12. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Hvernig heilsast Jónasi? Af þingi FÁSL
150 manns fræddust um það á málþingi Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar
Fundargestir sungu í lokin lagið eftir austfirska snillinginn Inga T.
Lárusson sem Íslendingum er hjartfólgnast af lögum við kvæði Jónasar:
Ég bið að heilsa/Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Myndir/ Vilhelmína Haraldsdóttir
Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar hélt málþing í Þjóðmenningarhúsinu 17. nóvember síðastliðinn og var yfirskrift þess: Jónas Hallgrímsson – hin hliðin – heilsufar Jónasar. Málþingið var afar vel sótt og við sprengdum salinn af okkur.
Jóhanna Þórhallsdóttir og Páll Torfi Önundarson tóku lagið.
Fundarstjóri var Jón Jóhannes Jónsson yfirlæknir og í inngangi hans kom fram að við værum ekki að kasta rýrð á Jónas heldur vildum við reyna að skilja hann og líf hans betur.
Fyrst var fjallað um áfengið og áhrif þess á líf og heilsu Jónasar. Í pontu steig Torfi Tulinius prófessor og setti málið í alþjóðlegt samhengi. Hann fjallaði um rómantísku skáldin í Evrópu á 19. öld og lagði áherslu á drykkjuskap og afstöðu þeirra til víns og annarra vímugjafa. Á þessu tímabili töldu mörg skáld það hjálpa andagiftinni að nota vímugjafa og þá helst áfengi.
Næstur talaði Páll Valsson rithöfundur sem skrifaði ævisögu Jónasar. Hann sagði okkur frá hve mikill drykkjuskapur var á stúdentum í Kaupmannahöfn á þessum tíma og hve örlög margra hefðu verið dapurleg. Páll sagði að oft mætti sjá á bréfum Jónasar að hann væri undir áhrifum þegar hann skrifaði bréfin – bæði á skriftinni og á orðalaginu. Jónas gekk þó í bindindisfélag Hafnarstúdenta. Fram kom að þó að Jónasi hefði þótt sopinn góður hefði hann samt afkastað miklu og verið sívinnandi. Hann stundaði rannsóknir í náttúruvísindum og fór í ferðalög til Íslands og ferðaðist um hálendið við afar erfiðar aðstæður og oftast við mjög slæma heilsu. Við ræddum töluvert um fótamein Jónasar og margar tillögur komu fram meðal fundargesta um hver væri orsök þeirra.
Dagný Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum bókmenntum ræddi um æskuástir Jónasar og þegar hann varð ástfanginn af Þóru Gunnarsdóttur og bað föður hennar um hönd hennar en fékk hana ekki.
Í kaffitímanum fluttu þau Jóhanna V. Þórhallsdóttir mezzosópran og Páll Torfi Önundarson yfirlæknir og gítarsnillingur stökur Jónasar sem fundust á náttboði hans eftir að hann lést. Páll Torfi hafði samið lag við stökurnar.
Óttar Guðmundsson geðlæknir fór yfir sjúkraskrá Jónasar og niðurstöður krufningar á líki hans. Eins og þjóðin þekkir var Jónas á leið heim og datt í bröttum stiga á leið upp í íbúð sína. Hann fékk opið fótbrot og var svo fluttur á sjúkrahús. Það stóð til að taka fótinn af en áður en að því kom lést Jónas örfáum dögum síðar. Í krufningu fannst drep og sýking og einnig fundust merki um nýlega og einnig eldri lungnabólgu. Lifrin var stór, um það bil tvöföld að þyngd.
Jón Karl Helgason prófessor fjallaði svo um bein Jónasar. Hvernig stóð á því að þau voru grafin upp úr Assisstens-kirkjugarðinum í Kaupmannahöfn og flutt til Íslands. Jón Karl fjallaði um þátt Matthíasar Þórðarsonar Þjóðminjavarðar og Sigurjóns Péturssonar forstjóra Álafoss í beinamálinu og fór yfir þær umræður sem spunnust um hvort þetta væru örugglega réttu beinin sem hefðu verið grafin upp þar sem skipulagi kirkjugarðsins hafði verið breytt og nokkrir höfðu verið grafnir til viðbótar í sömu gröf.
Rúmlega 150 manns voru á málþinginu og sungu saman Ég bið að heilsa/Nú andar suðrið sæla vindum þýðum, og þegar því lauk fóru allir glaðir út í rokið og rigninguna.