12. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Ný heilbrigðisstefna mótuð fyrir árið 2030
Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður ráðherra og fyrrum landlæknir, tók
ítrekað til máls yfir daginn og rakti drög að heilsustefnu yfirvalda fyrir
árið 2030. Mynd/gag
Vel á þriðja hundrað mættu á Heilbrigðisþing velferðarráðuneytisins á Grand hóteli föstudaginn 2. nóvember. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnti þar drög að heilbrigðisstefnu, sem stefnt er á að taki gildi árið 2030 og tók við tillögum og umsögnum að úrbótum úr sal. Svandís nefndi að yfir 60% Evrópulanda hefðu sett sér heildstæða stefnu árið 2016 sem tæki mið af heilbrigðisstefnu Evrópu til ársins 2020.
Svandís sagði að íslenskt samfélag ætti að geta sameinast um skýra og markvissa stefnu og sýn í heilbrigðismálum fyrir árið 2030. Með aðstoð Birgis Jakobssonar, aðstoðarmanns síns og fyrrum landlæknis, kynnti hún þá sviðsmynd sem ráðuneytið sæi fyrir sér árið 2030. Þar bar hæst það markmið að árið 2030 verði íslensk heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða og öryggi og gæði þjónustunnar eins og best verður á kosið. Heilsuefling og forvarnir verði hluti af þjónustu heilsugæslunnar, sem yrði fyrsta stopp sjúklinga í leit að bata.
Fyrirmyndar starfsvettvangur
Undir liðnum fólk í forgrunni í drögum að stefnunni segir Birgir að mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins verði greind og mönnun heilbrigðisþjónustunnar tryggð árið 2030. Heilbrigðisstofnanir verði eftirsóttir vinnustaðir og þekktir fyrir gott starfsumhverfi og góð samskipti. Skýrar reglur verði um aukastörf starfsfólks.
Undir liðnum hugsað til framtíðar sagði að hver þáttur heilbrigðiskerfisins yrði kostnaðargreindur og fjármagnaður með gagnsæjum hætti. Starfsfólk fengi möguleika á að starfa við vísindavinnu og gæðaverkefni í ákveðinn tíma á ári. Læknar á háskólasjúkrahúsinu sinni einnig kennslu og vísindum og styrkir bjóðist til vísindarannsókna. Námið fylgi ströngustu kröfum og ný lyf og tækni aðeins innleidd þegar notagildið hafi sannað sig.
Heilsugæslan verði tilbúin
Undir liðnum rétt þjónusta á réttum stað sagði Birgir að allir landsmenn ættu að hafa aðgang að einföldum upplýsingum um hvert skuli leita eftir heilbrigðisþjónustu ef þörf væri á. Hann lýsti því hvernig skilgreina ætti heilbrigðisþjónustuna eftir stigum: „Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður sjúklinga inn í heilbrigðiskerfið,“ sagði hann og bætti við að hún væri hugsanlega ekki í stakk búin til þess í dag en yrði það árið 2030. Sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss heyrði til annars stigs og háskólasjúkrahúsið þess þriðja.
Áhugavert var að heyra hann lýsa heilsugæslunni eftir þennan rúma áratug: „Heilsugæslan hefur yfir að ráða víðtækri þekkingu heilbrigðisstarfsfólks, auk lækna og hjúkrunarfræðinga. Starf heilsugæslunnar einkennist af teymisvinnu þar sem unnið er í nánu sambandi við félagsþjónustuna með hagsmuni notenda í forgrunni. Heilsugæslan tekur virkan þátt í heilsueflingu og heilsueflandi móttöku og býður upp á ráðgjöf um heilbrigðan lífsstíl fyrir einstaklinga og hópa eftir því sem við á.“
Þá sagði hann að árið 2030 yrði umfang þjónustu sérfræðinga utan háskólasjúkrahúss ákveðin í samningum við Sjúkratryggingar Íslands í samræmi við þarfir notenda á hverjum tíma.
Nýr spítali risinn 2030
Birgir sagði að þar sem væri verið að horfa til ársins 2030 væri hægt að gera ráð fyrir að nýr Landspítali yrði risinn með góðri aðstöðu fyrir bráða- og valkvæða þjónustu ásamt öflugri dag- og göngudeildarþjónustu.
„Hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss hefur verið styrkt og þar er hátækniþjónusta veitt og sérhæfð þjónusta sem ekki er hægt að veita annars staðar á landinu,“ sagði hann. „Landspítali hefur skipulagt samstarf við háskólasjúkrahús á Norðurlöndum þangað sem hátækniþjónusta sem ekki er unnt að veita hér á landi er sótt.“
Hann nefndi sérstaklega að árið 2030 ætti ekki að vera tilviljunum háð hvaða sjúklingar fái annað álit læknis og hverjir þeirra hafi möguleika á að leita hátækniþjónustu út fyrir landsteinana: „Það á ekki að þurfa að byggja á kunningsskap eða öðrum forréttindum.“
Stefnumótun fyrir landsbyggðina
Birgir sagði stefnt að því að legurými spítalans verði einungis notuð fyrir þá sjúklinga sem þurfi á því þjónustustigi að halda. „Hlutverk sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahúss og veitanda sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu fyrir tilgreindar heilbrigðisstofnanir hefur verið tilgreint og styrkt. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við reynum í lengstu lög að styrkja Norðurland og landsbyggðina á þessu sviði.“
Stefnt er að því að árið 2030 verði í gildi langtímasamningar sjúkrahúsa við erlend sjúkrahús sem feli í sér möguleika til vísindastarfsmenntunar og sameiginlegrar þróunar á heilbrigðisþjónustu.
Ráðuneytið vill sjá að landsmenn hafi gott aðgengi að þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir um val á heilbrigðisþjónustu, til dæmis um rafræna notendagátt eins og Heilsuveru. Þá sagði Birgir að sérhver sjúklingur hafi árið 2030 eina samræmda sjúkraskrá sem sé aðgengileg viðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum í samræmi við óskir hans. Hann hafi aðgang að sjúkraskrá sinni og sjái stöðu sína í greiðsluþátttökukerfinu.
Þjónustan mæld og bætt
Reglulegar þjónustukannanir verði gerðar þar sem sjónarmið notenda verði nýtt til að bæta þjónustuna. Gera þurfi þær reglulega, ef nota eigi upplýsingarnar í hefðbundnu umbótastarfi.
Undir liðnum gæði í fyrirrúmi kom fram að Ísland ætti að vera leiðandi á heimsvísu í því að sýna mælanlegan árangur heilbrigðiskerfisins. Greiðslur til stofa og stofnana taki mið af niðurstöðunni.
Sjúkratryggingar Íslands annist alla samningagerð um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins. Kaupin byggist á þarfagreiningu og ef forgangsröðunar sé þörf verði þeir sjúklingar sem þurfi mest á læknisþjónustu að halda og búi við verst lífskjör settir í forgang.