12. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Vildu koma fyrr að stefnumótuninni fyrir heilbrigðisstefnuna segir Reynir Arngrímsson

Stefnumótunin fyrir heilbrigðiskerfið er raunhæf og þörf, segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. Hann segir að félagið hefði viljað koma fyrr að vinnu við hana því ákveðnir hópar hafi orðið útundan í fyrstu drögum hennar

 

„Flest markmiða heilbrigðisstefnunnar eru tiltölulega raunhæf. Mikilvægt er að við sjáum hvert við stefnum og hvar við viljum sjá heilbrigðiskerfið á þessum tímamótum. Stefnumótun sem þessi gerir starfið faglegra og markvissara,“ segir formaður félagsins Reynir Arngrímsson um heilbrigðisstefnuna til ársins 2030.

„Læknafélagið hefði þó kosið að koma fyrr að vinnu að stefnunni. Vinnufundir með stjórnendum heilbrigðisstofnana, Landspítala og heilsugæslunni voru frá þegar félaginu var boðið til kynningar í velferðarráðuneytinu.“ Það sjáist á drögunum. Fyrst á heilbrigðisþinginu í nóvemberbyrjun hafi félagið fengið gögn í hendur til að vinna með.

„Þar sást að stefnan endurspeglar hópinn sem kom að frumvinnunni en greinilega vantaði að ræða við þá sem hafa sinnt samningsbundinni heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa,“ segir hann. „Horfa þarf til þess hvernig sú starfsemi á að þróast, því öll er þessi þjónusta hluti af sömu keðjunni.“

Reynir segir fátt í stefnunni sem læknar geti ekki sætt sig við en nefnir fleiri hluti sem vanti. „Við hefðum til dæmis viljað sjá markmið um að auka fjárframlög til heilbrigðiskerfisins á þessu tímabili,“ segir hann.

„Við eyðum langminnstu af okkar sameiginlegu sjóðum til heilbrigðismála sé miðað við Norðurlöndin. Þar hefðum við viljað sjá stefnumörkun um að við stæðum jafnfætis því sem þar gerist best,” segir hann.  

„Við hefðum einnig viljað sjá markmið sett um innviðauppbyggingu innan heilbrigðiskerfisins og að ákveðnu marki yrði náð á þessu tímabili. Ekki er langt síðan að við sátum í næstneðsta sæti af OECD-löndunum varðandi fjármagn sem fer í slíka uppbyggingu. Við sjáum enda hvernig ástand á húsnæði er og hvernig það þróaðist og hvernig tækjakaupin drógust aftur úr hjá okkur,“ segir Reynir.

„Vissulega hefur núverandi ríkisstjórn og sú sem var á undan verið að auka framlögin hægt og bítandi og það er mikil innspýting að byggja upp Landspítala og húsnæði hans.“

Reynir segir þó að horfa verði til þess að heilbrigðisstefnan sé aðeins stefnumótun. „Margir vilja rugla þessu saman við aðgerðabindingu og fjármögnun. Það er ekki markmiðið á þessu stigi hjá ráðuneytinu.“ Margir velti því nú hins vegar fyrir sér hvernig eigi að ná markmiðunum.

„Þó að þetta sé stefnumörkun til ársins 2030 er hún almenn eðlis og ætti því að geta staðist pólitíska sviptivinda. Hvernig menn ná þessu markmiðum getur verið mismunandi eftir pólitískum skoðunum, samfélagslegum breytingum og þrýstingi. Þá umræðu eigum við eftir að taka. Hún heyrir til næstu skrefa þegar fólk er orðið sátt við stefnuna og hvar við ætlum að standa árið 2030.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica