01. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Athugasemd við viðtal sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins

                 

Ég vil leiðrétta ummæli sem fram komu í viðtali við fjóra læknanema í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Þar er talað um íslenska læknanema sem læra við læknaháskóla í Evrópu og staðhæft að enginn hafi hugað að innkomu þeirra inn í íslenskt heilbrigðiskerfi.

Við í nefndinni um skipulag námsblokka á kandídatsárinu höfum lagt á okkur töluverða vinnu við að kynna kandídatsárið á Íslandi fyrir íslenskum læknanemum sem nema við háskóla í Evrópu. Farnar hafa verið tvær ferðir á vegum nefndarinnar, ein árið 2016 til Debrecen í Ungverjalandi sem fjallað var um í Læknablaðinu1 og önnur vorið 2018 þar sem farið var bæði til Martin í Slóvakíu og Debrecen í Ungverjalandi. Árlega eru haldnir nokkrir kynningarfundir fyrir læknanema erlendis frá sem eru hér í verknámi og þessum kynningum fjarvarpað.

Bæði læknaháskólinn í Debrecen (University of Debrecen, Faculty of Medicine) og læknaháskólinn í Martin (Jessenius Faculty of Medicine in Martin) eru alþjóðlega viðurkenndir háskólar innan Evrópusambandsins og því er nám þar viðurkennt að fullu samkvæmt EES/EU samningum. Nemar frá þessum skólum þurfa ekki að taka kandídatsár á Íslandi en við teljum að kandídatsárið sé frábær viðbót við þeirra nám. Kandídatsárið eða sambærileg reynsla er nauðsynleg til að geta sótt um þau sérnámsprógrömm sem eru í boði á Íslandi.

Nefndarmenn hafa fylgst grannt með þeim fjölda íslenskra læknanema sem nema ytra og gert ráðstafanir til að mæta þeirri fjölgun sem orðið getur á kandídatsárinu. Við höfum áætlað að hægt sé að taka við þeim fjölda án vandkvæða. Í töflunni sést áætluð þróun á næstu árum miðað við þann fjölda sem nú nemur við þessa tvo háskóla (gögn fengin frá formönnum félaga íslenskra læknanema erlendis).

Kandídatsárið er starfsnám og því vel til þess fallið að styrkja verðandi lækna fyrir framtíðarstarf. Marklýsingin fyrir kandídatsárið á Íslandi hefur fagmennsku og góða starfshætti lækna í öndvegi. Megináherslan er á öryggi sjúklinga og eigin framþróun læknakandídatsins, það er hvernig hann getur bætt eigin frammistöðu bæði hvað varðar læknisfræðilega þekkingu, klíníska færni og hæfni til að starfa með öðrum.

Við sem stýrum kandídatsárinu hérlendis höfum góða reynslu af þeim kandídötum sem hafa komið hingað heim að loknu námi við erlenda háskóla og viljum óska þess að viðtalið í Læknablaðinu rýri ekki þau góðu tengsl sem eru við íslensku læknanemana sem nema utan Íslands því þar er mikill mannauður sem ég tel okkur skylt að hlúa að og styðja.

Ég hef kynnt ofangreind atriði fyrir kennsluráði við læknadeild HÍ. Þar sitja fulltrúar læknanema og þar hef ég bent á mikilvægi þess að Félag læknanema við HÍ myndi tengsl milli íslenskra læknanema hér á Fróni og þeirra sem nema í öðrum löndum með reglulegum samkomum og öðrum viðburðum. Ég skora á núverandi formann Félags læknanema að láta sitt ekki eftir liggja í þeim málum. Því framtíðin er ykkar allra.

 

Heimild

1. Ólafsdóttir IS. Kynningarfundur um kandídatsár á Íslandi fyrir læknanema í Debrecen. Læknablaðið 2016; 102: 309.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica