglyndislyfjum, eða 14,3% þjóðarinnar. Til samanburðar fengu 9,7% Svía ávísað þunglyndislyfjum árið 2017.

Heimildir

1. Lyfjagagnagrunnar landanna
 
2. Hagstofa Íslands  
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica