12. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Þau eru framtíðin - rætt við fjóra læknanema
Launalaus yfirvinna, ólaunaðar nemavaktir og álag eru aðstæður sem læknanemar á Landspítala lýsa. Þau standa utan við Læknafélagið en myndu gjarna vilja vera innan þess
Helga Margrét, Árni, Hrafn og Þórdís lýsa stöðu læknanema á
Landspítalanum. Þau telja þörf á því að þau séu hluti af stéttarfélagi.
„Munið eftir læknanemum. Við vinnum líka á spítalanum. Við erum framtíðin,“ segja þau Þórdís Þorkelsdóttir, Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Hrafn Hlíðdal Þorvaldsson, öll á 5. ári, og Árni Johnsen, 6. árs læknanemi, spurð hverju þau vilji skila til forystu Læknafélagsins. Þau eru ekki í félaginu en vildu öll vera það. Nú í miðri viku undir lok nóvember setjumst við niður í Eirbergi við Landspítala til að ræða námið, kjaramál og Læknafélagið.
„Við myndum vilja vera með einhvers konar aðild að félaginu,“ segir Þórdís: „En það stendur til að ræða hvort læknanemar sem eru á klínísku árunum geti fengið hlutaaðild, en það hefur ekki enn komið til þess.“
Helga bendir á að þau vinni á spítalanum en tilheyri þó engu félagi. „Það er skrítið.“ Hrafn tekur undir og segir óvissu um hvar þau standi. Árni bætir við: „Við vinnum undir kjarasamningum LÍ og fáum laun sem eru hlutfall af þeim kjarasamningi. Það hlutfall er ákveðið af Landspítala og kemur, eftir því sem ég veit best, ekki fram í neinum kjarasamningi. En við fáum samt ekki að hafa rödd um hvernig þessi kjarasamningur er,“ segir hann.
„Það hlýtur að brjóta grundvallarréttindi á vinnumarkaði að þú fáir ekki að kjósa um eða hafa neitt um kjör þín að segja.“ Læknafélagið ætti að sýna því meiri áhuga. Það sé upp og ofan hvort starfsfólk á launadeild Landspítala viti hvort nemar séu í félaginu eða ekki. „Þetta er voðalega mikið í lausu loft og óeðlilegt.“ Helga Margrét grípur boltann.
„Við fáum Læknablaðið heim. Auðvitað er það gaman og fær mig til að hugsa að ég sé komin inn í Læknafélagið, en svo er ekki. Það þarf skýrari ramma og rökrétt að við værum annað hvort á eigin samningi eða innan Læknafélagsins.“
En hvernig tilfinning er það að semja aldrei um launin?
Helga segir þau læra hratt strax í byrjun læknanámsins að velta sér ekki upp úr því. „Þá fær maður þau skilaboð að svona sé þetta og verði svona og að við höfum ekkert um það að segja. Maður beygir sig undir það – alla vega ég.“
Þórdís samsinnir því: „Já það er þannig. Og oft þegar maður spyr spurninga er svarið: Svona er þetta.“ Árni grípur orðið og hvert af öðru leikur fyrirmyndirnar: „Svona er þetta bara í læknisfræðinni!“ og Helga: „Já, eða meira svona: Þú veist nú ekki hvernig þetta var þegar ég var í læknisfræðinni. Það var miklu verra.“ Þau hlæja.
Árni telur að þeir læknanemar sem velti fyrir sér kjaramálum komist að sömu niðurstöðu og þau. „Við höfum rosalega lítið um þetta að segja og það er erfitt að breyta því.“
En er Læknafélagið mikilvægt?
„Já,“ segja þau öll. „Algerlega,“ hrópar eitt úr hópnum og Helga segir: „Þú heyrir á okkur að við erum voða súr að vera ekki félagar.“ Þórdís bætir við. „Já, það er klárt mál að það er mikilvægt. Sérstaklega líka þar sem Læknafélagið er fagfélag. Líka út á við. Læknafélagið getur bæði komið fram fyrir lækna og staðið með þeim. Það er mikilvægt að það verji lækna. Eins og þekkist núna nafngreinir fólk lækna út af ákveðnum málum. Þeir geta ekki svarað fyrir sig því þeir eru bundnir þagnarskyldu og félagið því afar gott öryggisnet.“
Árni segir það einnig mikilvægt til að taka á pólitískum málum, eins og skipulagi heilbrigðiskerfisins. „Þeir sem eru í stjórn Læknafélags Íslands og Reykjavíkur hafa verið duglegir að láta skoðun sína í ljós, því læknar eru almennt ekki duglegir að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er nöldrað á kaffistofum og lokuðum Facebook-grúppum en ekki svo mikið í blöðum og viðtölum í sjónvörpum. En forysta lækna hefur verið dugleg í að stíga fram.“
Helga segir samstöðu mikilvæga öllum stéttum, sérstaklega meðal lækna. „Þar getur fagfélag skipt öllu máli. Viðburðir, eins og nú á 100 ára afmælinu og Læknablaðið, þessir litlu hlutir, skipta máli. Þeir undirstrika hvað það þýðir að vera læknir og tilheyra hópi. Þetta er erfitt starf, mikið álag.“
Hrafn tekur undir það: „Já, ein sterk rödd sem kemur fram svo allir séu ekki að tala í sínu horni. Félag sem setur fram skoðanir sínar, eins og með ályktunum á aðalfundinum, og setur skýra stefnu um hvert læknar vilja fara.“
Er Landspítalinn spennandi vinnustaður?
Helga Margrét svarar fyrst: „Nei, ég tala nú bara fyrir mig, en mér finnst það ekki.“ Spurð hvort hann verði það, svarar hún. „Ég virkilega vona það, því þar er frábært fagfólk, en aðstæður nú eru kaót-ískar og óvissa ríkir. Allir tala um nýja Landspítalann en það er langt þangað til hann rís. Ástandið til að mynda á bráðamóttökunni er óboðlegt bæði starfsfólki og sjúklinum. Plássleysi og úrræðaleysi,“ segir hún.
„Mig langar að verða bráðalæknir, en ég horfði á þá þarna einn daginn leitandi að sjúklingnum sínum: Hann var hérna rétt áðan! Að þurfa að kljást við plássleysi og óreiðu þegar þú ert að fást við lífshættulega sjúkdóma er óforsvaranlegt fyrir Ísland.“
Hrafn segir pressuna á að útskrifa sjúklinga gríðarlega. „Oft finnst mér óþægilegt að útskrifa. Það er út af þessu svakalega pláss- og úrræðaleysi. Senda þarf fólk heim, fólk sem kemst varla á klósettið er sent heim af því að það gat staðið upp.“ Helga bætir við: „Já, og af því að það á ættingja sem getur komið og náð í það. Ef ekki væri þessi fráflæðisvandi þyrftu ekki eins margir að bíða á bráðamóttökunni.“
Hrafn: „Spítalinn er stappaður.“
En þarf maður þá ekki að vera kjarkaður til að standa á sínu?
„Jú, klárlega,“ segir Hrafn. „En kostur okkar er að við berum ekki ábyrgð þótt við séum þau sem útskrifum sjúklinga. En það þarf að standa fast á sínu telji maður sjúklinginn ekki eiga að fara. Það getur verið erfitt að standa uppi í hárinu á yfirmönnunum.“
Helga nefnir einnig hvernig plássleysið skapi leiðinlegan móral á deildum. „Það berast boð til útskriftarteyma, sem pressa á lækninn sem verður pirraður við hjúkrunarfræðinginn. Það er ekki gott þegar starfsandinn er líka farinn vegna plássleysis.“
Þórdís nefnir að henni finnist hlutirnir á Landspítala stundum svolítið tilviljanakenndir. „Hvað gerist? Hvert fara sjúklingarnir? En hugsanlega höfum við nemarnir ekki áttað okkur á kerfinu. En ég verð óörugg í aðstæðum þar sem ég upplifi að hlutirnir séu tilviljanakenndir. Þá er starfsumhverfinu hjá mörgum deildarlæknum ábótavant. Þú eyðir meiri tíma í vinnunni en þú átt að gera.“
Árni segir, og þau taka öll undir, að verkefnin séu mjög spennandi þótt starfsaðstöðunni, flæði sjúklinga, pressa á að útskrifa, pláss og líka ýmsu í starfsmannastefnunni sé ábótavant. „Þú situr eftir og skrifar nótur um sjúklinga án þess að fá greitt fyrir. Gert er ráð fyrir að þetta sé sjálfboðavinna sem þú hafir ákveðið -prívat og persónulega að eyða frítíma þínum í – en svo er alls ekki. Þú berð hag sjúklinga þinna fyrir brjósti og það fæst engin velvild fyrir það. Ef maður ræðir þetta við yfirmennina fær maður skammir fyrir að vera brenna sig út of snemma með því að eyða of miklum tíma á spítalanum. Það er mín upplifun.“
Þau nefna þó að ef þau slepptu þessari vinnu bitnaði það á sjúklingum og þeim læknum sem tækju við þeim. Ferlið myndi skaðast. „Þarna þarf hvert okkar að vera mjög sterkt og setja okkur sjálf í fyrsta sæti. Hver og einn þarf að passa að vinna ekki yfir sig. Ég vildi óska að ég setti sjálfa mig í þennan forgang,“ segir Helga. Hrafn bætir við: „Ef maður klárar ekki verkin er maður með samviskubit allan daginn,“ segir hann. „Það væri erfitt að lifa með sjálfum sér ef maður skrifaði ekki nótuna og eitthvað kæmi fyrir.“
Þau benda einnig á að þetta fyrirkomulag sé ólíkt milli sjúkrastofnana. „Á sjúkrahúsinu á Akureyri er greitt fyrir -yfirvinnu,“ segir Árni. Hrafn segir að hann hafi heyrt að það sé þar sem sjúkrahúsið á Akureyri vilji laða að sér fleiri unglækna.
Við ræðum vinnutíma. Helga segir skrítið að fá greitt fyrir að vinna vaktir en vinna svo sambærilegar vaktir, nemavaktir, án greiðslu. „Við eyðum miklum tíma í ólaunaðar vaktir. Það væri gaman að vita hvort þetta tíðkist í öðru verknámi.“ Þau eru þó öll ánægð með mikla starfsreynslu sem þau öðlist í náminu. „Já, það eru forréttindi að vera í læknanámi á Íslandi,“ segir Helga.
Nú læra margir í Evrópu. Mun það breyta íslensku heilbrigðiskerfi?
„Já, þetta mun breyta heilbrigðiskerfinu,“ segir Þórdís. Öll eru þau sammála um að það sé frábært að fá þekkinguna að utan og fagna því að fleiri læri læknisfræði. „Við viljum ekki vera innræktuð með rörsýn,“ segir Helga og þau hlæja.
„Er ekki alltaf verið að tala um læknaskort,“ bætir Þórdís við: „Vonandi getur íslenskt heilbrigðiskerfi boðið öllum þessum læknum störf. Árgangurinn minn er sá stærsti hingað til. Þau þurfa að koma hingað til þess að fá lækningaleyfi. Þau þurfa að taka kandídatsár á Íslandi. Það verður áhugavert að sjá hvort það verði samkeppni um kandídatsstöður í framtíðinni og hvar við stöndum þá,“ segir hún. Árni bætir þar við: „Það er engin stjórn á því hvað margir útskrifast úr læknisfræði. Við gætum setið uppi með atvinnulausa lækna, sem er fáránleg sóun á 6 ára háskólanámi og lánum LÍN.“
Þau ræða að það þurfi að tryggja að skólarnir ytra standist örugglega gæðakröfur. Það sé hagur allra og myndi slökkva á gagnrýnisröddum um nám erlendis. „Staðan er önnur hjá hjúkrunarfræðingum. Til þess að fá að starfa sem hjúkrunarfræðingur hérlendis þarf Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga að hafa gert úttekt á náminu ytra og sjá til þess að umsækjandinn hafir lokið ákveðið mörgum klukkustundum í verklegu námi. Þetta á ekki við um lækna,“ segir Árni. Eins séu settar reglur um sálfræðinga.
Þá sé gefið út að það sé pláss fyrir alla sem vilji taka kandídatsárið hér heima. „Hver verður reglan ef of margir sækjast eftir kandídatsári: Fyrstur kemur fyrstur fær? Við sem lærum við Háskóla Íslands höfum hugsanlega ekki forgang,“ segir Helga. Árni segir skorta á stefnumörkunina. „Hingað til hafa um 15 verið að útskrifast úti en nú verða 40 og næst 45. Þetta hefur verið ljóst í þrjú, fjögur ár og enginn pælt í því svo við vitum.“
En eitthvað að lokum?
„Ég hlakka til að verða meðlimur í Læknafélaginu,“ segir Helga. Þau hlæja öll. Árni: „Já, ef við ættum að koma skilaboðum til Læknafélagsins væru það þau að hugsa aðeins meira um læknanema.“