12. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Læknar undir Jökli á síðustu öld. Kristófer Þorleifsson

Ólafsvíkurlæknishérað var stofnað með lögum nr. 24 sem samþykkt voru af Alþingi 13. október 1899 og náði yfir utanvert Snæfellsnes, eða 5 sveitarfélög: Staðarsveit, Breiðuvíkurhrepp, Neshrepp utan Ennis, Ólafsvíkurhrepp og Fróðárhrepp. Þann 11. júní 1994 sameinuðust sveitarfélög héraðsins í eitt sveitarfélag, Snæfellsbæ. Áður hafði héraðið verið hluti af stærra læknishéraði sem einnig náði yfir Stykkishólmshérað, alla Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu frá Hítará í suðri og Skógarströnd í norðri, einnig yfir Flateyjarhrepp. Á þeim tíma sat aðeins læknir í Stykkishólmi, en enginn læknir á utanverðu Snæfellsnesi.                                                                                                          

Ólafsvíkurhérað var erfitt yfirferðar, sérlega um vetur, vegna lélegra samgangna. Læknirinn sat í Ólafsvík. Til að komast út á Hellissand eða Neshrepp utan Ennis þurfti að keyra fjöruna undir Ólafsvíkurenni og var þar ekki fært nema á háfjöru og því þurfti að gæta sjávarfalla. Oft stóð tæpt með menn og bíla. Árið 1963 kom vegur um Ólafsvíkurenni sem var alla tíð hættulegur vegna grjóthruns og snjóflóða. Loks var lagður uppbyggður vegur undir Ólafsvíkurenni árið 1963 sem reynst hefur vel og verið hættulaus. Ekki var fært frá Ólafsvík austur um norðanvert nesið nema að Búlandshöfða, en vegur kom um Búlandshöfða 1984 og var þá loks komin tenging að norðanverðu og vegasamband við Grundarfjörð og Stykkishólm. Þannig voru fram yfir miðja síðustu öld hlutar læknishéraðsins einangraðir hvor frá öðrum. Þurftu læknar þá ýmist að ferðast á hestum eða fótgangandi þar sem ekki voru bílvegir.

                                                                          
                                                                                     Halldór Steinsen læknir

Fyrsti læknir Ólafsvíkurhéraðs var Halldór Steinsson (Steinsen) sem sat í tæp 35 ár, frá 1900-1934. Halldór var alþingismaður Snæfellinga frá 1911-1933 að undanskildum árunum 1913 til 1916. Halldór var virðulegur embættismaður, ávallt vel klæddur í síðum svörtum frakka með hatt á höfði og með staf. Vegna þingmennskunnar var Halldór oft löngum tímum burtu úr héraði. Á árabilinu 1934 til 1944 sátu þrír læknar héraðið. Síðastur Sæbjörn Magnússon sem andaðist  6. febrúar 1944. Haustið 1944 varð Arngrímur Björnsson héraðslæknir og gegndi starfinu fram yfir sjötugt, eða til 1971.

                                                                            
                                                                                  Arngrímur Björnsson læknir

Arngrímur Björnsson var fæddur 5. september árið 1900 á Lóni í Kelduhverfi. Hann útskrifaðist cand.med. frá Háskóla Íslands í febrúar 1932. Eftir kandídatsár á Landspítala leysti hann af í hinum ýmsu læknishéruðum þar til hann var skipaður héraðslæknir í Flateyjarhéraði frá nóvember 1934 til desember 1942. Þá fékk hann Ögurhérað við Djúp og var þar frá janúar 1943 til september 1944 að hann fékk Ólafsvíkurhérað.

                                             
                                                                                                 Ólafsvík.

Í Flatey varð Arngrímur sjálfur að leigja sér íbúðarhúsnæði og húsnæði fyrir lækningastofu og apótek. Héraðið var erfitt og mikið um erfiðar sjóferðir í sjúkravitjanir út í aðrar Breiðafjarðareyjar, en á þessum tíma var búið í mörgum eyjanna. Starfið var erfitt og afkoman léleg. Í Ögurhéraði fylgdu á hinn bóginn meðal annars húsnæði á vegum ríkisins til búsetu og fyrir lækningastofu og apótek.

                                             
                                             Vegur kom fyrst yfir Fróðárheiði 1930 sem var afar torfær fram yfir 1950
                                             að hann var lagfærður. Útnesvegur fyrir Jökul varð fyrst almennilega
                                             ökufær upp úr 1950.

                                              
                                                                   Í Flatey, Arngrímur og séra Sigurður Haukdal.

Þegar Arngrímur kom með fjölskylduna, konu og tvo syni, til Ólafsvíkur beið hans hvorki íbúðarhúsnæði né húsnæði fyrir lækningastofu og apótek. Töldu sveitarstjórnarmenn að læknirinn ætti sjálfur að finna sér húsnæði enda litu heimamenn svo á að læknirinn væri hátekjumaður. Hann keypti síðan hús Sæbjarnar Magnússonar af ekkju hans og bjó í því þar til hann byggði sitt eigið húsnæði.

Arngrímur fékk kuldalegar móttökur þegar hann tók við héraðinu, en ávann sér fljótt traust og viðingu fólksins. Mörgum fannst sérkennilegt að sjá þennan lágvaxna lækni, sem klæddur var að sveitamanna sið þegar hann kom fyrst til starfa, í háum ullarleistum klæddum yfir buxurnar upp undir hné. Hann leit ekki út eins og virðulegur embættismaður eins og  Halldór Steinsen.

Öll árin fór Arngrímur sjaldan úr héraði og ef hann fór burtu í einhvern tíma þurfti hann sjálfur að útvega sér afleysingu og borga fyrir. Í mörg erfið ferðalög fór hann á hestum og fótgangandi, til dæmis yfir Fróðárheiði til að bjarga ljósmóðurinni í Staðarsveit sem var að blæða út eftir fósturlát.

Arngrímur þótti skemmtilegur og hlýr, en hann gat verið hvatvís og afar orðheppinn. Hann var vel hagmæltur og unnandi klassískrar tónlistar. Hann hafði mikinn bílaáhuga og átti til að setjast upp í nýja bíla hjá Ólsurum og reynslukeyra þá án formlegs leyfis.

Arngrímur var þrotinn að kröftum þegar hann lét af störfum rúmlega sjötugur, enda ekki auðvelt fyrir aldraðan og heilsuveilan lækni að vera stöðugt á vakt og eiga von á að vera vakinn upp um nætur enda Ólafsvík á þeim tíma stór verstöð með fjölda farandverkamanna. Oft var þá í landlegum mikil drykkja og slagsmál og þufti læknirinn þá oft að gera að sárum manna.

Arngrími fannst þeir útnesjamenn Ólsarar og Sandarar oft æði fyrirferðarmiklir og róstusamir, en engu að síður hjartahlýir, samhentir og hjálpsamir.

Ólsarar og Sandarar kunnu vel að meta Arngrím og hans störf. Við starfslok var honum haldið mikið kveðjuhóf og íbúar héraðsins leystu hann út með nýrri Volvo- bifreið.

Arngrímur lést þann 12. janúar 1972. Hann var jarðsettur frá Ólafsvíkurkirkju að viðstöddu fjölmenni.

Í minningargrein Stefáns Sigurkarlssonar lyfsala í Stykkishólmi segir: „Í fyrsta skipti, sem ég sá Arngrím Björnsson lækni lá hann hálfur undir „Ástin Gipsí“ jeppa, sem hann átti þá, og þegar hann skreið undan bíl sínum krímóttur í framan með tól sín og hóf að útlista fyrir mér leyndardóma bílafræðinnar, kom mér í hug vísan alkunna „Löngum var ég læknir minn, lögfræðingur, prestur" og víst er um það að Arngrímur mátti oft taka til hendi á fleiri sviðum en í sérgrein sinni. Til að mynda setti hann oft saman laglegar bögur, og lét sig ekki muna um að gera lag við, ef á þurfti að halda, enda maðurinn frábærlega tónvís, svo sem hann átti kyn til.”

Heimildir

1. Læknatal annað bindi 1970
 
2. Morgunblaðið 20. janúar 1972  
 
3. Tíminn 20. janúar 1972  
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica