12. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Frá aðalfundi LÍ: Vandi landsbyggðarinnar verði leystur

Aðalfundur Læknafélagsins var haldinn 8.-9. nóvember

                                         
                                          Ný skipan liðsheildarinnar innan LÍ gerði það að verkum að það var nýr
                                          andi og fersk stemmning á þessum aðalfundi. Mynd/Védís

                          

Svo fáir læknar eru víðs vegar um land að þungi þjónustunnar hvílir á herðum eins eða örfárra lækna, sagði Svandís Svavars-dóttir heilbrigðisráðherra þegar hún ávarpaði aðalfund Læknafélagsins. Bæta þurfi aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu hér á landi.

„Það verður að vera samvinnuverkefni stjórnvalda og lækna sjálfra að tryggja viðunandi heilbrigðisþjónustu um land allt,“ sagði hún þegar hún stiklaði á helstu málum sem hún hyggðist koma í framkvæmd í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Svandís ræddi nýja heilbrigðisstefnu og hvernig leggja ætti aukna áherslu á heilsugæslu landsins.

                                                 
                                     Reynir formaður og Svandís ráðherra í pontu við upphaf aðalfundarins 2018, - í
                                     ársskýrslu formanns var rakin dagskrá afmælisins sem nú er að renna sitt skeið.
                                     Félagið, læknar, Læknablaðið, Læknadagar, alls staðar hefur 100 árum í sögu
                                     félagsins verið faganð. - Hápunkturinn var fundur aðþjóðafélags lækna, WMA,
                                     í Hörpu í októberbyrjun.
                                     Myndir/gag.

Minntust bæði á laun lækna

Salur Læknafélagsins var þéttsetinn á þessum fyrsta aðalfundi eftir að aðildarfélögin urðu fjögur; Félag almennra lækna, Félag íslenskra heimilislækna, Félag sjúkrahússlækna og Læknafélag Reykjavíkur. Svandís kom einnig inn á kjör lækna og að þau væru samkeppnishæf við það sem gerist í öðrum löndum. „Þar höfum við náð til lands,“ sagði hún.  

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins, setti fundinn og í greinargerð um starfsárið kom hann inn á kjörin og komandi kjaraviðræður. Sagði að þrátt fyrir kjarabætur í viðræðunum 2014 væri ljóst að laun lækna hefðu ekki hækkað sem skyldi, miðað við aðrar stéttir. Hann taldi einnig mikilvægt að samningar nýráðinna lækna yrðu skoðaðir, því það bæri á mistúlkunum á kjarasamningnum í ráðningarsamningum þeirra.

Reynir ræddi einnig, eins og Svandís, um vandann á landsbyggðinni og sagði að ráðast þyrfti í átak vegna skorts á læknum þar. Endurskipuleggja þyrfti starfsemina á ýmsa lund.

                                         
                                          Virkir, áhugasamir og vakandi félagsmenn í hinu 100 ára gamla félagi,
                                          LÍ.
                                          Myndir/gag.

                                           
                                           Kristján Vigfússon og Reynir Arngrímsson. Kristján er lektor í HR og stýrði
                                           öflugu hópastarfi á aðalfundinum þar sem fulltrúum var skipað í nokkra
                                           8 manna hópa til að skeggræða um stefnumótun í heilbrigðismálum.
                                           Mynd/Védís

                                             
                                             Sú nýbreytni var prófuð að láta allan hópinn raða sér í aldursröð,
                                             þegjandi og hljóðalaust og án fums og fáts,  - en það var talsverður órói
                                             í bekknum.
                                             Mynd/Védís

Skortir á vilja til að fá lækna heim?

„Ekki eru svo mörg ár síðan mönnun þar var stöðug, en það brotnaði niður eftir að farið var í hagræðingaraðgerðir. Það starfa 800 íslenskir læknar erlendis og þeim fer fjölgandi,“ sagði Reynir og að það skorti á skilning á því að læknar komi ekki heim til að vinna. „Ákveðinn kúltur“ gagnvart læknum haldi þeim frá.

„Það er enginn skortur á læknum en það skortir vilja til að ráða þá á þeim kjörum sem þarf svo þeir komi heim,“ sagði hann. „Það er ekkert mál að leysa mál landsbyggðarinnar ef það er virkilegur vilji til. Það þarf vilja til að hleypa þessum læknum heim til landsins.“

Rekstrartekjur Læknafélagsins hækkuðu um rúm 11% milli ára og námu um 141.389.227 krónur árið 2017.

Allir ársreikningar félagsins, ársreikningur LÍ 2017, Fræðslustofnunar lækna, Orlofssjóðs og Fjölskyldu- og styrktarsjóðs, voru samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica